Þú skalt ekki þræta, Gutti...
Guttesen sat ekki þegjandi undir ákúrum mínum og skrifaði alllangan pistil þar sem hann benti mér á að ég væri á réttri leið en ætti ýmislegt ólært. Hér er bréf hans í heild (fyrir óglögga þá er ég í karlkyni í bréfinu):
Blessaður. Takk fyrir þetta. Ég fæ nú ekki betur séð að þér líki ljóðin nokkuð ágætlega þótt að þú sjáir enga dýpri merkingu með þeim. Það er að segja, ef skilningur minn á þínu hrafnasparki er ámóta og skilningur þinn á ljóðum og / eða heimspeki hinna miklu spámanna sem þú vísar í og reynir að fanga með því að tileinka þér þeirra orðalag og hugsun jafnvel eða illa sem þér ferst það úr hendi.
Reyndar ættirðu nú ekkert að vera að leggjast eftir því að sjá hvaða skilning eða merking ljóðskáldið hefur haft í huga við smíðarnar. Lestu bara textann, og ef þú finnur enga merkingu sjálfur þá megum við ekki gleyma þeim möguleika að vandamálið liggi hjá þér, að það sé þitt eigið hugvit sem brestur. Lestu ljóðið, maður! Hvers vegna þarftu að vita hver skilningur skáldsins er á eigin texta? Og viltu kannski að ég svari því sem þú skrifar svo skemmtilega um mig? Heimasíðan þín er bara ekki málefnalegur vettvangur. Og sem hugsandi maður hlýtur þú að skilja að þú dæmist í og með af fremur mistækum skrifum.
„Öll dýr hafa eitt skyn, snertiskynið. Sá sem skynjun hefur, upplifir nautn og sársauka, hið þægilega og óþægilega. Og þeim, sem svo er farið, þeir búa einnig yfir löngun úr því að hún er hvöt til hins þægilega. Dýrin hafa skyn fyrir fæðu, því að snertiskynið er fæðuskyn. Öll dýr nærast raunar á því, sem er þurrt, rakt, heitt og kalt, og skyn þess er snertingin (vitneskja um önnur skynviðföng er einungis aukageta. Það gagnar ekkert fæðuöflun að vita um hljóð, lit eða lykt. En bragðið telst til snertiskyns).“
Svona kemst Aristóteles að orði um hæfileika sálarinnar [Um sálina, [414b], það er, hvernig dýrin skynja það sem fyrir augum ber. Mér finnst pínulítið fyndið að hugsa til þess að dýrið gæti verið þú; að reyna að skynja að því er virðist óskiljanlegt ljóð, en hvort sem þú vísar í hvöt til hins þægilega og óþægilega, hvort sem þér sé um megn að upplifa nautn og sársauka, þá færðu ekki botn í því sem skáldið skilur (eftir sig).
Mundu Pascal-rökvilluna. Það væri hægt að yfirfæra þetta vandamál á þig, með því að skipta trúarhugtakinu út fyrir ljóðið sjálft (hvorki meira né minna): „Setningin sem þú færð ekki botn í þýðir að ef þið fellduð allt ykkar líf í sömu skorður efahyggju og róttækrar skynsemishyggju og þið beitið í trúarefnum, þá færuð þið á mis við fjölmargt gott og skemmtilegt. Það var nú allt og sumt.“ (Skúli Sigurður Ólafsson, Vantrú - http://www.vantru.is/2004/01/07/16.25/, sótt 11. október 2007.)
Þú ert á réttri leið og þakka þér innilega fyrir að lesa bókina mína og auglýsa hana hér í leiðinni.
Sjáumst við ekki bara á krókódílaveiðum? Með net til að veiða vindinn og allt það …
- Með glæpsamlegri kveðju.
Nú gætu þeir, sem lásu fyrri pistil minn (og skildu hann), verið byrjaðir að rífa af sér hattana í lotningu fyrir eitursnjallri kímni Gutta þegar kemur að svari, því svar hans felur í raun allt í sér, sem ég var að skammast í ungskáldunum fyrir að beita ótæpilega. Þó grunar mig að Gutti hafi hreint ekkert verið að reyna að vera fyndinn með þessu svari, heldur hafi einmitt vaknað hjá honum eitthvað hugboð um það sem hann vildi segja en hann brostið getu eða nennu til að móta það sæmilega skýrt áður en hann lét það frá sér.
Gutti virðist ekki hafa meðtekið grundvallaratriðin í máli mínu. Hvergi sagði ég að öll ljóð ættu að vera djúp eða miðla miklum sannindum. Ekkert væri fjarri skoðunum mínum. Hvergi sagði ég að skáldið væri feilpústari ef erkilesandinn sæi ekki púntinn. Ég sakaði skáldin um eina, stóra og hvimleiða synd. - yfirdrepsskap.
Ég sagði að andleg leti íslenskra ungskálda væri óþolandi. Hún kristallast í því að skáld nenna ekki að hugsa hugsanir sínar til enda og leggja síðan fram boðlegar útgáfur þeirra eða kasta á glæ þeim sem reynast hjóm eitt. Þau festist í því hugarfari að gildi ljóðsins sé svo órætt eða hafið yfir vafa að það megi setja þau á flot með hvaða ballest sem hin innri rödd veitir samþykki sitt. Skáldin halda að þau standi í varðturnum á endimörkum hugarlendanna, þar sem hugsun og tungumál fjara út í móðu, og bendi á hluti í sortanum sem aðrir eru ekki að horfa á.
Það má líkja Gutta við innblásna matreiðslumeistarann. Hann rótar í skápum og skúffum og velur það sem honum líst best á. Blandar öllu saman eftir geðþótta; flamberar, gufusýður og djúpsteikir. Hrúgar, hleður og hendir saman réttunum á gullbryddaða postulínsdiska. Tekur svo ljósmynd af réttunum og birtir í bók. Biður svo kaupendur að dást að útliti réttanna og bendir á að þeir geti rétt ímyndað sér bragðið út frá hinum glæstu myndum.
Þetta er lýsing á ágætis myndlistarmanni en afleitum matreiðslumanni. Í tilviki ljóða er ekki um að ræða útlit og bragð, heldur útlit og hugsun. Ljóð er ekki ljóð fyrren hugsun kemur í spilið. Og um hugsun í ljóðum gildir nákvæmlega það sama og um hugsun almennt, hún getur verið vitræn og verðug eða ómerkileg og fánýt.
Gutti nennir ekki að leggja hugsanir sínar undir slíkt próf (enda kann hann það líklega ekki) og er því eins og tungulaus kokkur. En í stað þess að reyna að segja eitthvað af viti í ljóðum sínum, reynir hann að segja vitleysuna þannig að hún sé óræð. Og hann veit upp á sig skömmina.
Síðasta vígi slíkra manna er að glotta í kampinn og láta eins og ljóðin lifi sjálfstæðu lífi og það geti beinlínis neistað af þeim þegar þau fyrirhitti verðuga lesendur - allt óháð upprunalegri hugsun skáldsins. Sem, ef að er gáð, er nákvæmlega sama fíflaríið og svikamiðlar ástunda. Báðir hópar geta nefnilega verið óhuggulega einlægir í falsi sínu.
6 ummæli:
Að svara fíflum afhjúpar mann á vandræðalegan hátt. Hafðu það gott, minn kæri.
Það verður ekki annað afhjúpað en það sem er til staðar.
Þetta er alveg rétt hjá þér, skáldskapur í dag er ekki nógu rökréttur.
Hér er enginn að tala um rökkrétt, aðeins vandað.
...nema ef þú sért vúlkani eða Romulan, þá værum við að tala um rökrétt ljóð.
Mjög gaman að þessum pistli Mengella sem og hinum, vel krufið og útskýrt.
Skrifa ummæli