28. júní 2007

Um nafnleysi

Ég hef lengi verið að því komin að skrifa um nafnleysi á netinu. Málið er mér enda skylt. Ég þykist vita að flestir fari nærri um hin grófari blæbrigði í afstöðu minni. Ef um væri að ræða svart/hvítt mál, þá væri ég með nafnleysi. En málið er flókið.


Afstaða mín er þessi: Ég er á móti því að menn noti netið til glæpaverka. Þar á ég t.d. við tælingar á ófullveðja fólki, fjárkúgun, ofsóknir eða óverðskulduð mannorðsmorð. Þó á netið, eins og aðrir miðlar, að mínu mati að hýsa alla flóruna, allt frá frauðkenndu hjali til óvæginnar gagnrýni.


Íslendingar eru margir haldnir þeirri einkennilegu trú að mannasiðir séu ekki aðeins rótgróinn hluti siðferðis, heldur verði best mældir með almennum viðhorfum. Hvorttveggja er rangt.

Nafnleysi er ekki skilgreinandi þáttur í netglæpum. Vissulega er nafnleysið oft fylgifiskur þess að vega ómaklega úr launsátri. En það verður ekki sjálfkrafa vont vegna þess. Ekki frekar en að líkamleg áreynsla verði sem slík slæm vegna ofbeldismanna.

Það er mýta að nafnleysi geri allt manns tal marklaust. Að þeir sem ekki þori að koma fram undir fullu nafni séu heiglar eða gungur. Nafnleysi getur þvert á móti verið mjög gagnlegt. Nokkrar röksemdir eru t.a.m.:

  1. Nafnleysi getur leitt til þess að frekar sé horft á innihald umræðna en það hverjir ræðast við. Slíkt getur stuðlað að málefnalegri umræðu.

  1. Nafnleysi getur tryggt sjónarmið fólks í umræðum, sem stöðu sinnar eða aðstæðna vegna getur ekki (eða telur sig ekki geta) komið þeim á framfæri. Hér gæti t.d. verið um að ræða samkynhneigðan ungling í smáplássi, hátt settan aðila sem litið er á sem andlit fyrirtækis, þekkta manneskju sem vill rækta áhugamál sín í friði fyrir forvitnu fólki. Svona mætti lengi telja.

  1. Nafnleysi getur auðveldað framsetningu efnis sem mikilvægt er að komi fram. Athugasemdakassar í félagsmiðstöðvum, fyrirtækjum o.s.frv. eru hugsaðir til að nýta kosti nafnleysis að þessu leyti.

Það er oft sáralítill munur á nafnleysi og að skrifa undir eigin nafni. Lesandi, sem les þetta blogg, veit meira um Mengellu en lesandi margra einlínumoggabloggara veit um þá. Við erum ekki bara nöfn.

Antipat á nafnleysi er stundum ekkert annað en sambland af forvitni og ringlaðri réttlætiskennd í anda þess að vera sú eina sem mætir í búningi á vinnustaðinn á öskudaginn.

Réttmæt rök gegn nafnleysi eru m.a. þau að ef allir þyrftu að skrifa undir nafni væri minna um meiðandi skrif og rugl. Það er alveg rétt. Hitt er þó sólu særra að þessi blessaða þjóð hefur aldrei átt í erfiðleikum með að þegja um hluti, og má einu gilda hvort það eru hlutir sem þegja ætti um. Þögnin hefur verið versti skaðvaldurinn í gegnum tíðina. Og þetta tvískinnta kerfi, að við tölum um fátt opinberlega en pukrum um allt í leynd, er fáránlegt. Allt sem nafnbirtingar gætu þaggað niður er sagt hvorteðer. Það fer aðeins aðra leið.

Mig langar að enda á því að fjalla örstutt um rök, sem ítrekað hefur verið beint að mér. Sagt er að ég sé Mengella til að geta sagt x, sem ég gæti annars ekki sagt. Þessi hugsun er á haus. Ég segi x til að geta verið Mengella.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er algerlega á móti nafnleysi á netinu...

hættiði því..

Kv, Gústi

Nafnlaus sagði...

Fullkomnlega sammála. ég skrifa sjálfur undir dulnefninu Khomeni og kann því ágætlega.

Nafnlaus sagði...

En það er ekki horft á innihald þinna skrifa. Þú ert fyrir löngu búin/n að koma upp um þig sem vitleysing, og búin/n að öðlast einhverskonar örfrægð sem brandari. Þannig að það að skrifa undir nafninu Mengella nálgast ekki einu sinni þessa kosti nafnleysis sem þú tiltekur. Netverjar lesa nafnið Mengella og flissa að kjánanum. Þeir rjúka ekki til og lesa umræðu á hlutleysisgrundvelli.

Mengella sagði...

Þú áttar þig á því hve mótsagnarkennt innlegg þitt er, er það ekki?

Svona álíka gáfulegt og: Ég er hætt að tala við þið og þreytist aldrei á að segja þér það.

Nafnlaus sagði...

Hvað er mótsagnarkennt við það? Sagðist ég vera hættur að lesa bloggið? Alls ekki. Þetta er svipað og alvarlegt bílslys: Maður kemst ekki hjá því að kíkja. Það breytir því ekki að ef dulnefnið Mengella stendur við bloggfærslu lítur maður á hana sem kjánaskap fyrst og fremst.

Ætli þetta sé ekki svipað og vinur minn lýsti hinum viðurstyggilega vonda sjónvarpsþætti World's Most Amazing Videos (sem ég neyðist jú til að horfa á í hverri viku, eins og þú hefur bent á). Maður veit að þetta er viðbjóður, manni líður illa að horfa á þetta, en ef maður gengur framhjá sjónvarpinu þegar þátturinn er í gangi kemst maður ekki hjá því að horfa á kappakstursbílstjóra brenna... Maður verður bara að kíkja. Mannlegt eðli.

Mengella sagði...

Það mótsagnarkennda er þetta:

"...það er ekki horft á innihald þinna skrifa."

Þessi setning þín varðar innihald minna skrifa, þú varst því að horfa á, og andæfa, innihaldi minna skrifa með setningunni: "það er ekki horft á innihald þinna skrifa."

Sem er samskonar fullyrðing og "Ég er hætt/-ur að tala við þig".

Annars ertu alltaf velkominn.

Nafnlaus sagði...

Alls ekki. Þú ert að misskilja þetta. Þetta er samskonar fullyrðing og: „Þú ert kjánaprik. Ekkert annað. Samt geri ég mér grein fyrir því að þú getur ekkert að því gert, og þegar öllu er á botninn hvolft er gaman að kjánaprikum. Þannig að ég les síðuna þína mér til skemmtunar. Samt sem áður tek ég ekki mark á einu orði.“

Skilurðu muninn?