20. október 2008

Við kjöftuðum okkur á kúpuna


Við erum á hausnum. Við skiljum það. Við skiljum ekki hvernig við gátum lent hérna. Áttu ekki einhverjir að passa þetta? Af með hausinn á þeim! Til Bastillunnar!

Það er bloggið sem kom okkur á hausinn. Það er kjaftæðið. Það er vaðallinn. Þjóðin var farin að blaðra svo mikið að hún var hætt að kunna að hlusta.

Það er ekki hægt að hugsa í of miklum klið. Það er ekki hægt að komast að niðurstöðu ef of margir taka þátt í samtali. Stjórnvöld geta ekki virkað öðruvísi en svo að þau hlusti á rætur sínar. Að þau viti hvað er að gerast. Öll stjórnvöld sem hafa brugðist hafa brugðist vegna þess að tenging þeirra við veruleikann, við fólkið, hefur brugðist.

Einu sinni áttum við fjölmiðla sem voru lokaðir öllum nema þeim sem báru af í einhverju tilliti. Þær raddir fengu einar að hljóma sem hljómuðu vel. Stundum hljómaði sannleikurinn, stundum lygin. En ef lygin er andstæða sannleikans þá tókst fjölmiðlum æði oft að tylla tá á sannleikann með því að vera alltaf ósammála síðasta ræðumanni.

Síðustu ár hefur netið hertekið allar umræður. Allir hafa rödd. Lesendabréf í blöðum eru minningargreinar. Allir eru jafn sannfærðir. Og þegar allt er sagt og enginn vinsar úr - þá er orðið ómögulegt að vita hvað meikar sens og hvað ekki.

Gengisfall orðræðunnar og sannleikans hefur verið nær algjört síðustu ár. Orðræðan féll og á eftir henni féll efnahagurinn. Án orðræðu blómstrar heimskan og þar sem heimskan blómstrar, þar kreppir að.

Þorsti eftir kjarna málsins var enn til hjá mörgum. Margir vildu kjarnann en ekki hismið. En aðstæður buðu ekki upp á það. Það bar ekkert af. Allt var sama moðið. Eina afdrep slíkra manna varð samsærisiðnaðurinn. Sannleikselskendur sóttu í þúsundatali í höfuðvígi lyginnar, samsærissmiðjuna. Zeitgeist, Loose Change og vangefnar íslenskar hliðstæður hafa dafnað.

Samsærisást er berlegasta hnignunarmerki nútímaþjóða. Í fornöld var orðið stutt eftir þegar eðlilegt þótti að ríða smádrengjum. Í dag trúa menn á New World Order.

Orðræðan skapaði heim óteljandi möguleika. Öll lögmál voru upphafin. Heimurinn var kúplaður frá gangvirkinu. Skyndilega var allt mögulegt. Og ekkert. Allt hlaut að fara á einn veginn, og annan, og þriðja...

Við vissum ekkert hvert við vorum að fara og það skipti ekki lengur máli hvaðan við komum. Við vissum hvar við vorum. Við vorum í allsnægtum. Þessar allsnægtir urðu eini mælikvarðinn á sannleikann. Fortíð og framtíð urðu orsakir og afleiðingar þessa allsnægtaástands.

Við skiptum því orðræðunni í tvennt. Það sem hljómaði allsnægtalegt. Í því hlaut að vera sannleikskorn. Og hitt. Bölmóður var gamaldags, afleiðing af óuppfærðu forriti. Orðræða 1.0 í stýrikerfi 2.0. Bölmóður hafði sannarlega ekki gert okkur rík. Hví skyldi hann fara að virka núna?

Og svo hrundi allt.

Nú er er búið að uppfæra bölmóðinn enda er farsældin frosin. Við höfum samt ekkert lært. Enn er sannleikurinn sú rödd sem best dregur dám af bakgrunninum. Enn óma þúsund raddir. Vettvangurinn er fullur af hljóðum. Enginn veit hvaða rödd ber með sér sannleikann. Í taugaveiklun sinni er talað hærra, hærra og meira. Við hljótum að geta blaðrað okkur niður á lausn á vandanum.

Nú þarf þögn. Það þarf að frysta eignir moggabloggsins. Það þarf að loka lánalínum stjórnmálamanna. Það þarf að þagga niður í gömlum kommum sem telja að nú hafi gamli Marx fengið uppreisn æru.

Við þurfum þögn og síðan að hleypa einum að í einu.

Blaður gerir okkur öll að bavíönum.

Engin ummæli: