13. september 2008

Herr Magnússon

Það má meira en vel vera að hyski haldi til í Breiðunum í Njarðvík. En það hyski kemst ekki með tærnar þar sem Herr Magnússon hefur hælana. Það er eitthvað verulega mikið að manni sem sér ástæðu til að trana sér fram til þess að rægja „ólöglega“ innflytjendur áður en rykið sest eftir glórulausa aðför Geheime Stadtspolizei.

Maður eins og Herr Magnússon er að performera fyrir sérstaka gerð af áhorfendum. Ljóta lýðinn sem gleðst inn að hjartarótum við að heyra enduróm eigin skoðana. Haugfúla hyskið sem heldur að sannleikanum sé haldið á kafi af pólitískum skýjakóngum. Bitru bjánana sem halda að Herr Magnússon og slíkir kónar séu til marks um það að sannleikur þeirra sé eðlisléttari en vatn – og hann skjótist því alltaf upp á yfirborðið aftur.

Það segir sig sjálft að „ólöglegir“ innflytjendur á Íslandi geta ekki verið stórt vandamál þegar lögreglan annar því að gera rassíu hjá þeim öllum í einu. Ekki einu sinni þótt þeim takist með vafasömum (og jafnvel ólöglegum) aðgerðum að nurla saman andvirði smábíls.

Tjón samfélagsins vegna þessa fólks er snöggtum minna en tjónið af elliæra kvótagreifanum sem ákvað að hann langaði að halda áfram að éta fiskinn sem hann var búinn að selja öðrum. Aflinn sem hann stal frá þeim sem borguðu undir hann belti og bát var miklu meira virði en peningarnir sem svartstakkarnir tóku af óvelkomna lýðnum.

Herr Magnússon er hinsvegar hæstánægður með „ólöglega“ arðræningjann á Suðurnesjum. Snöggtum ánægðari með hann en „ólöglegu“ innflytjendurna.

Honum finnst nefnilega það vera mannréttindi að fá að vinna við það sem maður vill. Mannréttindi sem eru æðri rétti einstakra, fákunnandi þjóða. Mannréttindi sem helgast af sameiginlegri heimssýn mannkyns (eða þess hluta mannkyns sem hefur efni á því að hafa heimssýn).

Honum finnst hinsvegar jafn augljóst að það séu ekki mannréttindi að mega reyna að tryggja sér betra líf í öðrum heimshluta.

Það er frekja. Og enn meiri frekja er að heimta að fá að vinna við eitthvað í nýja heimshlutanum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gaman verður að sjá hvort þú þorir í snyrtilega manninn sem helst illa á skipafélögum og lét berja gamalt fólk í miðborginni sem ekki vildi selja honum íbúðir sínar.