3. október 2007

Eldhússdagur

Ég horfði af nokkurri athygli á eldhússdagsumræðurnar í imbanum. Fátt kom á óvart, fátt var bitastætt. Stjórnarþingmenn mættu miklu betur undirbúnir, voru með miklu meitlaðri ræður og fluttu þær töluvert betur, að undanskilinni Röggu Rikkadóttur, sem er vonlaus ræðumaður, dillar sér í pontunni og hefur tilgerðarlega, uppspennta hrynjandi.

Steingrímur Joð flutti sína ræðu af nokkrum krafti og af og til glitti í notalega ósvífni – en ekkert var nýtt og flest höggin voru máttlítil. Það borgar sig ekki að brýna raustina svona oft nema hafa eitthvað mergjað að segja. Þess er ekki langt að bíða að gerð verði hallarbylting gegn Steingrími innan VG. Hann hefur ekki aflað og hinum flokksforystuköllunum hefur tekist að láta oftsinnis líta svo út fyrir að hann hafi klúðrað öllu samstarfi með ótaktvísi á mikilvægum augnablikum. Þá er hann miðaldra karlpungur sem fer fyrir hópi róttækra feminista. Hann á ekki langt eftir.

Guðni Ágústson var með mislukkaða þorrablótsræðu – ræðu sem var jafn máttlaus og hann. Hann er ekki nútímalegur stjórnmálamaður, hann er arfur frá embættismannakenndu bitlingakerfi, þar sem skilyrðin til að komast í öndvegi voru lítil og smá og mestu skipti að vera góður gæi. Valgerður var ekki betri og lak af henni beiskjan. Reyndi að skapa þann andblæ að þeir sem tekið hefðu við af henni væru ekki starfinu vaxnir. Mistókst hrapalega.

Frjálslyndir voru að venju slappastir allra, enda ekki vel gefið fólk þar um borð. Sósíalísk smáfuglasamsuða vall úr þeim sem sannfærir engan nema aumingjana sem ekki kjósa hina flokkana af minnimáttarkennd. Þá er afar erfitt að taka formann flokksins alvarlega. Ekki aðeins vegna þess að hann hefur enga stjórn á flokknum sínum og veit ekkert hvað hann er að gera, heldur líka vegna þess að það virkar einhvernveginn fánýtt að kasta atkvæðum á mann sem ekkert bendir til að lifi út kjörtímabilið.

8 ummæli:

Oskar Petur sagði...

Ef það er eitthvað meira óþolandi en dagskrárrof af völdum fótbolta, þá er það dagskrárrof af innantómasta blaðri vetrarins á alþingi.

Tala nú ekki um ef Gilmore Girls falla niður!

Nafnlaus sagði...

Ekki eldhússdagur. Það er annað. Þetta voru umræður um stefnuræðu forsætisráðherra.

Mengella sagði...

Efnislega er enginn munur á hefðbundnum eldhússdagsumræðum og umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Hence...

Nafnlaus sagði...

Eldhúsdagur er einungis haldinn við þinglausnir.

Kveðja,
Helgi Bernódusson, skrifstofu Alþingis

Mengella sagði...

Kommon!

Dagurinn í gær var dæmigerður eldhússdagur í stjórnmálum. Slangur eins og þetta er einstaklega auðveldlega yfirfæranlegt á slíka daga. Og hvað er svo eldhússdagur? Jú, þá ávarpa valdir fulltrúar stjórnmálaflokkanna landsmenn og reyna að gera allt djöfullegt í fari annarra.

Ég nota orðið hér í útfærðri merkingu með vísan til innihaldsins, eins og ætti að vera sæmilega læsum og upplýstum ljóst.

Nafnlaus sagði...

Eldhúsdagur: Almennar umræður um stjórnmálin og þingstörfin almennt.
Umræður um stefnuræðu: Umræður um stefnuræðu. Hence...ekki eldhúsdagur í gær.

Ágúst Borgþór sagði...

Úff, þetta var vel skrifuð færsla. Og veit þó Mengella að ég smjaðra ekki fyrir henni, afsakið honum (þeim?).

Lýsingarnar á frammistöðunni voru auk þess hárréttar, það veit ég þó að ég hafi ekki horft á þessa dagskrá! - Skv. lýsingunni voru þetta afar kunnuglegir taktar á þessum stjórnmálamönnum sem eru nánast fullkomlega fyrirsjáanlegir.

Nafnlaus sagði...

Ég sá ekki umræðurnar og úttektin er léleg. Hver horfir af "nokkurri athygli" á eldhúsdagsumræður? Lýsingarnar hæfa best lýsandanum sjálfum og fela ekkert í sér nema eitthvert hofmóðugt þvaður sem enginn tekur alvarlega og hlýtur að vera enn verra en umræðurnar sjálfar og líkara þeim en nokkuð annað.