27. júní 2007

Litla-Ísland

Ég minnist þess að hafa að minnsta kosti nokkrum sinnum heyrt Íslendinga hreykja sér af því hve opið samfélag hið íslenska sé. Óvíða í heiminum megi búast við að rekast á „fræga fólkið á förnum vegi. Og vissulega er nándin nokkuð sérstök. Á allra síðustu dögum hef ég t.a.m. verið í þuklfæri við ýmist gagnmerkt fólk. Þar má nefna ekki ómerkari aðila en Sæma rokk, Hildi Lilliendahl, Andreu Gylfadóttur, Jóhönnu Sigurðardóttur, Stefán Pálsson, Hrafn Jökulsson, Megas, Björn Jörund Friðbjörnsson og svona gæti ég haldið áfram.

Mig grunar þó að hin rómantíska nálgun að hinu opna Íslandi sé misskilningur. Ég held að það sé hreint ekki furða að skáld, ráðherrar, tónlistarmenn og önnur fyrirmenni geti komið fram eins og almúgafólk. Það skrítna er að grámuggulegt almúgafólk skuli yfirhöfuð gerast fyrirmenni.

Íslenskt samfélag er risastór hlutverkaleikur með enskum eða dönskum leiðbeiningum. Fylla þarf fullt af skringilegum hlutverkum. Og oftar en ekki kemur fólkið til hlutverkanna, en hlutverkin ekki til fólksins. Það muna væntanlega flestir eftir því hve fyndið var að fylgjast með fyrstu vikum Séð og heyrt. Tímaritið reyndi hvað af tók að glansa upp hversdagslegan veruleika og hefðbundið fólk. Árangurinn var yfirleitt hlægilegur. Í dag eru margir hættir að hlæja.

Því miður hafa fjölmiðlar tilhneigingu til að ráðast á opinberar persónur með sandpappír og pússa af þeim hornin þar til ekkert stendur eftir nema staðalmyndirnar. Það er slæmt. Fólk á að vera fólk fyrst, steríótýpur svo.


Dæmi um dásamleg fyrirmenni voru hjónin Kristján Eldjárn og Halldóra Ingólfsdóttir. Forsetinn, sem stal skónum af vaxbrúðunni því hann átti ekki viðhafnarskó og forsetafrúin, sem kærði sig kollótta þótt fínar borgarfrúr hneyksluðust á útgangnum á henni. Það er eitthvað fallegt við það.

3 ummæli:

Mokki litli sagði...

Ég er gríðarlega sammála þér, það þarf svo tussulítið til að vera þekktur þarna. Það er eiginlega nóg að segja að Vesturbæjarlaugin sé uppáhaldslaugin manns.

Nafnlaus sagði...

Þetta leikur allt í höndunum á þér. Velkominn aftur, meistari

Nafnlaus sagði...

Híhí, Séð og heyrt er orðið blað um ástir fasteignasala. Nú bara hlýtur vitleysingunum sem kaupa blaðið að fækka.