Einhver dásamlegasti skemmtikraftur samtímans er risaeðlan James Watson, sem hlaut Nóbelinn ásamt Crick fyrir uppgötvun þeirra á byggingu DNA. Alla tíð síðan hefur verið vinsælt að berja á Watson, m.a. fyrir það að hafa svipt Rósalindu Franklin hluta af heiðrinum, en þeir félagar stálust í gögnin hennar og komust þá endanlega á sporið. Watson hefur haldið því statt og stöðugt fram að þeir hafi einungis komið fram við geðsjúka konu eins og þörf krefði. Samstarf við hana hafi verið útilokað vegna andlegs krankleika hennar.
Watson hefur eitthvað það kaldlyndasta viðhorf til erfða sem mögulegt er. Hann er sanntrúaður á hina darwinísku kenningu að það sé hending hvernig mál þróist hjá lífverum og sér enga sérstaka ástæðu til að trúa á að allt það sem sýður upp úr potti móður náttúru sé göfugt eða þrungið tilgangi. Til dæmis sér Watson ekkert fallegt við einhverfu. Einhverfa er sjúklegt ástand sem er í bullandi sókn vegna þess að samfélagið hefur gert þá skyssu (í þessu afmarkaða tilliti) að leyfa konum að sækja æðri menntun við hlið karla. Ein afleiðing þess er sú að gáfað fólk er farið að sofa saman og eignast börn - og gáfuð pör eignast miklu frekar einhverf börn. Ráð Watsons er einfalt: sértu gáfuð skaltu velja maka eftir útlitinu.
Þá sér Watson ekkert fallegt við það hve heimskur hluti mannkyns er. Hann gengur jafnvel svo langt að fullyrða að heimskasti tíundihluti mannkyns sé sjúklega heimskur og að sóttvarnir eigi að ganga í það verk eins og önnur heilbrigðismál.
Um feitt fólk á hann að hafa sagt að það þekktu það margir yfirmenn hve pínlegt væri að fá akfeitt fólk í atvinnuviðtöl, vitandi að það kæmi auðvitað aldrei til greina að ráð það.
Loks á hann að hafa sagt að ef sú staða komi upp að hægt verði að greina gen kynhneigðar þá sé sjálfsagt að verða við óskum foreldra um eyðingu samkynhneigðra fóstra.
En nú er hann kominn í fréttirnar á ný. Og nú vegna þess að hann ákvað að deila með heiminum hugmynd sinni um framtíð Afríku. Hann mun hafa sagt að hann væri í grundvallaratriðum svartsýnn um þróun mála í heimsálfunni vegna þess að það væri einfaldlega ekki rétt að svarti kynstofninn væri jafn greindur og sá hvít. Og þegar þetta helst í hönd með þeirri fullvissu Watsons að svart fólk sé graðara en hvítt, þá er vissulega illt í efni.
Og við, hinir upplýstu Vesturlandabúar, hnussum yfir fáfræði þess gamla, gerum að honum gys eða afskrifum sem elliæran. En við ættum að hugleiða þetta dálítið.
Hugmyndin um samkeppni á markaði um veraldleg gæði gengur í grundvallaratriðum ekki upp nema hægt sé að stóla að verulegu leyti á jöfnuð manna. Hugmyndin um
markað krefst þess, eigi hún að ganga í takti við réttlætið.
En við erum ekkert jöfn. Og pælingu Watsons um Afríkunegrana má heimfæra á hvað sem er, t.d. keppni um borgarstjórastólinn, blaðamannsstarf eða landsliðsþjálfarasess.
Þótt við göngum útfrá þeirri grundvallarforsendu að áunnin ójöfnuður sé hluti af réttum leik þá eigum við eftir að taka afstöðu til meðfædds ójöfnuðar. Þriðji hlutinn, uppeldislegur ójöfnuður er of margræður til að ég nenni að taka hann með hér.
Nú getum við auðvitað sagt kaldlynd að samkeppni á frjálsum markaði sé rétta kerfið. Hugmyndin hugnist gáfaða fólkinu enda standi það sig yfirleitt vel og ógáfaða fólkið sé of vitlaust til að átta sig á ranglætinu að neinu viti eða að velta kerfinu úr sessi með einhverjum raunhæfum hætti. Markaðskerfið sé því gráupplagt því það hefur innbyggðan stöðugleika sem önnur kerfi hafa ekki. Ef komið væri upp kerfi sem miðaði við þarfir heimskra væri það að sjálfsögðu dauðadæmt því gáfaða fólkið myndi snúa því sér í vil í fyllingu tímans. Auk þess sem gáfaða fólkið í markaðskerfi sér alltaf hag sinn í að viðhalda voninni hjá heimskingjunum, því þá leggi þeir sig meira fram við störf í þágu þeirra gáfaðri.
Ég veit hreinlega ekki hvað skal halda. Eitt veit ég af reynslunni. Það er til óskaplega mikið af heimsku fólki. Og ég hef kynnst mörgu af því.
Svo virðist sem eina ástæða þess að gáfaða fólkið er ekki löngu búið að hneppa hina í þrældóm sé sú tilhneiging náttúrunnar til að sýkja greint fólk af geðveiki. Gáfað fólk með heilbrigða sál er nokkuð sjaldgæft og gjarnan velviljað að upplagi. Laðast tilaðmynda frekar að trúarbrögðum og samhjálp.
Gáfaða, kaldlynda fólkið gerir yfirleitt meira úr gáfum sínum en geðveilan hinkrar eftir þeim á hverju götuhorni.
Þannig virðist mannskepnan ekki ná hámarki sínu í gáfum nema um leið fylgi kærleiksgöfgun. Og þess vegna hefur gáfaða fólkið ekki hneppt heimskingjana endanlega í bönd. Þeir sem hafa næga greind til að reyna það sturlast yfirleitt eða rétta keflið yfir til næstu kynslóðar sem er þá bullandi einhverf og ófær um nokkurn skapaðan hlut.