Klæðskerasaumað kynsvelti
Mannkynið væri líklega allt orðið að karlægum kretíndvergum ef ekki kæmi til sú nánast eðlislæga tilhneiging að gefa skít í forfeðurna, reglur þeirra og höft. Jónas Hallgrímsson réðst svo harkalega að Sigurði Breiðfjörð og Sunnanpóstinum á sínum tíma að aðeins má jafna við ofsóknir DV á hendur hinum einhenta, en þeim mun handóðari, kennara á Ísafirði. Sigurður dó í sárri eymd eins og alkunna er.
Eftir heimstyrjaldirnar tvær fékk unga fólkið á 20. öld nóg. Það fékk ógeð á sparnaðinum, kreppuhugsjónunum ráð- og siðvendninni. Stútfullt af hormónasafa liðaðist unga fólkið um jarðir, reykti og riðlaðist og var eins og blómi í eggi.
Þær þjóðir hverra íbúar eru ekki átakanlega ófríðir hófu líkamsdýrkun í nýjar hæðir. Nekt varð almenn og aðgengileg. Erótík og klám blómstraði. Þetta voru skemmtilegir tímar.
Þessi kynslóð eignaðist (eðlilega) ósköpin öll af börnum. Og með hverju barni sem skoppaði úr skauti skvettist slatti af safanum. Á nokkrum áratugum varð 68 kynslóðin að skorpnum holmennum, krumpuðum hylkjum utan um þurrausnar, andlausar sálir. Hún nennti ekki lengur að reykja og ríða.
Hún tók því upp siði forfeðranna. Ættleiddi dyggðir ráð- og siðvendninnar. Mátti hvurgi vamm sitt vita.
Gekk umbreytingin einkar vel meðan afkvæmin voru ung og safalaus. Skræpótt fór úr tísku og grátt og svart kom í staðinn. Vesturlönd fylltust af oföldum kreppulýð.
En þá hófst safaframleiðslan í börnunum. Ungar stúlkur fóru að líta vellagaðan mjóhrygg skólabróður girndarauga. Smásveinar fóru að fitla við sig undir sæng með rúnkminnið hlaðið myndum af stinnum tindum á peysum bekkjarsystranna.
Safinn leitar sér alltaf útrásar.
En nú var samfélagið ekki ætlað safaríkum. Á klínískan hátt var að vísu opinberlega fullyrt að allir stunduðu sjálfsfróun (en vei þeim sem bendlaði sjálfan sig berlega við slíka iðju, hvað þá aðra. Er eitthvað dónalegra en að fullyrða (sem þó er næstum örugglega rétt) að Geir Haarde hafi einhverntíma í síðustu viku gasprandi brundað á bumbuna á sér?), smám saman hættu ber hné að sjást á götum úti, kynlíf varð eins og vítamínát og meira að segja nekt barna var gerð torkennileg.
Afleiðingarnar voru fyrirsjáanlegar. Vorið hlaut að vakna. Þeir einu sem sváfu voru foreldrarnir.
Líf táninga hefur alltaf verið litað af kynferðislegri spennu. Við lásum Sjafnaryndi, Stelpnafræðarann og Sjáðu sæta naflann minn. Vel lagaðar axlir eða bunga á buxum gátu okkur lifandi ært. Við misstum meydóminn, aftur og aftur, miklu fyrr en við myndum óska börnunum okkar. Samt sjáum við ekkert eftir því.
Í grásvarthvíta heiminum sem við erum nú búin að skapa eru börnin áttavillt. Á þeim dynja látlaust skilaboð um afkáralegar og afbrigðilegar kynlanganir, þeirra eigin framkoma á að taka mið af þeim sjúkustu í samfélaginu, ekki því heilbrigðasta. Foreldrarnir ræða kynferðismál við börn sín á þann klíníska og andlausa hátt sem samfélagið nú krefst. Nýjar bækur sem kenna börnum hvaðan þau koma hylja aðalatriðið undir sæng.
Mín kynslóð finnur þetta best. Við finnum hvernig frjálsræðið sem við erum alin upp við (meðan einhver saft var eftir í foreldrum okkar) er að hverfa. Hvernig nekt, hvort sem er barna eða fullorðinna, er í dag undantekningalaust tengd við kynlíf. Hvernig við erum öll smám saman að sogast inn í heim holmennanna.
Á meðan eru það öfuguggarnir sem hafa sig í frammi. Og meðan allir aðrir þegja virðist rödd afstyrmanna í senn hljómmeiri og víðfemari en hún í raun er.
Ég vil sjá nýja frelsisbyltingu. Nú þegar konur þora ekki lengur að vera loðnar á sköflungunum nema í einrúmi er orðið tímabært að taka slaginn. Varpa okinu af okkur og afkomendum okkar. Hætta að halda brenglun og bilun að börnum.
Leyfum safanum að njóta sín.
2 ummæli:
Nú kemur einhver hrímþursinn neðan úr bæ og kallar þig níðing, fyrst þú hefur fest upp mynd af hvítvoðung á síðuna þína.
Ég bíð spenntur.
-Fantur
Níðingur!!
Skrifa ummæli