2. apríl 2007

Lestur

Þegar maður finnur að heilinn er að fyllast af gruggi er þrennt sem alltaf er hægt að stóla á til að aflúsa hann. Heimspekirit Descartes eða Stuart Mills, ljóð Wordsworths og Njála.

Er einmitt að lesa Njálu enn eina ferðina. Kynntist henni raunverulega fyrst sem skyldulesningu í menntaskóla og las hana að sjálfsögðu ekki þá, leiddi mig áfram á ættartölum og glósum, en fljótlega eftir stúdentspróf las ég hana upp til agna.

Ég held, að frábærari bók sé ekki til. Persónurnar eru magnaðar, húmorinn alltumlykjandi og kerskinn og stílbrögðin óviðjafnanleg. Það er endalaust hægt að finna nýja fleti á sögunni.

Eftir lesturinn finn ég hvernig heiðríkjan fyllir hugann og orðin fá aftur lit og hljóm.

Stóð mig að því að hlæja upphátt að launfyndinni efnisgrein í gærkvöldi:

Nú er kyrrt þau misseri. Um vorið jók Njáll ekki hjón sín. Nú ríða menn til þings um sumarið.