Lummulegir feministar
Þegar ég var yngri dvaldi ég oft hjá ömmu minni og afa á sumrin. Þrátt fyrir að amma mín bæri af öðru fólki á flestum sviðum, bæði hvað varðar gáfur og gjörvileika, þá verð ég að játa að matargerðin á heimilinu var, tja, ekki beint á franska vísu. Búrið var að vísu ætíð stútfullt af allskonar gersemum og ískápurinn sneisafullur. Amma var að sama skapi einkar samviskusöm við matargerðina og gætti þess að allir gengu um með ríflega kjölfestu. En hún notaði kryddin ótæpilega, svo mjög reyndar að jaðraði við að kjötstykkin loguðu á pönnunni. Í brunavarnarskyni hálfdrekkti hún gumsinu í bráðnu smjörlíki.
Síðasti söludagur var í hennar huga álíka þarfur lestur og innihaldslýsingin og síðasta neysludag taldi hún frekar aumlega tilraun til fyndni.
Amma gerði reyndar dásamlegan grjónagraut. Ekki þetta saggafulla sull sem algengast er, heldur matarmikinn og einstaklega bragðgóðan alvöru graut. Það má eiginlega segja að grjónagrauturinn hafi verið hennar sérréttur, enda mallaði hún hann í tonnavís um ævina.
Grjónagrautur vissi á gott, því ef amma var að elda hann, hafði hún fundið einhverjar mjólkurvörur í ísskápnum sem voru orðnar svo framliðnar að hún vissi að það myndi ekki tjóa að bera þær á borð fyrir okkur af yngri kynslóðinni, a.m.k. ekki nema í dulargervi. Þessari tengingu gerði ég mér ekki grein fyrir uns en ég var orðin ansi stálpuð. Mig grunaði heldur ekki hver væri raunveruleg ástæða þess að hún gerði alltaf meiri grjónargraut en nokkur mannlegur máttur gat torgað.
Ástæðan voru lummur.
Daginn eftir grjónagrautsátið brást það ekki að með kaffinu fylgdu feitglansandi, dökkflekkóttar og sykurhúðaðar lummur. Stundum með rúsínum, stundum ekki. Tryllt af fitu- og sætindafíkn gaddaði maður í sig hverja lummuna á fætur annarri og svelgdi niður með ískaldri mjólk úr þungu glasi. Þvílík dýrð! Þvílík sæla!
Þið getið því ímyndað ykkur þau vonbrigði, nei - þá skelfingu - sem fylgdi því að skilja loks að lummurnar hennar ömmu samanstóðu af öllu því úr ísskápnum sem hún hafði dæmt óhæft til manneldis. Grjónagrauturinn batt þetta allt saman í fituga klatta og sykurinn var blómadaggardropinn sem laðaði okkur smáflugurnar að réttinum.
Það skal enginn segja mér, svo lengi sem dæli frá mér nægu pústi til að veita mótsvar, að lummurnar hafi verið góður matur. Margt í þeim var beinlínis vafasamt. Það sem gerði þær ómótstæðilegar var eingöngu sú staðreynd að þær höfðuðu til fitu- og sykurásælni heilabarkarins. Að vísu verður að telja þeim grautinn góða til tekna, en restin var óttalegt skarn.
Mér duttu lummurnar í hug, þegar ég las hina endalausu orðræðu með og á móti íslenskum feministum. Ég hef aðeins tjáð mig um feminista á þessari síðu. Ég benti t.a.m. á að framboð Höllu til formanns KSÍ væri og yrði aðhlátursefni. Ég tók einnig afstöðu gegn þeim feminsima sem streymt hefur úr herbúðum VG (og hef ég þó ætíð tekið upp hanskann fyrir VG hingað til). Gallinn við marga íslenska feminista er sá, að þeir líkjast lummunum hennar ömmu. Ég skal skýra hvað ég meina.
Feminismi er einhver sú eðlilegasta og skynsamlegasta hugsjón sem mannskepnunni hefur áskotnast. Ég leyfi mér að segja að feminismi sé klárt dæmi um sigur mannsandans yfir lágkúru. Um reisn hins efsta prímata.
Feminismi felst í þeirri augljósu ályktun að kominn sé tími til að ljúka innistæðulausri aðdáun á helmingi mannkyns. Það tapa allir á kúgun kvenna. Mannkynið þarf að laða fram á sjónarsviðið hæfni og sjónarmið allra, ekki bara þeirra sem telja sig hafa vit á málum. Feminismi leiðir röklega af sér afríkanisma, svertingjaisma og alla þá isma sem hafna kerfisbundinni útilokun mannlífsgeira. Þá leiðir feminsimi nokkuð glögglega af sér hugmyndina um jafnan rétt, jafnrétti.
Það sem feminismi leiðir ekki af sér, en einkennir marga íslenska feminista er t.a.m. eftirfarandi:
Feministar sem trúsöfnuður.
Það fer ekki framhjá neinum, sem gaumgæfir málið, að margt er afar líkt með íslenskum feministum og trúsöfnuðum. Trúin á skilyrðislaust réttan málstað er aðeins fyrsta einkennið. Þau eru miklu fleiri. Í hvítasunnukirkjunni er fólki kennt að innleiða ný hugtök í hugsun sína. Hugtök sem eiga upptök sín að miklu leyti í íslenskri þýðingu biflíunnar. Þetta þekkja allir sem kennt hafa barni faðirvorið. Barnið skilur ekki bofs. En smám saman verða hugtökin „skuldunautur“ , „vér“ og „freistni“ hluti af hugarheimi þess. Fullorðnir hvítasunnumenn þurfa að tileinka sér furðuleg hugtök eins og „lastmæli“, „brúður krists“ og „smurning“. Hugtök sem eru þeim óeiginleg, illa nærtæk og gegna fyrst og fremst því hlutverki að varpa kynngimagnaðri slikju yfir einfalda hluti. Eins fara íslenskir feministar að með hugtökin „klámvæðing“, „hlutgerving“ og „niðurlæging“. Fæstir þeirra hafa hugmynd um skilmerkilega merkingu þessara orða. Þau tákna óræð fyrirbæri. Og eins og gjarnan er um óræð hugtök, nærtæka skilgreiningin er yfirleitt skammarleg einföldun.
Þá eiga margir íslenskir feministar sér þá trú (og enn er það sameiginlegt með hvítasunnufólkinu) að þeir búi í samfélagi við einhverskonar myrkraöfl. Að heiminn skorti snertingu við „guðdóminn“. Feministar taka hnjóðsyrði heimskra manna til sín og ala sér við brjóst. Þeim þykir vænt um að eiga óvini, þurfa að berjast við sinn lúsífer. Það styrkir þá í eigin trú. Ofsóknir eru besta hvatning trúaðra.
Ofsamargir feministar hérlendis eru mjög langt leiddir í greiningu sinni á myrkum hliðum mannlífsins. Á nákvæmlega sama hátt, og til dæmis Krossarar, sniðganga þeir fyrirtæki og vissa afþreyingu og vísa til eigin reisnar og sáluhjálpar.
Ekkert ofangreint „dulmögnuð réttlæting hugsjónarinnar“, „óræð notkun hugtaka“, „barátta við óvin“ og „einangrun frá óverðum sviðum mannlífsins“ hefur nokkuð með feminisma að gera. Þetta er ofur venjuleg þörf fyrir að hoppa úr hugboði yfir í hugsjón, án þess að koma við í hugmyndafræðinni. Þetta er ofur venjuleg róttækni.
Feministar sem jafnaðarmenn
Stærstur hluti íslenskra feminista er jafnaðarmenn. Þeir trúa því að samfélagið batni eftir því sem mannamunur er ógreinilegri. Þeir halda að jafn réttur, merki að menn eigi að bera jafnmikið frá borði á öllum sviðum.
Rökleg þvæla. Óskynsamleg skoðun.
Jöfnuður er ofmetið og margþvælt hugtak. Feminískir jafnaðarmenn eru hvorttveggja, feministar og jafnaðarmenn. Hið síðara felst ekki í hinu fyrra.
- - -
Þegar ég, ung að aldri, graðgaði í mig lummurnar gerði ég engan greinarmun á einstaka innihaldsefnum þeirra, ekki frekar en amma. Þegar ég eltist sá ég að sumt af dótinu í lummunum, var ónýtt drasl - dulbúið með sykri og fitu, og umvafið ögn af hinum dásamlega grjónagraut.
Íslenskir feministar eru nákvæmlega svona lummur. Feminisminn er grauturinn góði. En hann er kaffærður í allskyns rusl og drasl, minnimáttarkennd, trúgirni, reiði, vanmátt, pólitísk hugboð, tortryggni, hræðslu og fordild. Öllu er hrært í eina ósjálega kássu. Brælt í feiti, sykri stráð yfir og borið á borð.
Þar sem Íslendingar hafa aldrei verið merkilegir matgæðingar kokgleypa margir blönduna án þess að leiða nokkurntímann hugann að því hvert innihaldið er. Sem væri svo sem allt í lagi, ef þeir væru ekki farnir að krefjast þess að klattarnir verði settir í manneldismarkmið og allir neyddir til að éta þá.
6 ummæli:
Nú dvaldi ég ekki reglulega hjá ömmu minni yfir sumartímann,en ég minnist þess þó að þegar ég var gestkomandi þar á mínum yngri árum þá var oft á tíðum borið fram brauð með áleggi í kaffi eða matartímum. Amma mín sá til þess að heimilisfólkið þyrfti ekki að standa í því að smyrja ofan í sig sjálft og því smurði hún brauðið og skellti á það áleggi. Mér er einkar minnistætt hversu mikið af smjöri var alltaf á brauðinu mínu þegar ég var í heimsókn. Að sjálfsögðu lét ég mig hafa það að borða þetta,og hefði kanski gert það með bestu lyst,ef hún hefði notað smjörva eða eitthvað álíka "venjulegt" smjör..en neii...Amma mín notaði eitthvað sólblómasull sem ég er alveg viss um að búið er að banna fyrir löngu síðan,bara af því að það var svo vont :) En amma mín var samt yndisleg og góð kona...og þegar ég hugsa út í það..þá er hún það enn:)
En Feministar á Íslandi fara í geðið á mér..svo mikið reyndar að ég treysti mér vart til að halda hér uppi umræðu um efnið..ætli það sé ekki best að ég fari og geri það sem ég geri venjulega þegar ég get ekki orða bundist yfir vitleysunni..fari og sjóði egg...
kv,Gústi Svangi..
Ég mæli með harðfisk, nafni.
Og Mengella, ég veit að þessi athugasemd er endurtekið efni en: Mikið vildi ég að þessi færsla hefði verið skrifuð af einhverjum með meiri trúverðugleika en þú, t.d. einhverjum sem skrifar undir nafni og einhverjum sem ekki hefur verið úthýst af Barnalandi (af öllum stöðum) fyrir að gera grín að veikum börnum (af öllum ástæðum). Því þessi grein verðskuldar svo miklu betri birtingu en hér um ræðir. En það er auðvelt fyrir þá sem eru á öndverðu meiði, umfram allt þá sem spjótunum er beint að afgreiða þetta sem hvert annað prump og skítkast, af augljósum ástæðum.
Ef þú hugsaðir þetta nú skrefinu lengra, Ágúst, sæirðu að ég er einmitt manneskjan sem rétt er að haldi svona löguðu fram.
Wúá hvað ég er sammála Mengellu
Þetta fannst mér skemmtileg og góð lesning. Hef ekki kvittað hér áður, en finnst einmitt að barnaland sé góður staður til að vera úthýst af.. miðað við "orðræðuna" (orðin svolítið þreytt á þessu orði) sem þar fer fram. Þá vona ég að nýlenduvöruverzlunin auki vöruframboð sitt.
Skrifa ummæli