27. október 2007

Ranghugmyndin um Guð

Eins og fleira gott fólk lét ég það verða eftir mér að hlusta á The God Delusion e. Ríkharð Dawkins. Ég man ekki hvernig nag mitt við Vantrúarmenn fór á sínum tíma. Það síðasta sem ég man eftir er komment um að ég ætti nú ekki að láta mér detta í hug að þeir væru búnir að gefast upp og nú skyldi ég bara bíða og sjá. Hafi eitthvað gerst síðan hefur það farið framhjá mér.

Nema hvað, af áhuga á málefninu tók ég Dawkins með í ræktina í þessari viku og hlustaði af athygli á hann og einhverja kerlingu lesa skrudduna.

Það hafa staðið mörg spjót á honum í gegnum tíðina og einn helsti löstur á bókinni er sá að hann virðist þurfa að svara öllum sem hafa veist að honum einhverntímann. Mjög oft eru árásir Dawkins á óvini sína barnalegar og hreint og beint hallærislegar. Honum finnst t.d. gaman að búa til ímynduð, asnaleg samtöl eða einræður og eigna öðrum. Afar miðaldra nýlenduveldiskarlahúmor. Hann hefði mátt sleppa slíku fíflaríi og löngum köflum þar sem hann er í raun ekki að segja neitt að viti heldur aðeins hæðast að einhverju sem hann segir síðan í lokin að sé ekki vitrænnar umræðu virði. Hann hefði mátt stilla þögninni upp sem andstæðingi vitrænnar umræðu og stytta bókina um 40%.

Þá er bókin óskaplega endurtekningarsöm. Hann traðkar sömu atriðunum í eyrun á manni aftur og aftur og aftur og aftur og aftur þar til mótstöðuafl hugans er ekkert orðið. Loks er það stórkostlegur galli á bókinni að hann virðist telja að ástæða sé til að fjalla um (og það í löngu máli) allt það heimskulegasta sem eigna má trúarbrögðum, eins og neysla ofskynjunarlyfja, sjálfsmorðsárásir og nefndu það. Að pönkast á trúuðum hálfvitum langalengi hefur engan tilgang annan en þann að rúnka vantrúarliði.

Þegar loks kom að þungamiðju bókarinnar varð ég fyrir gífurlegum vonbrigðum. Honum hafði (loksins) tekist að einangra kjarnann í málinu og ætlaði nú að veita náðarhöggið. Og púff! Ekkert gerðist. Veiklulegar röksemdir og barnalegar rökvillur var það eina sem hann gat borið fram.

Kjarninn í bókinni birtist þegar Dawkins reynir að sannfæra lýðinn um að Darwinismi gangi af guði dauðum þar sem Darwinismi skýri tilurð fjölbreytileka tilverunnar (a.m.k. í líffræði) en Guð komi með fjölbreytileikann að borðinu því hann hljóti sjálfur að vera a.m.k. jafnflókinn og sköpunarverkið og þá eigi eftir að gera grein fyrir því hvernig hann varð til.

Þegar honum er bent á augljóst svar trúaðra að enn sé hann að reyna að heimfæra eina heimsmynd yfir á aðra á hann engin skynsamleg svör. Ef stilla má þeim skoðunum sem mætast í kjarna bókarinnar upp þá eru það þessar:


Guðsinnar segja að efnisheimurinn sé vissulega sá heimur sem blasi við skynfærum okkar og skynsemi en að hann úi og grúi af vísbendingum um annan heim, óefnislegan sem jafnvel umlykur efnisheiminn og ekki sé ólíklegt að efnisheimurinn, lögmál hans og fyrirbæri eigi sér uppsprettu í handanheiminum með einum eða öðrum hætti. Efnisheimurinn hafi einfaldlega orðið skyndilega til í einu vetfangi.

Meðal vísbendinga um handanheiminn sé hugsanlega vitundin, þ.e. sú staðreynd að við erum öll til sem óefnislegar sálir. Við hugsum, skynjum og upplifum á stað í veröldinni sem evklíðsk rúmfræði nær ekki yfir, a.m.k. ekki greinilega. Vitund okkar hafi ekki rúmtak eða massa sem er þó skilgreinandi þáttur í því að geta talið fyrirbæri heyra til efnisheimsins (og heimsins eins og við þekkjum hann).

Við getum vitað ýmislegt um heiminn og þróunarkenningin er glæsilegt afrek. Þegar hún er rakin með sæmilegum hætti finnum við að hún er sönn í grundvallaratriðum. Hvernig vitum við þegar eitthvað er satt? Hvaðan kemur dómgreindin? Við vitum það ekki, þótt við getum komið með tilgátur um það. Raunin er samt sú að við treystum dómgreindinni því við höfum ekkert annað að treysta á.

Og þá er komið að Guði.

Svo virðist sem menn hafi áttað sig á því fyrir löngu að dómgreind okkar er hægt að opna fyrir opinberandi sannindum af öðru tæi. Með því að taka trúarstökkið og trúa í einlægni á guð sem mengið sem andlegu stökin finnast í opnast dómgreindinni ný tegund af sannindum. En aðeins ef trúað er í einlægni opinberast þessi sannindi. Þau eru gjarnan torskilin og margoft hugboð frekar en skýrar tilskipanir og óefað er að þau brenglast í meðförum manna. En allir menn hafa þennan hæfileika og þótt trúað fólk kastist til og frá í efnislegum útfærslum trúar sinnar þá er drifkrafturinn, trúhneigðin, að baki í öllum tilfellum.

Trúin er eins og kynhneigð. Hún gefur lífinu tilgang, merkingu. Hún svarar grundvallarspurningum um tilvist mannsins. Hún opnar nýtt samhengi fyrir vitundinni sem gerir hið eldra, trúlausa samhengi yfirborðskennt og barnalegt.

Trúaður maður er eins og strákurinn sem keppir um hylli stúlku með því að keppa við hina vonbiðlana í skák. Eftir smástund eru þeir allir svo niðursokknir í skákina að þeir sjá ekkert nema reglur leiksins og úr verður hörkueinvígi. Þar til þessi eini strákur áttar sig á því að skákin er ekki markmið í sjálfri sér heldur leið að öðru marki. Hann sér að stúlkunni leiðist þófið, hættir að tefla (hinum til mikillar furðu) og kaupir handa stúlkunni blóm.

Dawkins og Vantrúarmenn eru strákarnir sem hamast við að tefla.

Öll rök sem Dawkins teflir fram gegn þessari hugmynd eru annað hvort fíflalegar athugasemdir um eitthvað hallærislegt atriði eða hann reynir að sýna frammá að andlegi heimurinn passi ekki við reglur efnisheimsins. Kommon! Það er eins og að heimfæra reglurnar í skák upp á tilhugalífið í heild sinni.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Fyrir mitt leyti verð ég að segja að ég varð ekki hamingjusamur fyrr en ég hætti að reyna að trúa. Ég trúi engu og líður best þannig.

Trúleysi er ekki trúarbrögð, nema kannski eins það sé tómstundagaman að safna ekki frímerkjum.

Nafnlaus sagði...

Það er alveg sama hvað ég reyni, mér líður alltaf. Allar tilraunir til að hætta að líða hafa engan árangur borið...

Nafnlaus sagði...

Lame rantur með lame niðurstöðu. Farðu í Krossinn að borga Gunnari tíund.

Nafnlaus sagði...

Síðasta umræða endaði í engu vegna þess að þú ert ekki að segja neitt gáfulegra en trúarnöttararnir sem við körpum við daglega - þó þú virðist halda annað.

Ekki ætla ég að rökræða við þig um bók Dawkins, ef þú heldur að hún sé eitthvað höfuðrit Vantrúarmanna er það misskilningur. Mér fannst hún ágæt, en ég las ekkert nýtt í henni.

Mér þykir þú aftur á móti augljóslega ofmeta eigin gáfur. Hjal þitt um vitundina er beinlínis barnalegt.

Nafnlaus sagði...

Trúi alveg slatta. Óx uppí það og er bara þónokkuð kátur með það.

Ekki síst ef hinn kosturinn er að vera jafn pirraður og Daki greyið. Hann er jafn sjúkur og þeir sem eru í dagskrárgerð á Omega. Það eru nefnilega fífl í báðum flokkum.

Nafnlaus sagði...

"Trúleysi er ekki trúarbrögð, nema kannski eins það sé tómstundagaman að safna ekki frímerkjum" segir Elías.

Ef maður heldur úti heimasíðu gegn frímerkjasöfnun, skrifar blaðagreinar gegn frímerkjasöfnun, mætir í sjónvarps og útvarpsviðtöl til þess að tala gegn frímerkjasöfnun - þá er það mjög örugglega orðið áhugamál.

Ingvar Valgeirs.

Nafnlaus sagði...

Ergo: trúleysi getur birst sem áhugamál, eða hvað?