30. ágúst 2007

Afsakið hlé

Jafnvel glámskyggnustu lesendur ættu að hafa tekið eftir því að lítið hefur verið skrifað hér síðustu tvær vikur. Það sama mun verða uppi á teningnum næstu viku eða tvær, svo ykkur er velkomið að hætta að fylla tölvupósthólfið mitt af bónum og svívirðingum þangað til - þó hvort tveggja ylji mér reyndar um hjartaræturnar.

11. ágúst 2007

Gay Pride 2007

Framlag mitt til fagnaðar hýrra er nýr bolur í Nýlenduvöruverzlunina. Gjörið svo vel: Gay Pride bolurinn 2007:

Vel á minnst



Það var annaðhvort að henda þessu í ruslið eða hingað. Það vantar að vísu spurningarmerkið en skítt með það.

Er ég það sem ég er?

Í dag munu kyn(lífs)villingar streyma niður Laugaveg í árlegri gleðigöngu sinni. Teprulegir hommar og kúluvarparalegar lesbíur munu skekja sig og skæla framan í sykursjokkeruð börn og flóttaleita foreldra þeirra. Sjálfkynhneigðir hafa fyrir löngu uppgötvað að tvennt er öruggt með að trekkja að skríl. Ókeypis drasl og farandviðundrasýningar (sirkusar). Og þessar hneigðir togast á í fólki um helgina. Beturmegandi skrílshlutinn stenst ekki ómótstæðilegt aðdráttarafl ókeypis skreiðarsúpu á Dalvík og þeir, sem heima sitja, horfa á páfuglastél viðundra í miðborginni.

Samkynhneigðir eru líklega eini sjúklingahópurinn í sögu læknavísindanna, sem tekist hefur að láta afmá sig úr læknabókum með einelti. Hvar sem fleiri en þrír amerískir geðlæknar komu saman voru mættir gargandi páfuglar, sem hleyptu upp samkomunum. Þar kom, að geðlæknarnir gáfust upp. Tóku kynvillu af skrá yfir geðraskanir. Sá, sem fremstur fór í flokki þeirra lækna, sem vildu gera þá breytingu, dauðsér eftir því í dag. Segist miður sín yfir því að hafa látið eineltisseggi ráða för fremur en eigin sannfæringu og dómgreind.

En er samkynhneigð geðveiki? Flestir eru nógu hrifnir af eigin kyni til að stunda gegndarlaust kynlíf með sjálfum sér frá því fyrir fermingaraldur og svo lengi sem vöðvaafl leyfir. Er það vegna kynferðislegrar hrifningar af eigin líkama eða sprottið af hinum sjálfselska grunni, sem allt kynlíf sprettur í raun af? Ég hallast að hinu síðarnefnda.

Geðveiki er varla hægt að skilgreina öðruvísi en einhverskonar afbrigði mannlegs eðlis, sem hefur skaðlegar afleiðingar í för með sér. Slík skilgreining er auðvitað full af götum. Hvað með manneskjuna, sem er svo staðföst gagnvart yfirgangsseggjum, að hún lætur frekar lemja sig til bana en að brjóta gegn mikilvægum lífsreglum? Í einhverjum kringumstæðum væri slík manneskja greinilega geðveik (til dæmis ef hún léti drepa sig frekar en að láta af hendi lukkuhandklæðið sitt í ránstilraun) en í öðrum aðstæðum væri hún virðingarverð.

Samkynhneigðir segja oft að hneigðin sé heilbrigð (þótt hún sé afbrigðileg í einfaldri merkingu þess orðs) svo fremi að þeir, sem kynhneigðina bera, séu viðurkenndir meðlimir samfélagsins. Benda á, að flestar af neikvæðum afleiðingum kynhneigðarinnar, stafi af árekstrum við óbifanlegt samfélag. Á móti má auðvitað segja, að hægt væri að losna við mikið af neikvæðum verkunum oflætis eða geðklofa ef samfélagið færi að kóa með þeim geðsjúka. Þegar sjúklingurinn tryði lækninum sínum fyrir því að samsæri stæði fyrir dyrum og að verið væri að reyna að byrla sér ólyfjan, þá tæki læknirinn heilshugar undir og saman myndu þeir stofna litla leyniþjónustu. Geðsjúklingurinn fengi svo fyrirmæli frá forsetanum um ýmis verkefni, sem hægt og rólega myndu leiða til eins hamingjuríks lífs og kostur væri á. Það er nefnilega svo, að mjög margir geðsjúkdómar hljóta skaðsemi sína fyrst og fremst frá óþjálum snertipunktum þess sjúka og samfélagsins.

En við getum bætt skilgreininguna þannig, að það sé geðveiki, sem við getum í fullri einlægni sagt, að betra væri að vera án. Sjálfkynhneigðir gætu þar með hrópað hipphipphúrra og bent á, að þá langi óskaplega að fá að vera í friði með sínar skaufsugur og skæri. En slíkt væri ómarktækt. Í fyrsta lagi vantar samanburðinn. Í öðru lagi er það eðli manna að þeir læra að ala sorg sína. Fólk þakkar stundum fyrir þá gjöf, sem krabbamein, barnslát eða barsmíðar hafi reynst.

Stærsta þrætueplið hvað varðar samkynhneigð er það, hvort um sé að ræða meðfætt, óbreytanlegt ástand. Hommar og lesbíur halda því statt og stöðugt fram. Með því móti þurfa þau ekki að standa með vali sínu eða réttlæta fyrir neinum. Mótmælendur halda því fram að hægt sé að innræta samkynhneigð, þjálfa hana upp eða koma henni í tísku. Ég held, að hvorttveggja sé rétt. Ég efast ekki um það eitt augnablik að hið félagslega yfirborð gay-samfélagsins, þar sem allir eru elskaðir og velkomnir (og ég segi yfirborð, því mig grunar að hýrleikinn kárni þegar betur er skoðað) laði að sér tvær manngerðir. Félagslegt undirmálsfólk, sem sér færi á endurfæðingu, og forvitnar sálir. En það er óumdeilt að til eru hommar og lesbíur, sem eiga ekkert val.

Er það fólk geðveikt?

Við gætum skipt orðinu samkynhneigð út í allri þessari umræðu fyrir orð eins og drykkjusýki eða þunglyndi. Flest myndi passa. En þetta snýst um skaðsemina fyrst og fremst. Eða hvað? Samkynhneigð fylgja eins og gráir kettir ýmis vandamál, þunglyndi, sjálfsvíg, lauslæti, sjúkdómar o.s.frv. Fyrir einhverjum eru þau sönnunargögn nóg til að flokka hneigðina sem andlegan krankleika. Samkynhneigðir hafa þá aðeins eina vörn og hún er sú að flytja sökina yfir á aðra. Ég held það sé ekki alltaf hægt. En, og þetta held ég sé lykilatriði, það þarf ekki að komast að þeirri niðurstöðu að vandamálin séu til marks um sjúkleika. Það eru til skrilljón dæmi um yfirburðafólk, sem ekki gat snúið sér hálfhring án þess að rekast á lamandi, andlegt vandamál. Það er jafnvel oft talið að yfirburðunum hafi vandamálin fylgt. Það er samt útilokað að afskrifa slíkt fólk sem skaðlegt fyrir samfélög. Öðru er nær. Einkennilega oft var samkynhneigð eitt þessara vandamála.

Tilvist (og viðurkenning) samkynhneigðra gæti hæglega, og ég held að það sé augljóst sæmilega greindu fólki, verið til bóta fyrir samfélög, frekar en vansa. Okkur stendur áfram stuggur af samkynhneigðum fíflum en hættan kemur til af fíflskunni, samkynhneigðin breytir aðeins birtingarmynd hennar og er aukaatriði málsins.

Umræða um samkynhneigð mætti þó vera miklum mun frjálslegri og opnari. Samkynhneigðir ættu að vera miklu viljugri til sjálfsskoðunar og gagnrýni. Það hefur verið sérhlífinn plagsiður þeirra hin síðari ár að stunda opinberunarbaráttu. Þar sem hin opinberuðu sannindi réttlæta öll meðöl. Að hóta fólki málsókn trekk í trekk og neita að fallast á annað en eina (heldur vafasama) skýringu – er til vansa.

Samkynhneigðir minna um margt á gyðinga. Í fyrsta lagi eru þeir séðir í að koma ár sinni fyrir borð (hafa t.d. töluvert háar meðaltekjur í siðuðum löndum), aðhyllast dogma og lifa í lokuðum samfélögum, sem snúa mjög einföldu andliti að almenningi.

Það á að rífa upp og opna samfélag samkynhneigðra. Hætta að forðast sum umræðuefnin, skoða ýmsa misbresti og ýkjur óttalaust. Opin umræða mun á endanum skila gáfulegustu niðurstöðunum.

9. ágúst 2007

Fréttir af fólki

Til að laða skríl að blöðum sínum hafa bæði Fréttablaðið og Blaðið sérstakar síður fyrir slúður og innihaldslítil viðtöl við fólk, sem langar að vera frægt.

Blaðamennskan á þessum síðum er á tíðum sérstaklega faglega lágstemmd. Í blaðinu Blaðinu var um daginn kersknisfull frétt um að Pálmi, liðsmaður Sniglabandsins, væri farinn að óttast um stöðu sína í bandinu vegna einhvers dvergvaxins söngvara, sem tók lagið með þeim. Undir stóð að Pálmi hefði, að venju, spilað á Austurvelli um þáliðna helgi. Hið rétta er, eins og allir vissu, sem sáu Sniglabandið eða hlustuðu á tónlist þeirra, að Pálmi var hvergi nærri - á hljómborðið spilaði Níels Ragnarsson íhlaupaorganisti.

Sama blað skúbbaði afhjúpun Mengellu og vísaði til þessarar síðu. Ekkert hér gaf tilefni til þess.

Fréttablaðið slær sérlega lágan tón með viðtali við Svanhildi-hans-Loga. Svanhildur og blaðamaðurinn koma fyrir sem ómálga skrípi. Samanber:


Kokkurinn vildi hins vegar ekkki gefa of mikið upp um uppskriftina, sagði uppistöðuna vera ferskan fiskur, rjóma og áfengi...


Þeir gestir verða hins vegar að bíta í það súra epli að fá engar kræsingar þetta árið og neyðast til að leggja land undir fót ef þeir vilja fá súpu þetta árið.


"Mamma og pabbi hefur farið hingað ár hvert...

7. ágúst 2007

Sumardvöl í sveit

Mér var boðið í sumarbústað í eigu verkalýðsfélags um helgina. Ég þáði boðið. Slíkir bústaðir eru alltaf skemmtilega absúrd. Bækurnar, til að mynda. Það er ekki til svo vonlaust verkalýðsfélag, að það beri ekki í bústaði sína bækur. Eða að það hafi ekki borið, því flestar bækurnar eru eldgamlar og nýliðun hæg. Bækurnar eru frá þeim tíma, sem kalla má andvarp bókaþjóðarinnar. Tíminn, þegar þjóðin hætti að stæra sig af bókum. Og síðustu áratugi almenns bóklestrar var útgefið og lesið argasta rusl.

Ef marka má þann bústað, sem ég fór í um helgina, er verkalýðurinn afar ginnkeyptur fyrir kukli. Önnur hver bók var um sálfarir, framhaldslíf eða álíka ára. Ég las af athygli tvær bækur. Önnur var óskaplega léleg þýðing á breskri bók. Hún hét Fleiri en eitt líf og innihélt upprifjanir dáleidds fólks á fyrri lífum. Fór þar mest fyrir húsmóður einni, sem í senn hýsti sálir nunnu, rómverskrar stúlku og ofsótts gyðings og hafði samt pláss fyrir a.m.k. þrjár sálir í viðbót. Bókin var skrifuð af þáttargerðarmanni hjá BBC, sem hafði fengið Magnús Magnússon í lið með sér við að gera sjónvarpsþætti um málið. Magnús skrifaði formála. Efnistökin minnti á óöruggar þreifingar feimins unglings á stefnumóti. Höfundinn langaði rosalega til að segja svolítið en kom sér aldrei beint til þess.

Aðra bók las ég, sem hefur sloppið framhjá mér hingað til. Einbjörn Hansson eftir útvarpsmanninn knáa Jónas Jónasson. Bókin er skrifuð innblásin af anda Þórbergs og er á köflum hrein stæling á bókum hans. En ég hafði bara gaman af henni. Hún var fljótlesin og lágstemmd. Hún minnti á mýri frekar en læk og var þá aðeins leiðinleg þegar höfundurinn var að reyna að gera eitthvað meira úr henni.

3. ágúst 2007

Hæ, hó...

Í þessum skrifuðu orðum var ég að klára að pakka niður. Ég mun eyða helginni í sveitarsælunni, fjarri rafrænum samskiptamátum. Það er þó ekki óhugsandi að ég bloggi eins og eitt blogg hérna á meðan.

2. ágúst 2007

Bókin um manninn

Einhver dásamlegasta bók, sem til er, heitir Bókin um manninn. Hún er eftir Fritz Kahn og er, eins og nafnið gefur ærlega til kynna, alþýðleg fræðibók um dýrategundina manninn.

Uppáhaldskafli minn í þeirri bók er 32. kafli. Yfirskrift hans er Nautnavörur: kaffi, te, tóbak, áfengi. Til að deila með lesendum dásemdum kaflans eru hér nokkur brot:



Hugtakið eitur á varla við neitt, er finnst í náttúrunnar ríki. Geitur geta étið 20 g af morfíni og haldið áfram að ráfa um eins og ekkert hefði í skorist. Kanínur éta belladonna með bestu lyst...


Sama efnið þarf ekki að vera eitrað fyrir alla einstaklinga sömu tegundar. Vindill er t.d. meinlaus fyrir föðurinn, er nýtur hans makindalega í hægindastólnum sínum. En fyrir þriggja ára barnið, sem leikur sér við kné hans, væri vindillinn banvænn.


Í brenndri kaffibaun er mesti fjöldi dýrmætra efna, og hafa þó ekki öll efnasambönd hennar verið greind ennþá.


„Spekingar“ töldu það sannað, að kaffið væri sterkt eitur [...] En Gústav Adolf Svíakonungur var hygginn maður. Hann treysti ekki í blindni skoðunum lækna sinna, heldur vildi hann sjálfur sannprófa, hvort þær væru réttar.


En þegar svo morgunkaffið er drukkð, víkka æðarnar, síur nýrnanna fyllast af blóði, þvagmyndun og sviti eykst, og þannig losnar líkaminn við mikinn hluta úrgangsefnanna, sem söfnuðust fyrir um nóttina.


Reykingar deyfa og þreytutilfinningu og örva hugarflug.

Afhjúpun (revisited)

Þeir, sem þetta lesa að staðaldri, þekkja auðvitað hinar fjölmörgu tilraunir til að fletta nafnleysinu ofan af mér. Í öllum þeim tilraunum hefur verið farið fram af meira kappi en forsjá. Menn hafa hengt sig á allskonar sönnunargögn og jafnvel fundið ástæðu til að deila sannfæringu sinni með öðrum. Stundum ansi ríka ástæðu.

Ég tók þá ákvörðun þegar ég byrjaði að blogga aftur, að ég nennti ekki að standa í Hver er Mengella? leiknum. Ekki það, að nafnleysi mitt sé eitthvað krosstré, sem ég þori ekki að setja bresti í af ótta við að byggingin hrynji til grunna. Ég er ekkert feimnari í eigin persónu en sem Mengella. Ef einhver telur sig eiga sökótt við mig, t.d. í dómssölum, þá mun ég ekki skorast undan ábyrgð. Ég er ekki hrædd við neitt sem viðkemur nafnleysi.

Það er reginmisskilningur að nafnleysi sé ætíð sprottið af ótta við afhjúpun. Fólk sem setur brennimerkt samasemmerki á milli þessa er að opna glugga inn í einkennilega vanmáttugt andlegt líf.

Málið er einfaldlega það, að það er drepleiðinlegt að fást við ástríðufulla karlmenn, titrandi af geðshræringu, sem þreytast ekki á að básúna opinberanir sínar af fjallstindi. Þetta blogg getur ekki annað en versnað við það.

Það að ég sé Ólafur Sindri, er hvorki ný saga né frumleg. Hið mikla skúbb vitringabróðurins er gömul vísa. Hér kveður þó nýrra við. Bróðirinn segist hafa rafræn sönnunargögn. Hann segist sum sé hafa fengið grun um vissa IP-kennitölu og fengið því flett upp hver notandi hennar sé.

Ég gef ekki fimmeyring meira fyrir þessa nálgun að hamflettingu minni en þær fyrri. Þetta er sami grauturinn í nýrri skál. Hinsvegar þætti mér áhugavert að vita hver viðbrögð þess ákærða verða. Mér vitanlega þarf dómsúrskurð til að tengja nafn við IP-kennitölu með þessum hætti. Miðað við fyrstu viðbrögð er honum þó nokk sama.

En þetta gerir bróðirinn auðvitað hræsnislaust. Hann er í lítilli míkrókosmoskrossferð fyrir bættum samskiptum á netinu og í því heilaga stríði eru auðvitað flest meðöl leyfileg. Nema það sé DV-kenndur skúbbhrollurinn sem hann er að fiska eftir. Það skyldi þó ekki vera. Brandarinn um hermiblogg farinn að volgna og því dregin fram Stóra bomban.

Þið megið fantasera um hver ég er eins og ykkur lystir. Mér er slétt sama. En, til að hindra annað flautublásarakjaftæði, ætla ég ekki að leggja síðuna mína undir þær hugleiðingar frekar. Skrifið það sem þið viljið í athugasemdir en látið ykkar eigin vettvang duga undir opinberanir.