22. október 2007

Erfðir og þróun

Það eimir sterklega af Platóni og Kristi í grundvallargerð samfélags okkar. Nýliðnir atburðir, þar sem allt fer á annan endann þegar gamall skarfur leyfir sér að efast um jafna greind kynstofna, hafa fengið mig til að pæla aðeins í mennskunni.

Ég fæ ekki betur séð en að okkur sé ætlað að trúa tvennu um mannkynið sem orkar afar tvímælis.

  • Í fyrsta lagi er okkur ætlað að trúa að til sé mennska, einhverskonar frummynd sem allir menn eiga jafna hlutdeild í. Sum sé, að tegundin maður eigi sér skýr og afmörkuð landamæri.

  • Í öðru lagi virðist sem svo að einstakir hópar manna, hvort sem það eru kynþættir eða kyn, eigi í ljósi þessarar mennsku að hafa nokkurnveginn nákvæmlega jafnmikið af kostum innbyrðis.

Báðar þessar skoðanir orka mjög tvímælis vegna aragrúa vísbendinga um að þær standist ekki. Þannig má hunsa þær nær algjörlega ef þess er gætt að verið sé að ræða um afmörkuð svið. En heildarmyndina má aldrei falla blettur eða hrukka á.

Meðal augljósra andæfinga við fyrri kennisetninguna má nefna:

  • Okkar eina pottþétta skilgreining á manninum byggir á erfðafræðilegum þáttum, þ.e. litningum. Samt eru til menn sem hafa litningagalla, t.d. auka litninga. Erfðafræðilega skortir upp á mennsku t.d. mongólíta þar sem þeir eru frávik frá því sem gerir menn að mönnum. Að hagræða mennskuhugtakinu þannig að það nái af fullum þunga yfir mongólíta einnig opnar leið inn á gruggugar slóðir óvissu og efa.

  • Hið sama gildir um fóstur í móðurkviði (eða tilraunaglasi). Við höfnum mennsku þeirra upp að vissum mörkum og helgi mannlífsins nær ekki yfir þau með sama hætti og aðra menn. Enn bendir það í átt til óvissu um mennskuna, þ.e. að við erum alls ekki svo viss um hvað gerir menn að mönnum og hunsum mennskuna eða afneitum henni jafnvel að fullu í vissum kringumstæðum.

Meðal augljósra athugasemda við seinni kennisetninguna má nefna:

  • Ef þróunarkenningin er rétt eiga allir menn sama forföður og tilheyra sömu tegund þar sem erfðafræðileg líkindi eru veruleg og allir heilbrigðir menn geta eignast frjó afkvæmi innbyrðis. Það er samtsemáður ljóst að menn hafa þróast af frumstæðari tegundum og að hæfileikar fara mikið til eftir þróunarlegum aðstæðum og umhverfi. Engin ástæða er til að ætla að munur kynstofnanna/kynjanna sé aðeins á yfirborðinu. Ástæða er til að ætla að mismunandi þróunarleg skilyrði hafi haft sértæk áhrif á þróun kynstofna. Þegar einstaka kynstofnar verða síðan ráðandi og heimfæra menningu sína yfir á aðra virðist eðlilegt að ætla að aðrir kynstofnar standi höllum fæti gagnvart þeim að einhverju leyti.

  • Það er augljós munur t.d. á sjúkdómasækni og ýmsum hæfileikum á milli hópa í samfélaginu. Svartir fá t.a.m. frekar ákveðnar tegundir hjartasjúkdóma, konur fá frekar kvíða o.s.frv. Að einhverju leyti, og jafnvel mestu leyti, er munur á milli hópanna félagslegur, þ.e. útskýrist af mismunandi viðbrögðum við mismunandi aðstæðum - en ekkert virðist mæla á móti því að munurinn geti verið líkamlegur einnig.

Það kæmi mér ekkert á óvart þótt svertingjar mældust að meðaltali með aðra greind en hvítir eða gulir og það kæmi mér jafnvel ekkert á óvart þótt eitthvað af félagslegum aðstæðum þeirra skýrðist með slíkum mun. Í því er ekki fólginn rasismi, ef rasismi er skilgreindur sem andúð eða hatur á ólíkum kynþáttum.

Það telst ekki til haturs að viðurkenna að þunglyndi og önnur geðveila er viðvarandi fylgifiskur sumra ætta. Það telst ekki til andúðar að benda á að sumar ættir gyðinga reynast óvenjulega greindar. Það telst til skýringa.

Og ég sé ekkert að því að karlfauskurinn fabúleri um það að hugsanlega sé sá munur á kynstofnunum sem geri svertingjum erfitt um vik að aðlagast því kerfi sem er afrakstur langrar þróunar hjá hvíta kynstofninum.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

það hefði verið mjög viðeigandi að hafa mynd af Konna & Nonna með þessu rausi.

lokaefnisgreinin hjá þér svarar annars mikið til þess sem femíniskir hafa hengt sig í til þess að afsaka hversu miklir eftirbátar konur eru á mörgum sviðum.

er sá munur kannski á kynjunum sem gerir körlum erfitt fyrir að aðlagast því kerfi barnauppeldis sem konur hafa þróað með sér í gegnum aldirnar?

en aðalspurningunni er ósvarað, erum við til?

svarið við henni kemur okkur álíka langt og að setja niður við svertingja á þennan hátt sem karluglan gerði.

Nafnlaus sagði...

Þetta er eitt það heimskulegasta sem ég hef lesið eftir þig.
Þú þarft sárlega á því að halda að lesa fleira en heimspeki. T.d. um hversvegna ekki er hægt að segja að "kynþættir" séu í raun og veru til, og skýringar á því hvers vegna svartir amríkumenn koma verr út úr greindarprófum en hvítir amríkumenn. (Skýringin er s.s. félagsleg, mest notuðu greindarpróf in (Stanford-Binet, Wechsler) eru hönnuð (sérstaklega stöðluð) fyrir fólk með ákv. félagslegan bakgrunn, sem sagt, fólk sem tilheyrir samfélagi hvítra í Bandaríkjunum.)

Fleira er þarna vitleysislegt í pistli þínum, og bendi ég þér á að lesa þér til í mannerfðafræði.

Mengella sagði...

Ern, þú þarft sárlega að lesa betur það sem ég skrifaði áður en þú hossar þér á þínum háa hesti.

Ég veit allt um höfnun kynþáttarhugtaksins og um hin amerísku greindarpróf, kosti þeirra og galla. Ég sagði m.a.s. „Að einhverju leyti, og jafnvel mestu leyti, er munur á milli hópanna félagslegur“ en punkturinn er jafngildur fyrir því.

Það er augljós munur á hópum manna, t.d. eftir kynferði og kyni. Það sér hvert barn. Sú afneitun, sem fólgin er í því, að bannað sé að bera saman kosti og galla slíkra hópa og bera saman með tilliti til mannkosta stenst ekki kröfur um gagnrýna hugsun og byggir á veikum rökum.

Nafnlaus sagði...

Útburður og blót voru átaka punktar við kristnitöku, því var hvoru tveggja leyft til 1022.

Skilgreininga hártogun mennsku kemur ávallt upp í fjöldamorðum, nazistar skilgreindu gyðinga ekki menn, svartir voru skilgreindir húsdýr fyrir þrælastríð, ófædd börn eru skilgreind fósturvísar eða frumuklasi, þegar þarf að aflífa þau, þó þau taki ekkert til sín, nema næringu frá getnaði til grafar.

Blóðugusta stríð, sem heimurinn hefur upplifað, er háð í móðurkviði, fimmti hver íslendingur lætur þar lífið fyrir aldur fram, 50 milljón árlegar fóstureyðingar verða seint toppaðar.