Kenny vs. Spenny (201)
Ég hef nú um nokkra hríð pælt mig í gegnum þrjár þáttaraðir af Kenny vs. Spenny. Þegar mér var í fyrsta skipti sagt frá þáttunum, lauslegum söguþræði þeirra og uppbyggingu, lét ég þess getið að frekar myndi ég naga glóandi heitt napalm en að leggja slíka lágkúru fyrir sjónir mínar. Ég verð þó að játa, svona eftirá að hyggja, að forvitnin var vakin.
Hér er dómur minn um 1. þátt 2. seríu, Kenny vs. Spenny: Who Can Drink More Beer.
Eins og allir þættir í þáttaröðinni fjallar hann um keppni á milli bestu vinanna Kenny Hotz og Spencer Rice. Sá sem sigrar má láta taparann undirgangast hverja þá niðurlægingu sem honum þóknast. Í þessum þætti er sum sé keppt í bjórdrykkju.
Spenny er taugaveiklaður og bókhneigður einfeldningur með sterka siðferðiskennd. Hann er einn af þessum fágætu einstaklingum sem eru samviska alls heimsins.
Ef Spenny er samviska heimsins, er Kenny samviskubit þess sama heims. Hann er greindari en Spenny og algerlega siðblindur. Sé þess nokkur kostur að hafa rangt við nýtir hann sér það, gangi það ekki leitar hann leiða til að misnota aldraða, börn, dýr eða fatlaða til að hafa sigur.
Smám saman hefur hin rangláta keppni tekið sinn toll af Spenny, hann er í lok fyrstu seríu orðinn alvarlega vænissjúkur. Kenny reynir á sama hátt að toppa sjálfan sig í viðurstyggð með hverjum nýjum þætti.
Í bjórdrykkjuþættinum byrjar Kenny á því að skipta á keppnisbjórnum og óáfengum bjór (aðeins fyrir sig auðvitað). Til að minnka grunsemdir Spennys japlar hann á kínversu heilsudufti inn á milli bjóra. Með því útskýrir hann skyndilegt og áður óþekkt úthald sitt í drykkju.
Reglur keppninnar eru einfaldar. Sá vinnur sem drekkur fleiri bjóra en hinn á 3 sólarhringum. Þó tapar sá sjálfkrafa sem ælir.
Kenny fer umsvifalaust í það að virka fullur, óþolandi og leiðinlegur. Hann tvístígur tímunum saman og spilar á rauðan plastskemmtara og syngur í lítinn plasthljóðnema. Það er því ekki nema von að Spenny herði drykkjuna til að umbera ólætin. Þá stingur Kenny upp á drykkjuleik með fölskun teningum. Kenny hefur ekki drukkið nema nokkrar flöskur af bjórlíkinu þegar hann ákveður að stefna á sigur með því að framkalla uppsölur hjá Spenny. Gengur þannig fyrsta daginn, að Spenny heldur út í gegndarlausri drykkju.
8:05 næsta morgun vaknar Spenny við það að við rúm hans sitja tveir fulltrúar frá AA og eru að framkvæma inngrip. Spenny neitar því að eiga við áfengisvandamál að stríða en AA fulltrúarnir eru mátulega trúaðir á útskýringar hans.
Að lokum tekst Spenny að fæla AA fólkið í burtu og hefst þá drykkjan fyrir alvöru. Gengur hún á með slíkum ósköpum að Spenny verður einkar ofbeldishneigður, sérstaklega þegar hann rumskar við það að Kenny er að byrla honum andstyggilegt uppsölulyf. Má Kenny hlaupa í felur meðan mestu lætin ganga yfir.
En allt kemur fyrir ekki. Spenny neitað að æla og drekkur sem aldrei fyrr.
Nú er farið að líta illa út fyrir Kenny. Þriðja daginn vekur hann Spenny með lúðrasveit og trommum og hellir ótæpilega í hann bjór en snertir varla pilsnerinn sinn. Spenny verður ómennskari með hverri stundinni sem líður og hefði örugglega unnið keppnina hefði meðvitund hans ekki gefið sig rétt fyrir lokafrestinn. Tæknilega séð ætti hann samt að vinna keppnina þótt hann hafi liðið útaf. En þar sem hann liggur rænulaus sér Kenny sér leik á borði.
Hann bregður sér í eldhúsið, japlar á einkamúslíinu hans Spenny góða stund og svolgrar því niður með bjór. Er glaðhlakkalegur allan tímann, raulandi göngustef Péturs eftir Prokofiev. Gengur hann síðan að staðnum þar sem Spenny liggur lamaður á gólfinu og...
Þegar Spenny vaknar og sér einkamúslíæluna við hlið sér áttar hann sig strax á því að hann hefur tapað. Eftir að hafa leitað ráða hjá viðeigandi heilbrigðisstéttum gengur hann eins og karlmenni til niðurlægingarinnar. Niðurlægingin felst í því að éta kekk úr eigin ælu.
Ómissandi þættir fyrir aðdáendur grískra harmleikja.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli