28. júní 2007

Hefjum kvíslar á loft...

Og ég sem hélt að íslenska netsamfélagið væri að þroskast.


Nú eru hinir ýmsu netkimar búnir að gefa út veiðileyfi á þennan stjarfeygða ræfil á myndinni. Hann heitir Helgi Rafn og er iðjuleysingi úti á Seltjarnarnesi þar sem hann er áleifur foreldra sinna.

Helgi var ásamt hnakkrottum og pústpjökkum á Bíladögum á Akureyri og lagði þar ríflega sitt af mörkum við að dempa greindarfarið í Eyjafirði. Og samkvæmt kvísl- og kyndilberum rakst hann þar á nauðljótt hundkvikyndi sem hafði strokið frá eiganda sínum.




Eigandinn er síðan búinn að auglýsa í sífellu eftir hundinum. Þar til í kvöld, að einn af pústpjökkunum sagði að það þyrfti ekki að leita hundsins frekar. Var það ekki skýrt frekar en innan skamms komu fram upplýsingarnar. Helgi átti að hafa fundið hundinn og eignað sér hann. Troðið honum ofan í íþróttatösku og notað sem ýlfrandi sparkknött. Hann á ekki að hafa linnt látum fyrr en ræksnið var dautt eða dauðvona. Allt í beinni útsendingu fyrir eftirlitsmyndavélar.

Ef satt reynist er hér um að ræða einhverja auvirðilegustu manngerð sem hrærist á þessari storð. Menn sem pynta dýr (þótt ljót séu) sér til skemmtunar eru andstyggileg viðrini. Það á ekki að taka slíka menn neinum vettlingatökum.

- - -

Þó er hins að gæta að hin óumflýjanlega múgæsing sem hófst í kvöld og mun halda áfram er engum til gagns og allar aðgerðir knúnar af henni eru ekki til marks um tilhlýðilegt réttlæti. Skríll er skríll og þótt sök drengræfilsins sé líklega bæði mikil og afgerandi, þá er hún aðeins átylla. Múgsálir aðhafast fyrst af hvöt, næst af ástæðum.

Gæludýraskríll er sumpart verri en annar skríll. Það er gjarnan fólk sem hefur gírstöng í tilfinningalífinu. Það hefur öðlast hæfileika til að kúpla tilfinningunum úr hinni hefðbundnu stöðu og tengja við ýmis minniháttar hrif og upplifanir. Öðlast þá þessar upplifanir mun róttækari sess í sinni þessa fólks. Gamla bomban Bardot er dæmi um þetta.

Dýr fá í hugum þessa fólks goðumkennt hlutverk. Þau verða einhverskonar yfirverundir, markmið í sjálfu sér.

Nákvæmlega sama á sér stað hjá sumu fólki varðandi okfrumur. Verur, sem fyrir flestum eru augljóslega ófullkomnar, verða heilagar. Og fólk gerist krossfarar þeim til verndar, oft með þeim rökum að verja þurfi þá sem ekki geta varið sig sjálfir.

- - -

Allt eðlilegt fólk finnur til samúðar með hundinum og þeim sem tengdust honum tilfinningarböndum. Allt eðlilegt fólk vill að kauði verði sóttur til saka. Sumt eðlilegt fólk hugsar honum þegjandi þörfina. En fólk, sem tekur þátt í aðgerðum gegn gerandanum, hvort sem það eru hótanir eða eitthvað beinskeyttara, það fólk er ekki eðlilegt og er ekki hótinu skárra en fólið. Það fólk líður fyrir djúpstæðan karakterbrest og það hefur á engan hátt siðferðilega yfirburði umfram skotmarkið. Það er af nákvæmlega sama sauðahúsinu. Það eina sem skilur ræfilinn á sakabekknum og það af, eru tilfallandi aðstæður.


Endum með orðum þeirra bjána sem leggja til hans á blogginu:





28. júní 2007 klukkan 01:57
Í þínum sporum skaltu kála þér sjálfur hið snarasta!
Betra að þú gerir það áður en við komumst í þig!!!!!



28. júní 2007 klukkan 00:30
Rétt er að benda áhugasömum á að símanúmerið hjá þessum manni, sem heitir fullu nafni Hilmar Rafn Xxxxxxxx, er 867-xxxx.


28. júní 2007 klukkan 01:23
Verðum við strákanir ekki að kíkja á Seltjarnarnes........það er svo fallegt þar.....án þín
það er kominn á keppni um hver nær þér!!




28. júní 2007 klukkan 01:34
ég hef ákveðið þar sem þú er viðbjóðslegur aumingi að láta doberman sem ég á éta á þér kynfærin ég næ þér helvítis aumingi þinn


ég geng með hníf í vasanum hér eftir, og ég VEIT hvernig þú lítur út... og ég hika ekki við að myrða þig! ég VEIT hvar þú árr heima !

12 ummæli:

egillhardar sagði...

Mér þykir verst að vita til þess að hundgrey eitt þurfi mögulega að leggja sér til munns kynfæri hnakkans til að þóknast hefndarfísn eiganda síns.

Það er ákveðin þversögn í því að hefna dýraofbeldi með... ja, dýraofbeldi.

Nafnlaus sagði...

Ég tel mig vera lítinn dýra vin en hins vegar skil ég ekki menn sem gera svona hluti, þetta er einn mesti aumingjaskapur sem fyrir finnst og eiga þessir menn heima á hæli, ef þau væru ekki öll þegar troð full

Nafnlaus sagði...

Þorpsbúinn í okkur deyr seint.

Nafnlaus sagði...

Kvikyndi??

Mengella sagði...

Kvikyndi er langtum fremra orðinu gæludýr.

Einar Steinn sagði...

Ósköp rottulegt kvikindi. Hundurinn, þ.e.a.s.

Anna sagði...

Ég held að það hafi verið að commenta á stafsetningu orðsins "kvikindi" í pistlinum fremur en orðanotkun.
Annars þykir mér allt þetta mál hið fáránlegasta. Fólk virðist trúa því staðfastlega að sniðugast sé að réttlæta rangt með röngu.

Mengella sagði...

Ég veit það. En mér finnst orðið kvik-yndi einhvern veginn meira lýsandi en gælu-dýr.

Gæludýr er óskaplega ljótt orð.

Anna sagði...

Achso.
Svo sem viðbúið að maður nái þessu ekki strax.

Nafnlaus sagði...

Vá. Ég var ekki enn búin að sjá þessi comment. Fólk alveg að farast úr geðveiki bara.

Nafnlaus sagði...

"Aldous, allt sem ég skrifaði um Lúkas stendur eins og stafur bók. Heldurðu að ég hafi ekki gert ráð fyrir þeim möguleika að ábendingin væri lygi?

Þú kannski bendir mér á, hvar ég sagði eitthvað sem ekki stenst.

Þetta er orðið að þráhyggju hjá þér."

Bara til að hafa þetta snilldarkomment ykkar með.

Nafnlaus sagði...

Bara til að láta vita var hundurinn seinna fundinn á lífi uppi á fjalli, og mér finnst fólk sem byrjar að segja svona lygasögur eða fjalla um það mjög siðblint og vont. Vegna þessarar lygasögu misssti grey maðurinn vinnuna og fjölskyldunna, og jafnvel þótt að maðurinn hefði níðst svona herfilega á hundinum var samt of harkalega brugðist við, ég meina maður sér sögur um morðingja og nauðgara og maður rétt les fréttina kannski og síðan er fólki alveg skítsama! Fólkið sem hefur skrifað hótanirnar eru greinilega einhver ógeð útí bæ og eru, að mínu mati, verri en það sem þau eru/voru að saka grey manninn um þar sem þeim fannst það greynilega ógeðslegt en voru samt tilbúin að gera nákvæmlega það sama. Maður spyr sig bara hvers konar fólk er þetta eiginlega?