13. október 2008

Bloggætt Binga

Bingi er byrjaður að blogga. Hann er að reyna að auglýsa þátt sinn, Markaðinn.

Nú ætla ég ekki að fjalla um tilfinnanlegan skort Binga fyrr og nú á tímasetningum. Maðurinn sem reyndi að koma síðustu auðlindum Íslendinga í hendurnar á útrásarvíkingunum og byrjaði með þátt um markaðinn á nákvæmlega sama tíma og markaðurinn hætti að vera til. Bingi er eins og pólskur gyðingur um 1930 sem ákveður að leggja fyrir sig skorsteinasmíðar. Alltaf eitthvað annarlegt við tímasetningar hans.

En ég ætla ekki að fjalla um það. Ég ætla að fjalla um bloggstílinn.

Bingi bloggar eins og Stebbi Fr.

Færslurnar eru andlausar endursagnir innrammaðar með hálfgegnsærri kýrvömb tilfinningalífs bloggarans.

Hér er tímamótafærsla:

Fasteignablað Moggans í dag er átta síður. Þar af er ein heilsíðuauglýsing frá blaðinu sjálfu. Þetta er örugglega til marks um ástandið á fasteignamarkaðnum.

Þar hreyfist ekkert. Enginn kaupir, allrasíst á meðan enginn veit hvað er nákvæmlega framundan í íslensku efnahagslífi.

Fasteignaspekúlantar, sem ég hef rætt við síðustu daga, eru mjög svartsýnir. Segja að sá eiginfjárbruni sem hafi orðið síðustu vikur, tekjutap margra og aukið atvinnuleysi muni setja svip sinn á fasteignamarkaðinn svo um munar næstu mánuði og misseri.

Raunar segja þeir þetta þegar komið fram. Verðlækkun upp á tugi prósenta hljóti að vera í pípunum.

Verði sú raunin, mun þorri íslensku þjóðarinnar verða með áhvílandi lán á sínum húseignum sem eru mun meiri en sem nemur söluverðmætinu.


Til hvers? Hvað rekur manninn til að slá inn aðra eins bráðaugljósa undanrennu?

Og ekki eru nýju færslurnar skárri. Tveggja línu inngangar að löngum beinum tilvitnunum.

Stundum hefði ég viljað að netheimar hefðu hrunið en ekki peningaheimarnir.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Eftir aðkomu sína að tilraun til að gefa auðlindir Reykvíkinga til útrásarvíkinga er Björn Ingi vanhæfur að fjalla um viðskiptafréttir.

Einnig er Sindri Sindrason samstafsmaður hans vanhæfur í þessum geira. Hann er sonur Sindra Sindrasonar stjórnarformanns Eimskips en samt segir hann fréttir af því fyrirtæki og hefur tekið viðtal við stjórnendur sem er fáranlegt og hann brýtur þá góðu blaðamannareglu að fjalla ekki um mál þar viðkomandi blaðamaður eða nánasta fjölskylda hans á hagsmuni.