8. október 2007

Í dag varð ég bjalla

Ég fer skammarlega sjaldan í leikhús. Að hluta til vegna þess að ótalmargt við leikhúsin fer í taugarnar á mér. Uppskafningin veður þar uppi og gæðin á sýningum og áhorfendum eru vægast sagt takmörkuð.

En ég brá mér nýlega á Hamskiptin. Hafði heyrt misjafnlega af þeim látið en þóttist greina að þar væri a.m.k. verið að reyna að blása í glæður. Sýningin varð mér stórkostleg vonbrigði.

Það tók a.m.k. tíu mínútur að venjast lélegum ofleik leikaranna. En upp frá því tók maður minna eftir honum. Paddan sjálf var ágætlega leikin og jafnbest. Systirin sæmileg en foreldrarnir hittu aldrei í mark - voru fyrir það fyrsta alltof ung. Ólafur Egilsson hleypti óvæntu lífi í sýninguna með frábærum farsaleik - sem því miður var svo úr takti við allt annað í sýningunni að um var að ræða fullkomið stílbrot.

Aðalgalli sýningarinnar var listræna nálgunin. Hamskiptin eru í raun frekar ómerkileg saga, blómangandi útfærsla af píslarsögu krists, en þau eru meistaralega skrifuð. Fátt af þeirri snilli skein í gegn um leikgerðina. Til að byrja með voru það grundvallarmistök að gera ekki pödduna ógeðfelldari. Paddan var allan tímann mest aðlaðandi persónan á sviðinu. Áhorfandinn var því ekki í nokkrum tengslum við hugrenningar, hunsun og fordæmingar fjölskyldunnar. Þegar allt fer til fjandans og fjölskyldan óskar pöddunni dauða er það vegna þess að paddan sprengir farsaloftbóluna, sem búið var að þenja upp.

Hamskiptin eru um mannlega reisn sem lifir af ógnvekjandi og óvægna umbreytingu. Í raun sama þemað og í Frankenstein. Hið besta við manninn í verstu hugsanlegum umbúðum. En umbúðir Vesturports urðu aldrei nógu ógeðfelldar til að kalla fram jukk-faktorinn. Maður fékk aldrei samkennd með familíunni og fékk aldrei á tilfinninguna að möru yrði kastað af heimilislífinu með dauða pöddunnar. Maður fékk því ekkert að skammast sín vegna örlaga pöddunnar. Hið lamandi fangelsi hugrænna og efnislegra þátta sem paddan upplifir skein ekki í gegn nema að takmörkuð leyti. Miðað við þessa sýningu hefðu allir orðið glaðir ef pöddunni hefði bara verið hleypt út í garð að leika sér.

Falleinkunn, því miður.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Söguþráð smásögunnar Hamskiptin er hægt að rekja í einni setningu eða svo, ég er ekki alveg að sjá hvernig sé hægt að teygja þetta í heila leiksýningu..

Valtýr/Elvis2

Nafnlaus sagði...

ja, já, það gæti verið. Og þó, nei annars, þetta er líklega draslumfjöllun, ódýr og vitlaus, og svo þessi eilífi og fyrirsjáanlegi stílbelgingur sem er eitthvað svo glataður. Er einhver sérstök ástæða fyrir því að nenna að lesa þetta, Mengella?

Mengella sagði...

Líklega draslumfjöllun?

Þeir sem nota svona stór orð tattóveruð á varnagla ættu annað hvort að halda kjafti eða velja sér önnur stílbrögð.