7. ágúst 2007

Sumardvöl í sveit

Mér var boðið í sumarbústað í eigu verkalýðsfélags um helgina. Ég þáði boðið. Slíkir bústaðir eru alltaf skemmtilega absúrd. Bækurnar, til að mynda. Það er ekki til svo vonlaust verkalýðsfélag, að það beri ekki í bústaði sína bækur. Eða að það hafi ekki borið, því flestar bækurnar eru eldgamlar og nýliðun hæg. Bækurnar eru frá þeim tíma, sem kalla má andvarp bókaþjóðarinnar. Tíminn, þegar þjóðin hætti að stæra sig af bókum. Og síðustu áratugi almenns bóklestrar var útgefið og lesið argasta rusl.

Ef marka má þann bústað, sem ég fór í um helgina, er verkalýðurinn afar ginnkeyptur fyrir kukli. Önnur hver bók var um sálfarir, framhaldslíf eða álíka ára. Ég las af athygli tvær bækur. Önnur var óskaplega léleg þýðing á breskri bók. Hún hét Fleiri en eitt líf og innihélt upprifjanir dáleidds fólks á fyrri lífum. Fór þar mest fyrir húsmóður einni, sem í senn hýsti sálir nunnu, rómverskrar stúlku og ofsótts gyðings og hafði samt pláss fyrir a.m.k. þrjár sálir í viðbót. Bókin var skrifuð af þáttargerðarmanni hjá BBC, sem hafði fengið Magnús Magnússon í lið með sér við að gera sjónvarpsþætti um málið. Magnús skrifaði formála. Efnistökin minnti á óöruggar þreifingar feimins unglings á stefnumóti. Höfundinn langaði rosalega til að segja svolítið en kom sér aldrei beint til þess.

Aðra bók las ég, sem hefur sloppið framhjá mér hingað til. Einbjörn Hansson eftir útvarpsmanninn knáa Jónas Jónasson. Bókin er skrifuð innblásin af anda Þórbergs og er á köflum hrein stæling á bókum hans. En ég hafði bara gaman af henni. Hún var fljótlesin og lágstemmd. Hún minnti á mýri frekar en læk og var þá aðeins leiðinleg þegar höfundurinn var að reyna að gera eitthvað meira úr henni.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég hef oft velt því fyrir mér hvaðan þessar bækur koma en aldrei nennt að spyrja.

Nafnlaus sagði...

Nú leikur mér forvitni á að vita hvaðan nafnið Mengella er komið. Og hvað það þýðir, ef það þýðir þá eitthvað?

Nafnlaus sagði...

Mér er fyrir mína parta slét og nákvæmlega sama af hverju einhver kallar sig Mengellu, það má vera það sem það er. En nickið minnir mig óhugnanlega á Dr. Mengele, sem var læknir í þýskum útrýmingarbúðum og skemmti sér við frumlegar tilraunir í læknisfræði á Gyðingum, svo sem að framkvæma uppskurði án deyfingar. Mengella hirðir ekki heldur um að deyfa lesandann áður en hún lætur vaða.

Nafnlaus sagði...

"Efnistökin minnti á óöruggar þreifingar"

Sjitt.