26. nóvember 2008

Þjóðin, það er ég!

G. Pétur telur að lítisvirðing sýnd sér sé lítilsvirðing í garð þjóðarinnar. Haarde telur að lélegar og áróðurskenndar spurningar fréttamanns séu lítilsvirðing í sinn garð og embættisins.

Annar gengst upp í því embætti sem hann gegnir. Hinn telur sig þjóðina sjálfa.

Hvor er sá hrokafulli?

25. nóvember 2008

Að skipta um kyn


Það var fróðlegt að sjá „nauðgunarsenuna“ úr Dagvaktinni (sem annars er hundleiðinlegt sjónvarpsefni) sviðsetta þar sem víxlað var kynhlutverkum. Mér fannst það raunar bara fyndnara þannig.

Önnur kynjaskipti væru áhugaverð. Það væri ef Árni Johnsen væri settur í hlutverk Steingríms J. Sigfússonar í „Éttann sjálfur“ málinu. Þá er ég að vísa til þess þegar Steingrímur rýkur af stað og stendur ógnandi (eða eins ógnandi og honum er unnt) fyrir framan pontuna. Hleypur svo til Geirs og danglar í hann kvartandi yfir Bjössa.

Ímyndum okkur nú að Steingrímur sjálfur hefði verið í pontu og Árni gert nákvæmlega það sama og Steingrímur gerði. Um hvað væri talað á blogginu? Um hvað væru fréttirnar?

Ég skal segja ykkur það. Þær væri um stórlega vanstilltan þingmann sem ætti að segja af sér fyrir þá skömm að draga eigið fúla eðli inn í þingsali.

Félagi Napóleón!


Það hafa ýmsir orðið til þess að vísa í Dýrabæ upp á síðkastið. Dýrabær er ekki flókin bók en samt er greinilegt að flestir þeirra sem vitna til hennar misskilja hana í grundvallaratriðum. Haarde er ekki Napóleón. Haarde er sinnulausi bóndinn.

Það segir sig svo sjálft hverjir eru svínin.

Nýja-Ísland


Jenný Anna Baldursdóttir: „Á nýja Íslandi sem verður gegnsætt, laust við foringjadýrkun og undirlægjuhátt...“

Steingrímur J. Sigfússon: „Hið nýja Ísland, sem við reisum, verður opið og lýðræðislegt, samábyrgt norrænt velferðarsamfélag í anda þess allra besta sem við þekkjum úr þeirri átt. Þar verður blandað hagkerfi: hið opinbera stendur fyrir og ábyrgist almannaþjónustu og tryggir öfluga innviði samfélagsins, samgöngur og fjarskipti, heilbrigðisþjónustu og menntun og öflugt velferðarkerfi. Leiðsögnin í atvinnuuppbyggingu og sambúð við landið verða leikreglur sjálfbærrar þróunar. Í hinu nýja Íslandi taka konur fullan þátt á öllum sviðum til jafns við karla. Því verður ekki stjórnað af fámennum hópi jakkafataklæddra karla. “

Calvín: „Á Nýja Íslandi bú nýir Íslendingar. Á nýja Íslandi verður orðið græðgi bannað. Einnig orðin einkavæðing, einkavinavæðing, samræðustjórnmál, sægreifar, kvóti og útrás. Á Nýja Íslandi verður enginn forseti enda hefur þjóðin ekki efni á slíkum munaði. Auðlindirnar verða sameign þjóðarinnar. Alþingi verður lagt niður enda hafa þar 63 þingmenn sofið á verðinum eða stundað áskriftarferðir til útlanda. Þeir sem eru ennþá í útlöndum skulu vera þar áfram sem fulltrúar gamla Íslands. Stjórnmálaflokkarnir verða bannaðir og allir karlaklúbbar sem hafa makkað um völd og fjármuni í reykfylltum bakherbergjum.“

Birgir Rúnar Sæmundsson: „Ísland hið nýja: Í Jesús Kristi við sjáum ljós,/Ljósið sem eilíft mun skína./Hann elskar þig Ísland,/þú ástfagra land,/og alla íbúa þína.“

Þorsteinn Pálsson: „Getum við byrjað að reka Nýja-Ísland með gamla gjaldmiðlinum?"

Hólmdís Hjartardóttir: „Heimsmyndin verður gjörbreytt eftir að þessari kreppu líkur. Valdahlutföll eiga eftir að breytast í heiminum. Og Nýja Ísland verður öðruvísi en það sem við þekkjum núna. Mörg uppgjör eiga eftir að fara fram. Og einhverjir verða að axla ábyrgð. Kannski er loksins kominn tími jafnréttis? Ég held að tími kvenna sé að koma á ÍSLANDI. Verðmætamatið á eftir að gjörbreytast sem ég held að verði gott.“

Ásthildur Cecil Þórðardóttir: „Því við mælum einum munni. Við viljum breytingar, við viljum réttlæti og við viljum sjá nýtt Ísland rísa. Allir góðir vættir blessi ykkur og verndi. Heill þér nýja Ísland!“

Barrabbas á sviðið


Þegar múgur telur sig ranglæti beittan bregst hann yfirleitt við á fyrirsjáanlegan hátt. Smám saman flyst þunginn yfir á hrifnæmi múgsins af hrifnæmishöftum. Menn hrífast með þeim sem hrífast auðveldlegast í stað þess að láta þá tregustu drepa alla stemmningu niður.

Múgur blindast gjarnan svo af ranglætinu að drulludelar, sem samfélagi hefur venjulega í öflugum þumalskrúfum, ná að beita honum fyrir sig í frelsun sinni og sinna. Þannig halda Frakkar hátíðlegan daginn sem þeir hleyptu viðbjóðslegum vibbum úr Bastillunni og júðamúgurinn sleppti Barrabbas lausum til að geta tekið í lurginn á honum Ésu. Helvítinu honum Ésu sem var ekkert nema hrokinn og yfirlætið.

Heimildir telja að Barrabbass, sem var hreinræktaður drulludeli, hafi setið í fangelsi af því hann var ólæknandi rósturseggur. Hann var það róttækasta af öllu róttæku í samtökunum Saving Palestina. Og hafði í óeirðum gegn oki Rómverja kálað manni. Sjálfsagt einhverjum sem átti það skilið. Einhverju auðvaldssvíninu. En morðingi var hann engu að síður. Barrabass hefði vafalaust setið til dánardags í rómversku fangelsi hefði ekki komið til múgvirkjunnar. Og virkjun múgs er skapadægur glæpamanna og geðsjúklinga. Allt í einu eru allir eins og þeir – og þeir eins og allir. Samhljómur.

Í októberbyltingunni íslensku sjáum við sama heilkennið á ferð. Það er búið að frelsa Barrabass. Og skyndilega er hann bara eins og einn af okkur. Hrokinn og yfirlætið í helvítis stjórnarpakkinu kallar á viðbrögð. Nú er orðið tímabært að meiða einhvern. Eða drepa.

En bylting á sér aldrei stað án þess að einhver stjórni henni. Stjórnendur vorrar dásemdarbyltingar eru tveir hópar fólks. Öfgamenn og lúserar.

Öfgamenn eru þeir sem búnir eru að komast að því að fólk er fífl. Fífl sem gera sér ekki grein fyrir því að hegðun þeirra er óásættanleg. Jafnframt þarf maður að vera tilbúinn að breyta hegðuninni til betri vegar, hvort sem hegðandinn vill það eður ei. Þá fyrst er maður sannur öfgamaður. Öfgamenn virka aldrei við eðlilegar aðstæður vegna þess að þeir njóta eðlilega lítillar lýðhylli. Þeir virka raunar ekki fyrr en þeir beina sjónum að afmörkuðum, frekar óvinsælum hópi. Hvort sem það eru Sjálfstæðismenn eða Sígaunar. Hópi sem flestir vildu sjá breytast – nú eða bara hverfa. Þá er múgurinn vís með að fylgja þeim. Og hefur ekki hugmynd um það að hann er næstur á efnisskránni þegar búið er að losa heiminn við fyrri óværuna.

Lúserar októberbyltingarinnar er allt fólkið sem búið var að spæla. Slíkt fólk leitar alltaf hefnda. Sérstaklega gegn þeim sem spældu. Spælt fólk hefur hátt og er fullt fordæmingar í garð annarra. Það hefur líka einstaklega gaman af því að tilheyra hópi. Það er svo einmanalegt að vera spældur.

Fremst í liði öfgamanna í októberbyltingunni okkar eru anarkistar, mótmælendatrúaða hettupeysuliðið, feministar og einstaka smáhópar eins og hlustendur útvarps sögu, marxískir kristniboðar og gamlir, uppþornaðir alkar.

Fremst í liði spældra ganga menn eins og Vilhjálmur Bjarnason, Þorvaldur Gylfason, Einar Már Guðmundsson, Benedikt Sigurðarson, Egill Helgason, G. Pétur Matthíasson og fleiri. Það vekur kannski athygli hve hátt hlutfall karla er í spælda hópnum. Það er einfaldlega auðveldara að fá konur til að leggja heilann á hilluna með róttækri hugmyndafræði en hégóma. Karlar eru allir fyrir hégómann.

Vilhjálmur Bjarnason hefur verið afræktur allt góðærið. Hann var fíflið sem fékk ekki að vera með. Leiðinlegi náunginn á öllum aðalfundum sem stóð í vegi fyrir því að hægt væri að byrja djammið.

Þorvaldur Gylfason hefur ekki haft nokkurn áhrifamátt í íslenskum stjórnmálum og áhrif hans á hagkerfið eru minni en áhrif nærgætins draugs. Tvennt hefur drifið hann áfram. Einlægt hatur á kvótakerfinu og áköf trú á heimsendi íslenska hagkerfisins. Hann hefur spáð efnahagslegu hruni áratugum saman. Og það er nú einfaldlega svo að ef maður spáir kreppu nógu lengi þá er maður dæmdur til að hafa rétt fyrir sér á endanum. Og það gerir mann yfirleitt ekki að messíasi. En nú getur Þorvaldur óvænt svotil valið sér einn af þremur stólum: ráðherra, seðlabankastjóra eða forseta lýðveldisins. Og múgurinn klappar fyrir honum, meira að segja þegar hann fær sér vatnssopa.

Egill Helgason er Don King, umboðsmaður aulanna. Maðurinn sem aldrei missti trúna á þá sem voru útundan. Sá sem alltaf hafði tíma fyrir þá. Sá sem nú telur sig hafa veðjað á réttan hest. Staðreyndin er samt auðvitað sú að ástæða þess að hann baðaði þessa menn svo rækilega í sviðsljósi sínu er sú að fáir aðrir vildu tala við hann.

Einar Már hætti að fá borgað fyrir nöldur sitt. Gengi þess hrundi og þá hljóp í hann verðbólga. Hann malaði sem aldrei fyrr. Og nú var ekki bara hann fúll. Allir voru fúlir. Hann var kominn heim.

Menn hafa ekki haft undan að afþakka liðsinni Bensa í gegn um tíðina. Hann hefur misst nálega hvert einasta embætti sem hann hefur fengið (og hann hefur verið ólatur við að bjóða sig fram til allra verka, stórra og smárra). Hann er líklega spælingartröll landsins. Það er skondið að sjá hann nudda öxlum við feminista þegar haft er í huga að Bensi er maðurinn sem meinaði framkvæmdastjóra KEA að fara í fæðingarorlof því „menn á svona launum“ ættu að sjá sóma sinn í því að vinna.

G. Pétur Matthíasson er einn af þessum frétttamönnum með sjarma undir frostmarki. Haarde spældi hann og Géið ákvað að nota langdræga flaug á móti.

Það má vel vera að liðið á Alþingi sé óheppilegur þverskurður þjóðarinnar. En það er ansi svalt í helvíti þegar lúserar og öfgamenn komast upp með að þykjast vera málssvarar þjóðarinnar. Auðvitað gengur það ekki lengur en þann tíma sem það tekur þjóðina að komast yfir mestu gremjuna og áttar sig á því að helvítið hann Barrabbas er betur settur bak við rimla.

3. nóvember 2008

Nýja Ísland á Austurvelli

Brá mér á mótmælin á Austurvelli í gær. Að sjálfsögðu var myndbandsvélin með í för.