Dýpt í ljóðum
Mig minnir að það hafi verið Nietzsche sem sagði eitthvað á borð við:
Sá sem er viss um dýpt hugsana sinna leitast við að vera skýr í framsetningu, sá sem vill virðast djúpur í augum annarra leitast við að vera óskýr, því almúginn álítur allt djúpt sem hann sér ekki til botns í...
Sem er fyndið, ef rétt er, því Nietzsche var margt, en sérstaklega skýrmæltur var hann ekki, a.m.k. ekki alltaf.
Þessari hugleiðingu skaut upp í kollinn á mér þegar ég tók mig til í síðustu viku og las ljóð nokkurra íslenskra ungskálda af kappi. Ég fór að hugsa um það hvers vegna fólk yrkir. Og því meira sem ég las af ljóðum, því sannfærðari varð ég um að allnokkrir gerast ljóðskáld af þeirri ástæðu einni að talandi þeirra er ofvaxinn eyrunum.
Ég skal skýra hvað ég á við.
Eitt ungu skáldanna heitir Kristján Guttesen. Hann hefur komið sér á framfæri með því að selja bækur sínar með mikilli ýtni dauðadrukknu fólki í miðbænum um helgar. Hann er því nokkurskonar Krókódílamaður í íslenskri ljóðlist. Krókódílamaðurinn Guttesen hefur t.d. ort:
Það er alveg sama hve maður rýnir í þetta ljóð. Grunnhugmyndin er aldrei djúp. Vafalaust á þetta að vera voða sniðug pæling um sakramenti kristinna manna eða manneðlið jafnvel en hér er Krókódílamaðurinn augljóslega að svamla í mjög grunnri tjörn. Hann rótar því upp leðjunni í kringum sig svo ekki sjáist til botns og kallar það ljóð.
Hér er það sama á ferðinni. Svona ljóð eru til þúsundum saman hjá íslenskum ungskáldum. Og hvað tákna þau. Yfirleitt eitthvað hugboð. Broca-svæði skáldanna er í fossham allar stundir allra daga og eitthvað hugboð dettur í kollinn á þeim um sniðuga orðaröð eða hugmynd – og hvað gerist? Jú, í stað þess að hlusta á hugmyndirnar og greina hugmyndina er henni slett hálfkaraðri fram í tilraun til að varðveita fyrsta lúkkið. Þetta er það sem ég á við þegar ég segi að talandinn sé ofvaxin eyrunum. Skáldin skilja oft ekki það sem þau yrkja. Og festa sig gjarnan í rembihnút því þegar þau skilja eitthvað til fulls er yfirleitt um að ræða eitthvað nauðaómerkilegt hjal.
Hér þarf auðvitað, til að gæta sanngirni, að benda á þá augljósu staðreynd að ljóð þurfa hreint ekkert alltaf að vera djúp. Og raunar er afar hættulegt að reyna að þvinga ljóð til að vera nokkur skapaður hlutur strangttiltekið. Enda er ég ekki að segja það. Ég er aðeins að segja að eftir ljóðalestrarlotu áttaði ég mig á því að margt í ljóðagerð ungskáldanna er gruggugt vegna þess að þau eru að reyna að virðast djúp. Innámilli eru gullmolar og það eru til góð íslensk ungskáld en þau eru fá og það er langt á milli þeirra. Sviðið er undirlagt af fólki sem situr á hækjum sér og veltir um í lófa sér eigin saur í takmarkalítilli aðdáun.
Þetta á ekki bara við um ljóðskáld. Þetta á við um listamenn yfirhöfuð. Listamenn halda stundum að þeir séu frelsaðir til andlegs lífs sem opinberar sig ekki öllum. Lítil rödd í hausnum á þeim dettur niður um nokkrar áttundir og verður að rödd guðs. Þegar þessi rödd hvíslar að þeim hvatningarorði upptendrast þeir í óumdeilanlegum tilgangi. Sá sem hlustar á guð heyrir ekkert annað. Og þess vegna er svo mikið af listamönnum drasl.
Mig minnir að ég hafi lesið hjá Rafauganu ákúru á hugmyndaheim minn. Nokkuð sem hann hafði til sannindamerkis um að ég gæti ekki verið hann. Það var sú hugmynd sem hann eignaði mér að til væri frummynd þess fagra, góða og sanna og þar héngi ég og sendi eiturpílur í átt til þeirra sem ráfuðu fjær dýrðarljóma frummyndanna en ég teldi boðlegt (mig minnir að þetta hafi verið efni athugasemdarinnar).
Þetta er alröng túlkun á því sem ég er að segja. Allir þeir, sem ég hef veist að með einum eða öðrum hætti, eiga aðeins eitt sammerkt. Það er yfirdrepsskapur. Dauðasyndin í mínum huga er að róta upp eðjunni í grunnri tjörn og láta sem hún sé djúp. Það er það eina sem ég hef ráðist á. Ég get borið takmarkalitla virðingu fyrir heimskasta fólki og álitið fólk stórgáfað sem er fyllilega ósammála mér um grundvallaratriði.
Það sem kveikir í mér andófið (og á vissan hátt lætur rödd guðdómsins hljóma í mínum kolli) er þegar fólk verður uppvíst að hræsni eða falsi. Ég met Eyvind Karlsson t.a.m. mikils fyrir einlægni, ágætar gáfur og hæfileika – en hann var að hræsna þegar hann reyndi að taka prinsippafstöðu gegn illu umtali þegar það beindist að honum sjálfum. Ágúst Borgþór er annað eins dæmi. Gáfaður maður og einlægur alla jafna en átti til (sérstaklega hér áðurfyrr) að detta í hroka.
Íslensk ljóðskáld og samtök þeirra þurfa að gæta þess að svamla ekki öll í sömu tjörn og gera ríkari kröfur hvert til annars. Takast á um málin. Ekki breytast í samfélög eins og skítugu hippasamtökin Saving Iceland þar sem manngildi ræðst af einni óljósri hugsjón og þar fyrir utan eru allir í gúddí. Menn eiga að vera vandir að virðingu sinni. Alvöru skáld taka skáldskap sinn alvarlega og syngja ekki í laglausum kór.
Ádrepa Lesbókarpáfans á ungskáldin þarf að vera þeim vakning. Því þótt sú gusa hafi a.m.k. í aðra röndina verið hreinn hroki og jafnvel öfund, þá var sannleikskorn í henni. Það er of mikið rusl á sveimi. Skáldin eru of upptekin af því að vera í stað þess að gera.
5 ummæli:
vá hvað ég er sammála þér. íslensk ''skáld'' eru svo sannarlega á villigötum. ég mæli með því að þú kynnir þér saul williams þó hann sé ekki íslenskur
Nietzsche var einstaklega skýr í framsetningu, stilfræðilega og setningarfræðilega séð og á þann hátt sem er næstum óþekktur meðal annarra þýskra höfunda. Hvort hin heimspekilega merking orða hans hafi verið skýr er allt annað mál.
Ljóð eru fyrir homma og gelgjur.
Blessaður. Takk fyrir þetta. Ég fæ nú ekki betur séð að þér líki ljóðin nokkuð ágætlega þótt að þú sjáir enga dýpri merkingu með þeim. Það er að segja, ef skilningur minn á þínu hrafnasparki er ámóta og skilningur þinn á ljóðum og / eða heimspeki hinna miklu spámanna sem þú vísar í og reynir að fanga með því að tileinka þér þeirra orðalag og hugsun jafnvel eða illa sem þér ferst það úr hendi.
Reyndar ættirðu nú ekkert að vera að leggjast eftir því að sjá hvaða skilning eða merking ljóðskáldið hefur haft í huga við smíðarnar. Lestu bara textann, og ef þú finnur enga merkingu sjálfur þá megum við ekki gleyma þeim möguleika að vandamálið liggi hjá þér, að það sé þitt eigið hugvit sem brestur. Lestu ljóðið, maður! Hvers vegna þarftu að vita hver skilningur skáldsins er á eigin texta? Og viltu kannski að ég svari því sem þú skrifar svo skemmtilega um mig? Heimasíðan þín er bara ekki málefnalegur vettvangur. Og sem hugsandi maður hlýtur þú að skilja að þú dæmist í og með af fremur mistækum skrifum.
„Öll dýr hafa eitt skyn, snertiskynið. Sá sem skynjun hefur, upplifir nautn og sársauka, hið þægilega og óþægilega. Og þeim, sem svo er farið, þeir búa einnig yfir löngun úr því að hún er hvöt til hins þægilega. Dýrin hafa skyn fyrir fæðu, því að snertiskynið er fæðuskyn. Öll dýr nærast raunar á því, sem er þurrt, rakt, heitt og kalt, og skyn þess er snertingin (vitneskja um önnur skynviðföng er einungis aukageta. Það gagnar ekkert fæðuöflun að vita um hljóð, lit eða lykt. En bragðið telst til snertiskyns).“
Svona kemst Aristóteles að orði um hæfileika sálarinnar [Um sálina, [414b], það er, hvernig dýrin skynja það sem fyrir augum ber. Mér finnst pínulítið fyndið að hugsa til þess að dýrið gæti verið þú; að reyna að skynja að því er virðist óskiljanlegt ljóð, en hvort sem þú vísar í hvöt til hins þægilega og óþægilega, hvort sem þér sé um megn að upplifa nautn og sársauka, þá færðu ekki botn í því sem skáldið skilur (eftir sig).
Mundu Pascal-rökvilluna. Það væri hægt að yfirfæra þetta vandamál á þig, með því að skipta trúarhugtakinu út fyrir ljóðið sjálft (hvorki meira né minna): „Setningin sem þú færð ekki botn í þýðir að ef þið fellduð allt ykkar líf í sömu skorður efahyggju og róttækrar skynsemishyggju og þið beitið í trúarefnum, þá færuð þið á mis við fjölmargt gott og skemmtilegt. Það var nú allt og sumt.“ (Skúli Sigurður Ólafsson, Vantrú - http://www.vantru.is/2004/01/07/16.25/, sótt 11. október 2007.)
Þú ert á réttri leið og þakka þér innilega fyrir að lesa bókina mína og auglýsa hana hér í leiðinni.
Sjáumst við ekki bara á krókódílaveiðum? Með net til að veiða vindinn og allt það …
- Með glæpsamlegri kveðju.
Mér finnst Nietzsche einmitt skrifa frekar skýrann texta, ég dáist að hæfni hans til að segja mikið í fáum orðum, finnst það sem ég hef lesið eftir hann vera svona upplýsingasprengjur.
Ég er ekki alltaf sammála því sem hann skrifaði en mér finnst framsetningin á jafnvel mesta bullinu hjá honum yfirleitt til eftirbreytni.
Valtýr/Elvis2
Skrifa ummæli