Bloggið um veginn
Þetta blogg fæddist þann 17. janúar á þessu ári. Það er afmælisdagur Davíðs Oddssonar, Al Capone, Múhameðs Alí og Andy Kaufmans. Það er einnig dagur pereatsins. Í dag vantar nákvæmlega 100 daga í að síðan verði eins árs. Samkvæmt teljara hafa að meðaltali heimsótt mig 500 manneskjur á dag á líftíma síðunnar.
Og hvað hef ég uppgötvað á þessum 265 dögum sem ég ekki vissi áður?
#1 Blogglestur er ástríða en ekki dægradvöl.
Þeir sem á annað borð lesa blogg að jafnaði eru mjög líklegir til glíma við blogglestraáráttu. Þeir kíkja daglega og stundum oft á dag á þau blogg sem þeir lesa og lesa í hálfgerðum dróma það sem fyrir augu ber. Bloggneyslan er því gjarnan ofát af óhollustu gerð. Þeir sem nota RSS gera það yfirleitt vegna þess að annars ráða þeir ekki við neysluna.
Lærdómur: til að njóta blogga borgar sig ekki að lesa af ástríðufullri skyldurækni heldur á afslappaðan og óþvingaðan hátt. Ekki lesa blogg í vinnutímanum eða þegar þú átt að vera að sinna fjölskyldunni. Forðastu samviskubit yfir blogglestri. Örvaðu fleiri skilningarvit þegar þú lest blogg (tónlist, uppbyggilegt nasl). Lestu aldrei fleiri en 3 - 5 blogg í striklotu. Mundu að blogg er ómerkileg fjölmiðlun í kjarna sínum og í raun ekkert annað en sjónvarpsgláp fyrir nútímafólk.
#2 Fólki hættir til að halda að verið sé að blogga því til heiðurs.
Blogg býður upp á möguleikann á gagnvirkum tengslum lesanda og bloggara. Margir telja því að bloggarar séu sífellt að leggja fram mál til umræðu. Og stundum er það þannig. Slík blogg eru þó á misskilningi byggð ef þau eru opinber á annað borð. Ef rithöfundur skrifaði vinum sínum bréf í gegnum bækur sínar og vinirnir kæmu reglulega á bókasafnið, tækju bækurnar og skildu eftir lítil umslög með athugasemdum á milli blaðsíðna þá væri það vissulega sniðugur gjörningur en ógurlega sjálfhverfur.
Lærdómur: gerðu athugasemdir er þú hefur efnislega eitthvað að segja. Það sem þér finnst þú verða að segja eingöngu vegna sögu eða tengsla þinna við bloggarann skaltu segja í tölvupósti eða á MSN.
#3 Lesendur blogga eru hnýsnir og siðblindir
Flestir íslenskir netnotendur eiga í blóðskammarsambandi við einkatölvur sínar. Þeir skoða með þeim allskonar hluti sem enginn má vita um og gera ýmislegt fyrir framan tölvurnar sem seint yrði borið á borð (nema gegn greiðslu). Ein afleiðing þessa er sú að undirförli er eðlilegt sálarástand tölvunotandans. Blogglesendur eru gluggagægjar í stöðugri þjálfun. Stundum magnast lesendur upp í trylltri hnýsni og vippa sér á bak gúgulfáknum í eftirlitsgandreið.
Lærdómur: forvitni er eðlileg og sjálfsögð en þarf að eiga sér eðlileg mörk. Ef þig bráðvantar upplýsingar um hagi fólks sem bloggar og vilt ekki að fólkið viti af því út þá ertu á rangri braut. Gott gæti verið fyrir þig að hafa tvær tölvur eða a.m.k. tvo vafra og skoða blogg ekki í þeirri/þeim sem þú skoðar klámið í.
#4 Lesendur blogga eru hið nýja reykingavinnuafl.
Það hefur hingaðtil verið talið eðlilegt að hluti starfsmanna reyki í vinnutímanum. Forræðisfasistar hafa gjarnan talið þá tímasóun sem af því hlýst sem enn eitt sannindamerki þess hve reykingafólk er lélegur pappír. Tíma- og orkusóandi ómagar á framfæri okkar hinna. Reykingafólk hefur á móti reynt að benda á lýðheilsuáhrif þess að totta rettu reglulega í vinnunni. Mönnum færist kapp í kinn og hendurnar skjótast fram úr ermunum við það að fá nikótínskotið. Sem auðvitað er ekki nema hálfur sannleikurinn. Orkusprengjan er auðvitað aðallega tilkomin vegna þess að reykingamaðurinn er farinn að keyra á bensíngufunum örstuttu eftir að hann kemur inn úr reykpásu og þangað til hann fer aftur að reykja. Blogglesendur eru eins. Bloggið stelur af þeim ómældum tíma og einbeitingu.
Lærdómur: ef bloggin hafa ekki kveikt í þér vitsmunalega á fyrsta korterinu, snúðu þér þá að öðru þar til á morgun.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli