16. september 2008

Allir vilja Mein Kampf kveðið hafa

4. júlí 1924

Við þurfum styrka hönd í Þýskalandi. Hættum hálfkáki og orðagjálfri og byrjum að vinna. Rekum burt júðana, sem ekki vilja gerast venjulegir Þjóðverjar. Dönglum rækilega í þá í leiðinni. Þýskaland þarfnast einstaklings, manns - eins og jörðin þarfnast sumarregnsins.

-Úr dagbókum Jósefs Göbbels.

Það er einkennilegt til þess að hugsa að kreppan er ekki fyrr farin að sleikja fjörugrjótið í Faxaflóa en sú krafa fær rödd, og raunar raddir, að nú eigi forsætisráðherrann okkar að verða dálítið myndugur. Geir Haarde hefur, svo ótrúlega sem það hljómar, þurft að svara fyrir það í viðtali hvernig þjóðin eigi að geta treyst honum til að leiða hana út úr ógöngum.

Freud myndi segja að hér væru hinir veigaminnstu meðal þjóðarinnar að kalla á babba sinn. Myrkfælnin er mörgum blásin í brjóst.

Það er löngu orðin klisja að bera samfélagslega ágalla við Þriðja ríkið. Svo margþvæld klisja að hún hefur glatað öllum sínum lit. Við erum hætt að sjá líkindin. Við erum valblind.

Þjóðin hefur tekið ranga beygju þegar sú rödd fær að óma í fúlustu alvöru að ætlast sé til þess að Forsætisráðherra leiði þjóðina. Við komum okkur í þessa stöðu sjálf. Það er okkar að koma okkur út úr henni.

Það er engin töfralausn til. Okkur líður ekkert betur þótt við afsölum hluta af frelsi okkar til æðra valds. Áhyggjuframsal endar alltaf í nauðung. Það er frelsi fólgið í áhyggjunum. Áhyggjurnar krefja okkur um aðgerðir. Aðgerðalaus maður kann að vera áhyggjulaus, en hann er strámaður.

Það er ömurlegt til þess að hugsa að kreppan virðist ætla að kalla fram hjá heimsbyggðinni (og þjóðinni) klassísk, þrautreynd kreppuviðbrögð. Viðbrögð sem aldrei hafa skilað neinu nema sístækkandi harmi.

Er nokkuð fyrirsjáanlegra en að vilja smeygja sér í hálsakot Evrópu? Er nokkuð fyrirsjáanlegra en að byrja að amast í útlendingum, vilja reka þá úr landi og dangla aðeins í þá í leiðinni? Er nokkuð fyrirsjáanlegra en að gera kröfu um sterkan landsföður með leiðandi hönd?

Hugarvíl drepur niður frumlega hugsun. Það sem við þurfum núna er frumleiki. Það eru skrilljóin tækifæri.

Krónan er hrunin niður í kjallara. Það þýðir að útlendingar ættu að standa í röðum eftir að fá að eyða aurunum sínum hér. En enginn gerir út á þau mið. Það eru allir of uppteknir af því að væla.

Aular!

1 ummæli:

Unknown sagði...

Daginn, er svo sem líklega ekki einn þeirra sem væli mikið yfir þessu, en langaði engu að síður til þess í dag loksins að pota aðeins í hann Geir okkar.

Ég er hjartanlega sammála þér með það að "við" komum okkur í þetta. Persónulega reyndar dró ég nú mikið saman 2006 og 7 frekar en hitt, en það var líka vegna ofþenslu í heimilisrekstrinum þar á undan. Ég er hins vegar ekki sammála þér með það að Geira beri ekkert að gera.

Hann bauð sig fram í verkið þegar að hann bauð sig fram til að leiða þjóðina. Ég er ekki að kenna honum um, er persónulega aðeins að velta því fyrir mér hvort að hann ætli í alvöru bara að horfa á áfram.
http://baldvinj.blog.is