Kvein
Ég hef um alllang skeið haft snöggan blett á sálinni fyrir hljómsveitinni Queen og á stundum takmarkalítið dálæti á tónlist þeirra. Það var því með sólskin í hjarta að ég lagði leið mína á sportbúlluna Players í Kópavogi til að hlusta á Queen-ábreiður í flutningi hljómsveitar, sem kallar sig Smile – eftir þeirri hljómsveir, sem síðar varð Queen.
Ég mætti rétt um það bil sem hljómsveitin átti að stíga á stokk og leysa af hólmi tvo diskþeytandi uppvakninga úr ölgrænni forneskju íslenskrar lágmenningar. Á því varð þó nokkur bið. Sem var ekki alslæmt því færi gafst á að virða fyrir sér múginn, sem smám saman færðist í aukana. Tilfinningin var ekki ósvipuð því sem ég ímynda mér að fylgi því að sækja StarTrek ráðstefnu.
Nördalegt lið laumaðist inn í salinn angandi af mölkúlum enda búin að draga úr geymslum og handröðum dásamlega hallærislega hljómsveitarboli og allra handa tuskur til að auðkenna átrúnað sinn á bandinu með.
Og talandi um mölétnar tuskur. Eiríkur Hauksson var á svæðinu. Eiki var eins og pönkband í erfidrykkju. Hann átti alls ekki heima þarna. Í fyrsta lagi réð hann hreint ekki við að syngja öll lögin, sem hann kaus að reyna við, í öðru lagi var hann í sífellu jarmandi einhverjar rokkklisjur inn á milli erinda (helst á ensku) og í þriðja, og allraversta lagi, tókst honum ekki að koma frá sér einum einasta texta óbrengluðum. Hann kunni ekkert lag. Og afrek hans hljómuðu eins og hjá óhörðnuðum unglingi í SingStar með gott heimabíó en ekkert sjónvarp.
Magni söng líka og ef menn á annað borð fá ekki grænar bólur þegar hann skiptir úr söng yfir í raspjárnið þá gátu með alveg haft gaman af honum. Hann fór líka rétt með flesta textana. Gallinn við Magna kom ekki í ljós fyrr en hann hætti að syngja og byrjaði að tala. Í hvert einasta skipti opinberaði hann sitt pínulitla egó öllum viðstöddum. Sérstakt dálæti hafði hann á því að kalla viðstadda fífl og fávita og helvíti og samkynhneigða og þaðan af verra.
Langbestur var söngvari Smile sjálfur. Tónleikarnir hefðu verið miklum mun betri hefði hann látið nægja að syngja sjálfur í stað þess að hleypa soratúllanum og alzheimersroðamaurnum sífellt á svið. Hljómsveitin var og mjög góð.
Besta skemmtunin var þó fólkið í salnum. Tveggja metra há dragdrottning með bumbu og ryksugu gaf tóninn fyrir það sem koma skyldi. Hópur af sígaunum drakk sig út úr veröldinni á fyrstu mínútunum og þegar á leið skiptust meðlimir hópsins á að sjúga andlitið á hinum fjölmörgu og hrörlegu leðurglyðrum sem staðinn sóttu – allar í kjólum sem voru a.m.k. tveim númerum of litlir. Heilalamaður gleraugnaglámur í stórum rafmagnshjólastól pældi sér leið í gegnum síldartunnulegt dansgólfið og a.m.k. þriðji hver karl var í örvæntingarfullri leit að einhverju til að setja á broddinn.
Ég hef lengi haft þann grun að Queen-aðdáendur sé stórvarasamt fólk upp til hópa. Sá grunur hefur aðeins styrkst.
Helsti gallinn á gjöf njarðar var sá að lagalisti hljómsveitarinnar náði ekki nógu langt aftur í tímann og úrvalið kláraðist löngu áður en tónleikarnir voru runnir á enda þannig að sömu lögin voru farin að rúlla í annað og jafnvel þriðja sinn undir lokin.
En annars sæmilegasta skemmtun.
1 ummæli:
Missti af þessum tónleikum, veit ekki hvort ég hefði farið. Er annars mikill Queen-aðdáandi, ekki síst til og með A Day at the Races. Queen II þykir mér frábær plata og plötuumslagið er náttúrulega klassík.
Skrifa ummæli