Blautir draumar og gráar fjaðrir
Ég hef staðið í dálitlum samanburðarrannsóknum upp á síðkastið. Ég hef verið að lesa saman tvær glæpasögur. Valkyrjur eftir Þráin Bertelsson og Grafarþögn eftir Arnald Indriðason.
Almennt hef ég ímugust á glæpasögum. Þær spruttu fram á sjónarsviðinu í tylftum þegar grái fiðringurinn heltók '68 kynslóðina. Blautir draumar fólks sem á milli tektar og tvítugs steypti mót Agötu, Desmonds, Makklíns og kumpána þeirra í óharðnaða skel sálarlífs síns. Þessi mynd situr föst í innsta kjarna tilveru fólksins og nýtur þess að í skipulagi heilans er ekki nema órætt steinsnar á milli draghólfa þess sem er gamalt og hins, sem er sígilt.
En, ég braut sum sé odd af oflæti mínu, og pældi mig í gegnum Valkyrjurnar. Byrjaði svo strax á Grafarþögn. Það sem blasti strax við, skar sig úr eins og skuggalegur og sveittur bakpokapakistani í enskri neðanjarðarlest, var hve Þráinn er miklu, og ég meina miklu, betri penni en Arnaldur. Arnaldur er átakanlega lélegur stílisti. Þráinn skrifar afturámóti læsilegan og þægilegan stíl.
Persónur Þráins eru líka betri, þótt þær séu dálítið einsleitar.
Helsti gallinn við Valkyrjurnar er um leið einn stærsti kosturinn við bókina. Þráinn gengur svo langt í að spegla samfélagið sem við búum í, að það verður á stundum vandræðalega nákvæmt. En án þessarar speglunar er bókin ekki neitt. Ekkert nema nokkrar rakar lífsreynslunaríur hangandi á bláþræði þvert yfir sólbakað húsasund. Plottið er fyrirsjáanlegt, sagan lágreist, kynlífssenur og -tilvísandir heldur vandræðalegar, en allt heldur lipurlega skrifað.
Ég var ekki búin með margar síður af Grafarþögn þegar mér fór að líða mjög illa. Það var eitthvað andstyggilegt við stílbrögðin. Mér þóttu persónurnar flatar og leiðinlegar. Einhverfi stærðfræðisnillingurinn sagðist sjá liti í tölum. Ég fór að sjá rauðar yfirstrikanir þvers og kruss um blaðsíðurnar. Oftast var um að ræða klaufalega orðaða hluti. Veitið því athygli ef þið lesið Arnald, hve oft eitthvað á borð við: „Hann rétti henni töskuna með töngunum“ kemur fyrir. Vaðandi tvíræðni til lýtis út um allt. Setningarhlutar hangandi sem hortittir utan í málsgreinum sem eiga ekkert erindi við þá. Illa smíðaður og grófgerður texti - klæming, skrímsli Frankensteins.
Þá er Erlendur klisja, margþvæld meira að segja.
Ég játa að ég hef ekkert út á plottið hjá Arnaldi að setja. Ég nenni ekki að klára bókina. Hún er of léleg. Ég veit hreinlega ekki hvort ég muni lesa fleiri íslenskar glæpasögur.
Nú þarf ég að finna eitthvað til að brúa bilið þar til ég kemst í stóru bókina hans ÁBS. Ég hef á tilfinningunni að annað hvort verði hún snilld eða stórkostleg vonbrigði.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli