Hægdrepandi hugmyndafræði
Enn á ný gerist það. Ungur maður gegnsýrður af minnimáttarkennd plammar á samborgara sína og skýtur sig svo í hausinn. Og enn á ný er uppgefna skýringin róttæk hugmyndafræði.
Atburðir eins og þessi eru aldrei einfaldir og það er ekki hægt að benda á eina tiltekna skýringu. Það eru alltaf margir samverkandi þættir. En, við sjáum þó rauðan þráð liggja í gegnum Columbine - VT - og nú finnska skólann, sem kveikir vissar vangaveltur.
Allir morðingjarnir töldu sig vera fórnarlömb hugsanakúgunar samfélagsins. Og þeir töldu allir ennfremur að þeir hefðu séð í gegnum gljáfægt yfirborð leyfilegrar hugmyndafræði. Og það er ekki síst þess vegna – sem þeim tókst smám saman að einangra sig svo rækilega frá samfélaginu að dýrðlegt fjöldasjálfsmorð varð niðurstaðan.
Ég fullyrði að hægt hefði verið að afstýra þessum fjöldamorðum að hluta eða í heild með því að ástunda ábyrgt hugsanafrelsi. Þá hefðu Cho, Dylan og Klebold og nú þessi finnski aldrei náð að malla nógu lengi í réttlætingarsúpu ódæðisverkanna.
Þeir voru í raun allir sammála um grundvallaratriðin.
Þeir voru allir undirmálsmenn með mikilmennskubrjálæði. Útrás þeirra fólst í því að líta niður á samfélagið sem þeir tilheyrðu og sérstaklega þá þætti þess sem höfðu völd yfir þeim sjálfum (skólar). Aftur og aftur endurtóku þeir í sífellu í eigin eyru og skoðanabræðra á netinu að samfélagið væri hugsað fyrir aumingja, hannað fyrir veiklulegt mannkyn. Þar sem þeir voru allir utangátta í samfélaginu og þeim gekk ekki með hefðbundum aðferðum að aðlagast (tóku t.a.m. geðlyf) þá er eina skýringin sem sjálfsvirðingunni er samboðin sú að þeir séu af öðru sauðahúsi. Þ.e. að mistök þeirra við að aðlagast eru ekki vegna eigin vangetu heldur vegna þess að það sem verið er að reyna að gera úr þeim er veiklað og ómanneskjulegt. Það er verið að reyna að þvinga þá til að verða ómenni – aumar hjarðsálir. Og hægt og rólega verða þeir andfélagslegri og fjandsamlegri og hafa minni og minni áhuga á að meika það í samfélaginu. Samfélagið er ekki þess virði.
Og þeir fantasera um samfélag þar sem fólk fær að vera eins og þeir, skrítið, aggresívt og sjálfstætt. Og smám saman flýtur upp á yfirborðið sama hugmyndin. Hinir sterku þora! Þeir þora að fylgja lögmálum náttúrunnar, beita styrk sínum og engin leið er betri til að uppfylla þá fantasíu en að ganga yfir strikið – sýna fram á veikleika hjarðeðlisins – eyðileggja leikaraskapinn. Rífa samborgarana úr þessum steingeldu hlutverkum eitt augnablik og gera þá að dýrum með sterka sjálfsbjargarviðleitni. Kenna lexíu. Enginn sem verður á vegi byssumanns mun geta haldið lífi sínu áfram í sömu þægilegu vissu um öryggi leikreglnanna.
Og satt að segja er þetta dálítið sniðug pæling hjá þeim. Og þetta eru vel gefnir menn að ýmsu leyti. Ögn hégómlegir, sem sést best á því hve umhugað þeim er um að eftirlifendur túlki þá „rétt“. Að fólk haldi ekki að þeir séu bara a hlýða textum í einhverju lagi eða herma eftir tölvuleik. Það er miklu meiri pæling í þessu en svo.
Hitt er annað mál að pælingar þeirra leiða þá á algjörar villigötur. Þeir eru ekki ofurhreinskilnir fangar sem brjóta af sér hlekkina. Öll þeirra skynsemi er þræll vanmáttarkenndar vegna þess að þeir eru mislukkaðir einstaklingar. Og þeir hafa aldrei fengið að takast á við þessar pælingar því þær eru bannaðar. Ef þeir svo mikið sem hafa orð á því sem þeir eru að hugsa eru þeir sendir til sálfræðings sem gerir ekkert annað en að staðfesta vanmáttarkennd þeirra og reyna að móta þá enn á ný.
Það er ekkert hugsanafrelsi til. Það vill enginn ræða þessi mál í kjölinn. Svona fólki er bara skipað að þegja eða því refsað ef upp um það kemst. Og meðan engin rödd kemur fram með mótrökin verður sífellt auðveldara að týnast í myrkri eigin raka.
Finnski morðinginn var svona tíu sinnum gáfaðri en fíflin á bakvið Skaparann. Fyrir þeim er þetta leikur. Fyrir honum dauðans alvara. Þeir hafa meiru að tapa. Hann hafði engu að tapa. Þeir telja sig hafa á réttu að standa. Hann hafði þrauthugsað málið til enda.
En allir höfðu á endanum jafnrangt fyrir sér. Og allir létu glepjast af lélegum rökum. En enginn tók við þá slaginn. Enda ekki von. Í samfélagi sem vill ekki sjá tíu litla negrastráka er ekki líklegt að við séum tilbúin að rökræða við þá sem hafa enn róttækari skoðanir. Samt er rökræðan hugsanlega eitt af því fáa sem getur unnið hluta af þessu fólki til baka. Því enginn gerir svona nema hann telji að það að mestu sé hræsnislaust.
5 ummæli:
Áhugaverður pistill.
Er ekki frá því að vera bara sammála þér með þessar pælingar þínar.
Annars var gaman að sjá orðasambandið "dýrðlegt fjöldasjálfsmorð" í þessu sambandi, svona fyrst við erum nú að tala um finna :)
Já, það verður að játast að þetta er kveikjandi pistill.
Merkilegt hvernig blogg og youtube koma að þessu og hvernig það birtist í fjölmiðlum.
annað mál: kíktu nú á tribjútið mitt sem ég skrifaði í nafni ellýar, sem við virðumst báðar/æði hafa yndi af....
dúllídúll!
www.maggabest.blogspot.com
The way you describe them, they bear similarity to Mengella.
Skrifa ummæli