Að drepast úr hita
Horfði á áleitna mynd í gær, The Great Global Warming Swindle, sem er nokkurskonar andsvar við An Inconvenient Truth. Röksemdafærslurnar í henni eru nokkuð sannfærandi á meðan Al Gore notaði engin rök. Hann sýndi að fylgni hefur verið á milli hitastigs á jörðinni og losunar CO2 með línuriti en það var allt og sumt. Ekkert hjá honum sannfærði mig um að fylgnin væri vegna orsakasambandsins CO2 -> hiti frekar en hiti -> CO2 eða hvort um væri að ræða sameiginlega þriðju orsök. Í raun fannst mér, þegar ég horfði á myndina, ekkert eðlilegra en að CO2 losun ykist þegar hlýnaði á jörðinni. Þá ætti lífmassinn að margfaldast með allri sinni losun, eða hvað? Þá þótti mér einkennileg hræðslan við að jörðin færi að tortímast í ofsaveðrum og stiknun vegna hlýnunar, minnug þess að öll mín uppvaxtarár var kenningin sú að við værum enn í miðri ísöld eða jafnvel á leiðinni í nýja.
Samkvæmt myndinni komst kafhlýnun jarðar á kortið sem framúrstefnuleg sænsk kenning sem fékk byr undir báða vængi vegna þess að...
- Margaret Thatcher, seinþreytt á kolanámuverkföllum og æst í fjölgun kjarnorkuvera, hampaði henni,
- umhverfissinnar voru lentir í lognmollu vegna almenns velvilja „valdsins“ og fögnuðu nýrri baráttu,
- nýmarxistar og andstæðingar nútímasamfélagsins og Bandaríkjanna sérstaklega stukku með á vagninn og
- hratt urðu til stórir hópar vísindamanna sem áttu styrkveitingar og afkomu sína undir því að um raunverulegt vandamál væri að ræða.
Nú þykir sumum málið orðið eins og 2K-vandinn og til að komast í fjölmiðla og vekja á sér athygli sé eina leiðin að spá nægilega miklum hörmungum.
Ekkert af ofangreindu er mjög málefnalegt. Á móti er ekkert mál að dæma alla þessa vísindamenn sem komu að The Great Global Warming Swindle, sem þann hóp sem alltaf er til og veðjar á halta hestinn. Velur einhverja skoðun sem er svo úr takti að enginn annar hefur valið hana og vonast eftir heimsfrægð ef hún reynist rétt eða verður móðins.
Vísindalegu rökin eru það eina sem skiptir einhverju máli í þessari mynd. Slagurinn við vinstraliðið er ómerkilegur og leiðinlegur. Rökin sem skipta einhverju máli eru þessi:
- Ekkert bendi til þess að gróðurhúsalofttegundir, aðrar en vatnsgufa, skipti sköpum um hlýnun jarðar.
- Al Gore snúi tengslum CO2 og hlýnunar við í mynd sinni. Hlýnunin komi á undan en CO2 aukist í kjölfarið.
- Hitabreytingar séu miklu algengari á jörðinni en sumir álíta. Ofsahlýtt var um það bil sem Ísland byggðist, fimbulkuldi útrýmdi byggð norrænna á Grænlandi og olli harðindum og landflótta og í upphafi þessarar aldar fór að hlýna á ný.
- Mynstrið sé í hreinni mótsögn við kenninguna. Fram undir miðja öldina hlýnaði mjög skarpt á meðan iðnaður gekk hægt, t.d. vegna stríða, en þegar iðnaður rauk upp úr öllu valdi með allri sinni CO2 losun eftir síðari heimsstyrjöld kólnaði í marga áratugi. Nú er byrjað að hlýna aftur.
- Langmikilvirkasta hlýnunaraðferð jarðar sé með skýjum en fjöldi þeirra fer talsvert eftir virkni sólar. Sólvindar koma í veg fyrir myndun skýja með því að feykja burt ögnum sem annars myndu ganga inn í andrúmsloftið og verða kjarninn í vatnsgufudropum. Virkni sólar má mæla með fjölda sólbletta. Langnærtækast sé að álykta sem svo að hitabreytingar á jörðinni stafi af mismunandi virkni sólar og að CO2 hafi óveruleg áhrif.
Mér þykja rökin nokkuð athyglisverð. Nú þarf ég að finna eitthvað skárra en Gore til að skoða hina hliðina betur.
11 ummæli:
Ó að þetta væru nákvæmnisvísindi eins og kynjafræði, eða segjum hagfræði.
kv. Bardamu
Eh, það veit hvert heilbrigt mannsbarn að umræðan hefur meira með pólitík og trúarbrögð en staðreyndir að gera.
Martin Durkin er þaðan af síður þekktur fyrir nákvæmni í vinnubrögðum; það hefur þegar einn þeirra sem fram komu í myndinni afneitað þeirri framsetningu sem gefin af honum:
"But now the programme - and the channel - is facing a serious challenge to its own credibility after one of the most distinguished scientists that it featured said his views had been "grossly distorted" by the film, and made it clear that he believed human pollution did warm the climate."
Sjálfur treysti ég vísindasamfélaginu frekar en biblísku heimsendatrúarhyski; það er ekki eins og þar séu ALLIR á rannsóknarstyrkjum (eins og er oft reynt að gefa í skyn).
Það er hárrétt að myndin er augljóslega heiftúðugt innlegg í pólitíska baráttu gegn nývinstrinu. Hinsvegar er þetta sama vísindasamfélagið og spáði ísöld fyrir örfáum árum. Nú hljóðar spáin upp á fullkomna andstæðu þess.
Það efast heldur enginn (og var ekki gert í myndinni að ég hygg) að mengun geti valdið hita, aðeins að starfsemi sólar sé miklu ríkari þáttur. Það er einkennilegt að ætla að útskýra hlýnun jarðar út frá útblæstri eingöngu þegar hitastigið hefur húrrað niður og risið aftur reglulega í gegnum tíðina.
Hvað olli kólnuninni sem eyddi grænlensku byggðinni? Hvers vegna hitnaði fyrir stríð en kólnaði eftir?
Veist þú það?
Hér hefur verið staðfest sú kenning mín að Mengella bloggi í þeim eina tilgangi að pirra fólk.
Case closed. :-)
Léleg Wikipedia-færsla.
Veist þú það?
Hef ekki glóru. Þykist ekki heldur. Enda hef ég ekki eytt hluta ævi minnar í að athuga þau gögn er varða málið, eða álíka miklum tíma og velflestir þeirra sem tjá sig töluvert meira um það.
Ekki misskilja, því heilbrigðar efasemdir eru bara af hinu góða. Hjá flestum koma þær bara málinu voðalega lítið við. Hlýnun loftslags og pólitík/trúarbrögð tengjast hvoru öðru nákvæmlega ekki neitt, en samt er gríðarleg fylgni þar á milli þegar kemur að skoðunum fólks á því hvort kenningin sé réttmæt. Það segir allt sem segja þarf.
Er sammála. En vil skilja röksemdirnar óháð hinum pólitísku umbúðum.
Rökin virðast vera þessi:
Hitabreytingar hingað til eru líklega af völdum breytinga á virkni sólar. Þó höfum við engar nákvæmar mælingar.
Sú hækkun hita sem við stöndum nú frammi fyrir virðist ekki tengd neinum áberandi breytingum á virkni sólar. Hinsvegar hefur CO2-magn aukist greinilega.
Spurningin er, hvort kenningar um það hvernig virkni sólar, geimgeislakenningin, varpi áður óséðu ljósi á málið.
Um það eru menn ekki sammála.
Jamm, get ekki neitað því að það sé margt athugavert við kenninguna. Ég er bara að tauta yfir því formi sem umræðan er oft sett í (búinn að eyða of miklum tíma á bandarískum spjallborðum), sem gengur meira eða minna út á röksemdafærsluna 'glætan að mannfólk gæti haft svona mikil áhrif á jörðina' (jafnvel þó eitt eldgos geti haft gríðarleg áhrif á lífríki þúsundir kílómetra í burtu).
Ég er sjálfur engan veginn fær um að dæma kenninguna sem slíka.
Hvaðan kemur Mengellu sú vitneskja að kuldakast hafi eytt byggðinni á Grænlandi?
Örlög norrænu byggðarinnar þar er þvert á móti ráðgáta.
Líklegra hefur verið talið að einhvers konar átök eða ofbeldi hafi skipt þar sköpum, þar sem inúítar hafi ráðist á byggðirnar eða evrópskir sjóræningjar. Þess vegna hafi fólkið horfið sporlaust.
Ef Grænlendingarnir hefðu einfaldlega ákveðið að bregða búi, þá má telja líklegast að þeir hefðu einfaldlega flutt til Íslands og þess væri þá getið í heimildum
Rétt er það að örlög norrænna Grænlendinga eru fræðimönnum mikil ráðgáta. Aftur á móti hefur það varla verið hægðarleikur fyrir þá að dóla sér til baka yfir Grænlandssundið þar sem talið er líklegt að skipaeign þeirra hafi verið óveruleg og varla nokkur. Enn fremur þykist ég muna að veðurfarsrannsóknir hafi sýnt fram á að um það leyti sem fregnir hættu að berast af grænlensku útlögunum hafi verið óvenju hart í ári. Vísa ég þar til rannsókna J. Diamond á áhrifum umhverfisþátta á samfélög. Almennt er nú talið að það hafi verið samvinnandi þættir umhverfis, óvinveittra þjóðflokka og þrákelkni afkomenda grænlensku Íslendinganna við að tileinka sér lífshætti inúíta sem grönduðu byggð norrænna Grænlendinga.
Takk, fyrir þennan link, Mengella. Alveg mögnuð helvítis opinberun!!!
Það er s.s. verið að reyna að kúga 3ja heiminn með þessum "Kolefniskvótum", alls ekki svo fráleit skýring...
Skrifa ummæli