24. febrúar 2007

Ef guð er kona...

...er þá konan guð?

Það bendir ýmislegt til þess að sumir haldi það. Eitt af boðorðum biflíunnar, sem raunar liggur í þagnargildi (líklega vegna þrýstings frá samtökum endurreisnarlistmálara), er að af guði skuli engar myndir gjöra. Reyndar er bíflíuhöfundi meinilla við myndir af nokkru tæi:

Þriðja bók Móse 5:8

Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér, engar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eða því, sem er á jörðu niðri, eða því, sem er í vötnunum undir jörðinni.

Hinir skapheitu og hræsnislausu frændur vorir arabar hafa hingað til tekið þetta boðorð mun hátíðlegar en við og bregðast ókvæða við ef menn rissa myndir af guðdóminum. En það er önnur saga.

Hin sagan er nærtækari um þessar mundir að margar konur hafa gert bragð úr þessu ellefta boðorði og segja sem svo, að fyrst guð hefur ekkert við það að gera, þá er best að klína því á það sem stendur guði næst, nefnilega konur.

Í meðförum þeirra hljómar ellefta boðorðið svona: „Þú skalt ekki hlutgera konu með einum eða öðrum hætti.“ Rökin eru óljós en vísa til hinnar æðri náttúru kvenna framyfir dauða hluti almennt (og flesta lifandi) og að það séu drottinsvik að fjalla um eða varpa fram mynd af konu sem ekki lofsamar þessa dýrð. Konan sem dauður hlutur, eins og hver önnur stytta eða ljósmynd, er fölsun - hana á að banna.

Vandinn verður ljós þegar kona nýtir sér yfirburðaskynsemi sína og gáfur til að kjósa að varpa fram mynd af sér sem þvísemnæst dauðum hlut. Naktar konur í sellófani og frauðplastbakka að mótmæla holdáti eru dæmi um þetta. Þar er konan hlutgerð. Sex ára stúlka sem leikur Betlehemstjörnuna í helgileik í skólanum sínum er hlutgerð með sama hætti. Listakona sem tekur gifsmót af brjóstum sínum og hengir upp á vegg undir titlinum „móðir“ er að hlutgera sig með sama hætti. Allt er þetta samt í góðu lagi og í raun eðlilegur og æskilegur fylgifiskur þess að hafa abstrakt hugsun hins æðsta spendýrs. Engin önnur dýr hafa hæfileika til að líta á sig sem dauða hluti.

Guðspjall kvennakirkjunnar, sem tignar konuna sem guð, er afar hugmyndafræðilega veikburða. Ég leyfi mér að segja vanhugsað. Röklega gisið og götótt. En það er allt í lagi því að mati margra presta kirkjunnar eru rökræður karllægur eiginleiki. Konur hefja sig yfir rök með tilfinningum. Konur finna á sér hvað er rétt og hvað er rangt og þurfa því ekki á rökum að halda.

Kynlíf má til dæmis ekki tengja ofbeldi, misþyrmingum eða niðurlægingu. Allt slíkt samhengi er tabú.

En í raun er það ekki þessi tenging sem er bönnuð, aðeins það horf við þessari tengingu að hún sé æsandi eða eftirsótt. Enginn kvenkirkjuprestur er á móti því að nauðgun sé skrifuð í bækur eða kvikmyndahandrit í listrænum tilgangi. Enginn er á móti því að fréttaskýrendur segi frá slíkum tengingum. Það er bara bannað að njóta þess. Það er bannað að fá kikk út úr því þegar Brandó talar um að láta svín nauðga rekkjunaut sínum í Síðasta tangó í París. Það er bannað að eiga sér leyndar fantasíur um ofbeldisfullt kynlíf.

Samt er heimurinn fullur af fólki sem fær kikk út úr klámi, bæði körlum og konum. Heimurinn er fullur af listamönnum sem njóta þess að varpa öllu því ljótasta upp á svið mannlífsins. Leikkonum sem eiga sér þann draum að leika erfið hlutverk kvenna sem eru niðurlægðar, barðar og kúgaðar. Lesendum sem vilja lesa sem nákvæmastar lýsingar á kúgun og ofbeldi. Kvikmyndahúsagestum sem vilja sjá það sama.

Hver er munurinn á leikkonunni sem leikur átakanlega erfitt hlutverk og leikkonunni í klámmyndum?

Báðar leggja á sig niðurlægingu - önnur fyrir listina, hin fyrir peninga. Báðar kannski fyrir einhverja blöndu hvorstveggja.

Ef við notum skilgreiningu hörðustu feminista á klámi þá var endurminningarbók systranna í Hafnarfirði klám. Kynlífi var blandað við ofbeldi. Nautn tugþúsunda karla og kvenna við að lesa bókina var að sama skapi klámnautn. Fólk laðast að klámi. Fólk laðast að hinum myrku hliðum mannlífsins. Það nýtur þess að lesa um morð, limlestingar, nauðganir og niðurlægingu. Yfirleitt er um að ræða hrollsælu, en hún er siðferðilega ekki hætishót merkilegri en lostasæla. Fjöldi kvenna sér ekkert athugavert við að hlutgera karlmenn með því að gamna sér með rafhlöðuknúnum limafsteypum. Fjöldi kvenna sér ekkert athugavert við að fantasera um ofbeldisfullt eða niðurlægjandi kynlíf.

Fæst fólk trúir í raun á ellefta boðorðið. Það trúir því ekki að það sé í raun rangt að hlutgera fólk. Það trúir ekki á dogmað. Að leikin niðurlæging sé alltaf siðferðilega röng. Það nýtur hennar úr öruggri fjarlægð. Það finnur til hluttekningar með raunverulegum harmi og óskar í raun engum þess að lenda í slíku en nýtur þess samt að lesa um eða horfa á harm annara. Þetta er hluti af kveneðlinu. Allar tilraunir til að móta samfélag sem neitar fólki um að vera það sjálft eru dæmdar til þess að valda skaða.

Konur eru ekki hafnar yfir rök. Konur hafa ekki hæfileika til að finna hvað er rétt. Konur, eins og karlar, eru haugar af misvísandi skilaboðum. Hættan skapast þegar þær hætta að hlusta á sum skilaboðanna.

9 ummæli:

Ágúst Borgþór sagði...

Afbragð.

Nafnlaus sagði...

Djöfulsins sleikjuskapur. Ég drep ykkur í minni næstu bók.

Mengella sagði...

Ég panta eitrað epli.

Nafnlaus sagði...

Gátan: Hún er meinhæðin. Hefur verið sökuð um að skrifa Stellu Blómkvist. Allt kemur þetta heima og saman. Mengella er Gerður. Og merkilegt nokk, eigum við okkar sögu…

Mengella sagði...

Segðu.

Nafnlaus sagði...

jæja Hildur ertu nú alveg að missa þig, þetta er eiginlega að verða full mikið rugl fyrir mig, viljiði bara ekki ræsa út Matlock í málið eða hvað hann heitir???

Ágúst Borgþór sagði...

Djöfull getur fólk verið vitlaust. Heldurðu virkilega að Gerður Kristý myndi nokkurn tíma skrifa svona konur og feminista?

Nafnlaus sagði...

Ég tók því þannig að glæpaskáldið væri afleggjari af Mengellu, sérhannaður til afvegaleiðinga og almennrar tilbeiðslu.

Nafnlaus sagði...

Hinsvegar er merkilegt að það er ekki hægt að skrifa undir dulnefni, allt sem maður segir hefur að innstu merkingu spurninguna um hver maður sé, eins og sést á viðbrögðunum. Þetta er t.d. góður pistill hér að ofan, sama hver reit.