4. nóvember 2007

Ritskoðun og rasismi tvö

Það var nóg að gera hjá lesendum þessarar síðu í nótt. Tvennt stendur uppúr. Í fyrsta lagi var staðfestur grunur minn um að helstu andstæðingar negrastrákanna væru illa gefið þý í samtökum hinna blæðandi hjarta, lið sem er litblint á róf raka og gildismats. Hinsvegar kom Eyvindur Karlsson með athugasemd sem kallar fram það efni sem síðasta færsla mín hlýtur að krefjast svara við. Ég hafði hugsað mér að bæta því við í gær en hætti lengdarinnar vegna og vegna þess að það gæti truflað ringlaðri lesendur mína sem rista frekar grunnt þegar þeir leggja á ála hugsunarinnar.

Nema hvað. Einhver þokuheili ruddist fram og taldi nú hreinlega að ég væri að rugla þegar ég segði að Muggur og co hefðu ljáð negrastrákunum íslenskt, sveitarlegt yfirbragð. Þvert á móti væri um að ræða bersýnilegt innlegg í alþjóðarasisma og þyrfti ekki annað en að skoða hollenska bók um sama efni til að sjá að íslenska og niðurlenska bókin væru „nákvæmlega eins“. Þá kom einhver langhundur um að ég væri í fararbroddi einhverrar klíku og á hæla mér kæmu Egill Helgason og æi, hún þarna með hundsfésið, Kolbrún (sem raunar kom vel fyrir í síðustu Kilju sem var stórskemmtilegur þáttur, ekki síst þegar Egill runkaði egói ÁBS svo eftirminnilega að sá síðarnefndi gat ekki annað en roðnað og brosað hringinn – en það er önnur ella). Grautarheilinn klykkti svo út með að ég ætti ekki að vera að nefna Þórberg á nafn því hann hafi verið á móti rasisma og ég hefði áreiðanlega fordæmt hann og skoðanir hans ef við hefðum andað að okkur sama Reykjavíkurloftinu.

Tökum þetta í öfugri röð.

Já, ég hefði haft ýmislegt út á Þórberg að setja. Þó fyrst og fremst kinnroðalausa pólitíska innrætingu hans gagnvart börnum (að kenna Lillu Heggu að elska Stalín fimm ára gamalli er í hæsta máta siðlaust og snertir punkt Eyvindar sem ég sný mér að á eftir), en ég hefði vafalaust haft næga greind þá, eins og nú til að sjá að maðurinn var snillingur og vel þess virði að lesa þótt skoðanir hans í mörgum málum væru rangar og sumar hreint og beint heimskulegar. Og kannski ástæða til að lesa hann ekki síður vegna þessara lélegu skoðana. Nafnlausi moðhausinn gefur í skyn að það felist í því hræsni eða mótsögn að fárast yfir því að maður sé dæmdur fyrir skoðanir sínar sé maður ekki skoðanabróðir hans að öllu leyti. Hálfvitaskapur.

Það að ég kalli ritskoðunaræðið sem negradeilan er til marks um vinstrisinnaða byggir á augljósum samfélagslegum sannindum. Það eru ekki lengur borgaralegir hægrimenn í skátabúningum sem taka sér stöðu sem samviska heimsins. Það er vinstraliðið. Liðið sem þykist vera að lagfæra samfélag okkar og skafa af því óværu sem fyrst og fremst opinberast í „röngum skoðunum“. Það þarf ekkert að rökræða um þetta. Það neyðarlega er að sama fólkið, sumt af því a.m.k. hefur hingaðtil varið málfrelsið og gert útáþað að sjokkera, stuða og traðka á almennu velsæmi. Það er vegna ofureðlis negranærgætni sem málfrelsinu var óvart kastað fyrir róða og nú vita sumir ekki hvernig á að endurheimta það án þess að tapa andlitinu.

Hollenska negrabókin er mér vel kunn, ég var búin að skoða hana og þá þýsku raunar líka. Og þótt sú Hollenska sé yngri en sú íslenska þá er ofur augljós og einföld ástæða fyrir því hve líkar þær eru. Það geta allir séð með smá gúglun. Hitt er annað mál að báðar þessar bækur bera þess skýrt merki að vera ekki frá upprunalandi útgáfunnar. Reynsla Ameríkana af negrum var allt önnur en Íslendinga. Og þegar bókin kom út á íslensku var hún ekki að endurspegla rasistaskoðanir höfundanna eða þjóðarinnar á negrum. Þvert á móti er íslenska útgáfan full af heimfæringum á íslenska samfélagið, bæði í myndum og máli. Svo mjög að þegar hún kemur út gæti textinn allteins verið við einhvern sjómannavals.

Það er ekkert við örlög negrana sem endurspeglar fordóma Íslendinga gagnvart negrum. Hefði það verið hugmyndin hefði einn étið illa soðinn trúboða og fengið í magann, annar hefði séð sjálfan sig í spegli og misst vitið af hræðslu, þriðji hefði sett bein í nefið á sér og fengið sýkingu, fjórði hefði verið laminn af Tarzan, fimmti hefði óvart þurrkað og smækkað hausinn á sjálfum sér o.s.frv.

Íslendingar höfðu fullt af rasískum hugmyndum um negra á þeim tíma sem bókin kom út. Og þær hugmyndir voru alltaðrar en hugmyndir um ameríska leysingjasyni. Bókin er um þá og því um borgaralega negra. Í stað þess að heimfæra textann upp á hugmyndir þjóðarinnar um negra og gera hana framandi og hræðilega kusu höfundar að nota íslenskan veruleika. Og bókin úir og grúir af slíkum dæmum og allsstaðar þar sem íslenska og hollenska útgáfan eru ósamstíga er það vegna þess að sú íslenska er íslenskari.

Eyvindur kom með punkt gegn algjöru ritskoðunarleysi. Að vísu fyrirsjáanlegan punkt og einfaldan en málefnalegan engu að síður. Miðað við það sem ég sagði, væri ég þá til í að börn hefðu aðgang að myndum eins og Hostel?

Svarið er auðvitað nei. Og ég get haldið því fram hræsnislaust. Aftur er lykilorðið velsæmi.

Velsæmi er ekki það sama og almannahagur þótt það fyrrnefnda geti verið hluti af því síðarnefnda. Og ég hef þegar sagt að setja þurfi tjáningunni mörk með vísan til almannahags. Þannig geta morð og barnamisnotkun aldrei verið réttlætanlegur listrænn tilgangur. Það kemur velsæmi ekkert við. Velsæmi er spurning um smekk. Það hvort nauðga megi börnum og selja aðgang er ekki spurning um smekk. Það hvort sýna megi börnum klámmyndir eða hrollvekjur er ekki heldur spurning um smekk.

Segjum sem svo að lögregla bannaði fund nasista á efstu hæð byggingar sem væri svoleiðis í móðu vegna asbestryks. Slíkt bann hefði ekkert að gera með fundafrelsi. Og þegar við bönnum aðgengi barna að klámi kemur það engu tjáningarfrelsi við. Það er bannað því það telst með góðu móti börnum afar skaðlegt. Á sama hátt mætti banna listamanni að stunda þann gjörning að stökkva öskrandi út úr fataskápum hjartveikra ellilífeyrisþega. Slíkt bann kemur tjáningarfrelsi ekki við enda snýst deilan um réttmæti þess ekki um það hvað tjáningarfrelsi leyfi heldur eingöngu um skaðann sem af því getur hlotist.

Negrastrákadeilan snýst eingöngu um velsæmi. Það heldur því enginn fram að bókin sé sjálfkrafa skaðleg. Því er aðeins haldið fram að hún sé óviðeigandi, smekklaus og særandi. Hún veldur engum augljósum skaða.

Sagan er full af dæmum þar sem velsæmið tekst á við tjáningarfrelsið. Og rökin eru alltaf þau sömu, það breytast aðeins hlutirnir sem á að ritskoða, fela, merkja eða banna.

Alveg óvart erum við að verða að amerískum aumingjum.



Mæli með að fólk horfi á nákvæmlega sömu deilu í örlítið öðrum búningi, þar sem Frank Zappa stóð í eldlínunni gegn fólki sem fullyrti að eitís-tónlist væri skaðleg börnum og hana ætti að sérmerkja svo foreldrum reyndist auðveldara að vernda börn sín fyrir henni.






14 ummæli:

Nafnlaus sagði...

,,Deilan um 10 litla negrastráka er fyrst og fremst deila um ritskoðun."

,,Negrastrákadeilan snýst eingöngu um velsæmi."

Það ættir ekki að vera svona hrokafullur, svo mislæg eru skrif þín.

Ég skil þig betur núna með nafnleysið, það væri neyðarlegt upp úr þessu að koma undir nafni.

Heimskt er heimalið barn. Skilningsleysið skín af skrifum þínum. Hafðu það gott litli kall.

Nafnlaus sagði...

Ég nennti ekki að lesa þetta til enda. Yfirklór og diss. Og hvaða gáfnatal er þetta? Eru engin lög til um ritskoðun vegna leiðinda?

Nafnlaus sagði...

legg her med til ad blogg thetta verdi enduskyrt ur mengella i mean-della. mean-della er komin a hardahlaup fra sjalfum ser uppi eigin rass i thessari faerslu. thar aetti lika ad vera nog plass eftir alla tha drullu sem buid er ad skita a vegfarendur og gangandi af litlu tilefni. tilgangur thessarar sidu a vist ad vera gagnryni. svo er hlaupid upp til handa of fota thegar kona med litid blokkubarn gagnrynir rasistabok. thad er kallad ritskodun. madur faer bara aeluna uppi kok a thvi ad lesa thetta.

Nafnlaus sagði...

Gott og vel, þú talar um velsæmi vs. almannahag. Mér finnst þú troða ansi fína línu þegar þú greinir á milli hrollvekja og svona mikið umdeildra bóka á þennan hátt. Að mínu viti er þarna stigsmunur en ekki eðlis.

Svo það sé á hreinu finnst mér kjánalegt að tala um að banna bækur. Hins vegar finnst mér hið besta mál að bókin sé ekki innan um hinar barnabækurnar, einmitt vegna þess að hún er óviðeigandi, smekklaus og særandi. Þá hljóta foreldrar að geta ákveðið hvort þeir vilji lesa þetta fyrir börnin sín. Alveg eins og foreldrar hafa það vald að sýna börnum sínum bannaðar myndir.

Skoðum aðeins ástæður þess að myndir á borð við Hostel eru bannaðar. Það hlýtur að vera vegna þess að börn hafa ekki þroska í að meðtaka það sem gerist á skjánum, og þar af leiðandi geta myndirnar verið skaðlegar. En er það ekki einmitt það sem umræðan um Negrastrákana gengur út á? Að minnsta kosti öll vitræn umræða. Þessi bók býr ekki til rasista, hún er ekki skrifuð sem meiðandi verk (íslenska útgáfan, þ.e.a.s.). Hún á sér ógeðfellda sögu, og í henni kemur fyrir orð sem öllum blökkumönnum sem ég þekki finnst einstaklega særandi. Þetta snýst ekki um fleira. En eins og með kvikmyndirnar hafa börn ekki þroska til að skilja þetta. Börn skilja ekki að orð sem koma fyrir í barnabókum geti verið særandi fyrir aðra. Að minnsta kosti ekki nema einhver útskýri það fyrir þeim gaumgæfilega, og í ljósi þess að Íslendingum finnst ekkert athugavert við þetta grunar mig að það misfarist á mörgum heimilum.

Nafnlaus sagði...

Mér þykir fólk óttalega viðkvæmt að geta ekki lesið gagnrýni einnar manneskja á umræðu (sem er á frekar lágu plani að mínu mati) án þess að koma með eitthvað lúðalegt diss. Ég er sammála flestu sem kemur hérna fram.
Í sambandi við orðanotkunina "amerískir aumingjar" þá held ég reyndar að sýn Íslendinga á Ameríkana sé frekar furðuleg og að langmestu fengin úr bíómyndum og sjónvarpsþáttum en það er efni í aðra umræðu.
Hvað er fólk að commenta hérna bara til að kvarta og kveina þegar það veit nákvæmlega að hverju það gengur með að koma hingað? Allt í lagi að gagnrýna pistlana en fyrr má nú vera. Það þarf að vera með vælubílinn á speed dial.

Mengella sagði...

Eyvindur.

Það er hárrétt að það er stigsmunur en ekki eðlis á hrollvekjum og Kalla á þakinu, múmínálfunum eða Disney-myndum.

Nú gegn ég ekki eins langt og Zappa sem vill engin höft og setja ábyrgðina alfarið á hendur heimilana. En mín mörk liggja miklu, miklu ofar en þeirra sem þykjast sjá mikil skaðvænleg áhrif negrastrákanna.

Þegar ég tala um ameríska aumingja er ég að tala um tilhneigingu til smáborgaravæðingar samfélagins, þ.e. að smekkur tiltekinnar manngerðar eigi að vera ráðandi, og útilokandi, í umræðunni og umhverfinu.

Mér er alveg sama hve margir koma fram og kalla negrastrákana vonda, heimskulega og illa skrifaða bók með ljótum myndum – það er allt rétt. En mér er ekki sama þegar fólk lætur í það skína að hún sé ekki boðleg samfélagi okkar í dag. Það eru engin helvítis inngönguskilyrði í samfélagið og eiga ekki að vera. Þegar við viljum frekar að börnin okkar sjái mann pissa á andlitið á sér í sjónvarpinu og munka barða til óbóta í fréttatímanum en að þau lesi barnslegan texta um negrastráka – þá er eitthvað að.

Það er alveg sama hvar þig ber niður í Róald Dahl, Astrid Lindgren, Grimms-bræðrum o.s.frv. Það er allt fullt af hlutum sem aldrei flokkast til mannkosta eða æskilegra fyrirmynda. Enda er það ekki eina hlutverk barnabóka að gefa okkur fyrirmyndir um göfugt og gott hugarfar, sbr. nýleg dæmi um Bálk hrakfalla. Barnabækur víkka sjóndeildarhringinn, kenna okkur að sjá hluti frá mörgum sjónarhornum og gera okkur smám saman að vandfýsnum neytendum menningar.

Doddavæðingin getur aldrei gert annað en að forheimska börn og gera þau að Æskulesendum.

Nafnlaus sagði...

Það má einmitt gagnrýna pistlana fyrir einmitt mikið af lúðalegu dissi sem sæmilega vitrænt komment hér beint að ofan er laust við.

Nafnlaus sagði...

"Kiljan" minnir í uppbyggingu á "Silfrið". Bara aðeins meira til kostað í sviðsmynd og kannski grafinn upp eitt eða tvö gömul klipp. Kolla og Palli eru veikasti hlekkurinn, þeim virðist drepleiðast þarna og eru illa undirbúin. Þetta er hvorki rýni né upplýsandi sem þau láta frá sér fara. Einfaldlega ekki pró, sem hendir oft þegar Egill dregur kunningjana með í þættina. Eins og ÁBS. Um árið var hann fenginn til að tjá sig um bókina um Kristján Eldjárn. Það var katastrófi. Nix, það vantar vel lesið kúltúrfólk þarna, ssvona almennilega dannap. Er ekki EÖN eða Jón Viðar á lausu?

Nafnlaus sagði...

Já, mér finnast Negrastrákarnir nú ekki víkka sjóndeildarhringinn. Og ég myndi aldrei ganga svo langt að segja að þeir séu óboðlegir í samfélaginu. Mér finnst heimskuleg ákvörðun að gefa bókina út á nýjan leik, því það ætti hverjum sem er að vera ljóst að þetta sé særandi fyrir marga. En auðvitað á ábyrgðin að liggja hjá foreldrum. Ef þeim er sama þótt börnin þeirra lesi bókina er það bara fínt. Hins vegar finnst mér að leikskólar eigi ekki að lesa þessa bók fyrir börnin. Þetta er umdeilt, og því hljóta foreldrar að eiga að fá að taka ákvörðun um það hvort bók sem þessi sé lesin fyrir börn þeirra, ekki misgáfaðir leikskólakennarar. Eins og þú segir á ekki smekkur einnar manngerðar að ráða ríkjum, og þá einmitt ekki heldur þeirrar manngerðar sem finnst þessi bók hið besta mál. Báðar hliðar hljóta að hafa eitthvað til síns máls og þess vegna á þetta að vera ákvörðun foreldranna. Svo báðar manngerðir fái nú að njóta sín.

Mengella sagði...

Eyvindur, þú fellur í hugsanagryfju enn og aftur.

„á, mér finnast Negrastrákarnir nú ekki víkka sjóndeildarhringinn“

Bækur víkka ekki sjóndeildarhring fólks með boðun gilda, nema að takmörkuðu leyti, negrastrákarnir víkka sjóndeildarhringinn á nákvæmlega sama hátt og Kalli og sælgætisgerðin, Moldvarpan sem vildi vita hver skeit á hausinn á henni, Ósagt eða hvað sem er... með því að gefa aðgang að heimi sem er framandi lesandanum á einhvern mikilvægan hátt.

Skoðaðu fremstu uppistandara heims. Skoðaðu Kaufman, skoðaðu Hicks, skoðaðu Pryor – skoðaðu Monty Python, skoðaðu hvað sem er. Við neytum menningar ekki til að njóta leiðsagnar í gegnum lífið eða til innrætingar gildismats. Við höfum miklu dýpri og flóknari ástæður og bölv, ragn, ósiðir og viðbjóður getur gegnt mikilsverðu hlutverki í þeim dýpkunarframkvæmdum mannsálarinnar, sem venjulega kallast uppvöxtur.

Umræða um bækur á ekki að snúast um réttlætingu útgáfu eða aðgengi að bókum (nema í algjörum öfgatilfellum). Umræðan um negrastrákan hefur verið einmitt þannig umræða. En nú eru margir farnir að átta sig á því og reyna að draga í land. En það er of lítið og of seint.

Aðeins um leikskólana. Þú segir að misvitrir leikskólakennarar eigi ekki að fá að lesa fyrir börn bækur sem foreldrarnir eru ósáttir við. Nú var það mikill meirihluti foreldra sem sagðist vera sáttur við bókina. Eiga foreldrar hinna að hindra aðgengi allra að bókinni? Eða bara sinna barna?

Nú vill svo til að þessi umræða er ekki ný, ekki einu sinni hér á landi. Það hefur nefnilega staðið hatrömm deila foreldra við „misvitra leikskólakennara“ vegna lesefnis í skólunum. Illa gefinn pípari, vinur Jóns Vals fer þar fremstur í flokki. Þannig er nefnilega að sumir skólar hafi tekið upp á þeirri særandi ósvinnu að lesa fyrir börnin bók um krakka sem á tvo pabba! Og þeir búa saman og gera ýmislegt saman sem ekki sæmir pöbbum samkvæmt lífssýn sumra foreldra.

Á að taka jafnt tillit til þess?

Nafnlaus sagði...

Mikið gríðarlega er fólki illa við að Ágúst Borgþór komi fram í sjónvarpsþætti, svo mjög að það virðist bráðnauðsynlegt að taka til einhvern mikinn runk-orðaforða, líkt og fólki sé þó í raun mest í nöp við fótinn á sjálfu sér. Hverju sætir þetta?

oskar@fjarhitun.is sagði...

Mmmm..Zappa...

Ég man eftir stórmerkilegum spádóm í "The Real Frank Zappa Book" (sem kom út 1988), þar sem FZ spáði því, að í framtíðinni yrði hægt að fá tónlist senda á einhvern hátt í gegnum síma (internet, sími, er einhver munur í dag?). Það var náttúrulega ekki séns fyrr en ca. 5 árum eftir að hann dó!

Einnig lýsti hann, í sömu bók, hinni stórkostlegu kenningu um "Death by Nostalgia": Fólk er stöðugt að fá nostalgíuköst yfir nýrri og nýrri menningarfyrirbærum (í fyrra var t.d. verið að segja að eitthvað væri "svo 2005"), þ.a. á endanum verður fólk komið með nostalgíu fyrir nútímanum og að lokum augnablikinu. Á endanum frýs allt = "death by nostalgia".

Frábær bók sem ég mæli eindregið með.

Hverjum er annars ekki skítsama um einhverjar bjánalegar smábarnabækur, sbr. Negrastrákarnir?!?

Nafnlaus sagði...

Jájá, þú getur hártogað eins og þú vilt, en að mínu mati er það alltaf þrenging sjóndeildarhrings að setja einhvern hóp fólks (hvort sem það eru negrar eða aðrir) í þröngt mengi með þeim hætti sem gert er í negrastrákunum. En látum það liggja á milli hluta.

Foreldrum á einmitt að vera í sjálfsvald sett hvort börn þeirra lesa bækur sem þessar. Hvað varðar tvo pabba skal ég ekki segja. Mér finnst það vera á pínulítið gráu svæði að vissu leyti, ef foreldrar mótmæla því, en þó er einn reginmunur þarna á. Negrastrákarnir er ljóð sem á sér ljóta sögu, og bæði texti og myndir eru augljós vottur samfélagslegra kynþáttafordóma sem eiga ekkert erindi við börn í dag. Hins vegar á bók um tvo pabba fullt erindi við börn, svo þau skilji að það sé ekkert óeðlilegt við að eiga samkynhneigða foreldra. Önnur bókin stuðlar að einelti, hin berst gegn því.

Mér finnst mergurinn málsins vera sá að foreldrar eiga að bera ábyrgð á sínum börnum, ekki leikskólarnir. Þar með finnst mér að foreldrar eigi að hafa eitthvað að segja með það hvað er lesið fyrir börnin þeirra. Ég myndi að minnsta kosti ekki vilja að þessi bók yrði lesin fyrir mitt barn, hvorki á leikskóla né annarsstaðar. Það kemur mér ekkert við hvað aðrir lesa fyrir sín börn, en ég hlýt að fá að ráða því hvað mitt barn hefur fyrir augunum.

Einar Steinn sagði...

Fyrst þú minntist á Doddabækurnar; ertu búin að gleyma svartálfunum? Þeir voru nú ekkert sérlega frýnilegir...