11. október 2008

Upphæðin sem við ætlum (ekki?) að stela frá Bretum


Þrátt fyrir að aðeins brot af innistæðunum ICESAVE sé tryggt af okkur, Íslendingum, þá er það engu að síður væn upphæð. Tveir komma tveir milljarðar punda samkvæmt breskum fjölmiðlum.

Þessir tveir komma tveir milljarðar eru samt ekki nema hluti af innstæðunum sem nú er hlaupist frá. Og út af þessu varð Gordon Brown æfur. Hann hélt að Ísland ætlaði ekki að borga sinn skerf.

Ég legg til að við borgum ekki krónu og njótum þessara peninga. Hér eru nokkrar góðar hugmyndir:

Fyrst kaupum við Magna Carta. Hún kostar 21 milljón dollara og er dýrasti texti alheimsins. Bretar snobba voðalega fyrir henni og ef þeir eru eitthvað erfiðir getum við kveikt í henni, bara til að ergja þá.


Þá kaupum við dýrasta málverk sögunnar, No. 5, 1948, eftir Pollock. $150 milljón dollarar farnir í viðbót.


Og til að toppa okkur snúum við upp á handlegginn á Frökkum og kaupum Monu Lisu fyrir $670 milljónirnar sem hún er metin á. Þeir gefa sig í Louvre, hafa ekki einu sinni efni á að tryggja hana.


Einhversstaðar þurfum við að gista þegar við erum í Bretlandi að eyða pundunum okkar og við kaupum því dýrasta hús eyjanna á andvirði $119 milljón dollares.



Dýrasti hamborgari heims kostar 200 dollara. Splæsum einu stykki á hvern íslending. $62 millur.



Og uppar þurfa að eiga flottar tölvur. Splæsum nýrri MacBook Pro á hvern íslending. Það er tífalt dýrara en hamborgararnir.


Svo legg ég til að við gerum alla íslenska alþingismenn að túristum. Kaupum far fyrir þá út í geim með fyrstu almennu geimferðaflauginni á næsta ári (það verður víst að borga báðar leiðir). $12,6 milljónir.



Fyrir okkur hin kaupum við stærstu farþegaþotu heims, Airbus A380. Það tekur hana akkúrat ár að flytja alla Íslendinga út til Bretlands ef hún fer eina ferð á dag. Hún fer samt ekki tóm til baka. Hún flytur 1,1 milljarð króna til baka í hverri ferð og verður þá eftir árið búin að flytja báða milljarðana sem við ætlum að stela af Bretum. $320 millur á reikninginn.


Það er kannski hægt að fá Neverland-búgarðinn ódýrt. En við þurfum ekki að nurla. Kaupum hann fullu verði. $120 millur.



Svo er full ástæða til að kaupa 10 dýrustu bílategundirnar sem hægt er að finna. Tíu bílar = $5,9 milljónir.




En nú dugar ekkert hálfkák. Við kaupum nú eitt stykki ný Hvalfjarðargöng. Og fyrst við erum að því, ein slík göng í hvern landsfjórðung. $280 millur.


En það dugar ekki að bora undir alla firði. Við kaupum Grímseyjarferju, eina í hvern af hinum 48 íslensku fjörðum (líka þá sem við borum undir). $156 millur.


Svo er auðvitað ótækt að slíkt ríki sé rekið með halla. Við tökum frá pening til að borga áætlaðan halla á fjárlögunum fram til 2011. $531 milla.

Og nú er peningurinn að verða búinn. Við skulum samt láta okkur hafa það að kaupa tvær tunnur af olíu fyrir hvern Íslending í hverjum mánuði næsta árið. $673 millur.



Og þá höfum við eytt 3740 milljónum dollara eða jafngildi 2200 milljóna punda.

(Uppfært: Sem er ríflega 24 sinnum meiri peningar en til eru á Íslandi skv. þessu sem er fengið héðan.)


En Brown þarf ekki að örvænta. Við ætlum auðvitað að borga þetta sjálf.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

góð hugmynd. Samþykkt.

Nafnlaus sagði...

Hvað um að lofa að borga bretum um leið og þeir skila egyptum múmíunum?

Svo er reyndar til fyrir þessu. Líttu á þetta http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/02/28/skattstjori_oskar_eftir_upplysingum/

Skúli launaði greiðan við Mattísenana með því að stinga listanum undir stól, en ég er viss um að sú góða ætt var bara að safna peningum í Lyktarsteini til nota til að létta undir með þjóðinni þegar eitthvað þessu líkt kæmi upp!

Ekki eins og þeir séu að halda alþjóða gjaldeyrissjóðnum frá til að varna því að þetta og fleira komist upp...