30. október 2007

Litli Gunni, litli Gunni, litli afar heimski Gunni...

Mér hefur um langa hríð þótt Vantrú dálítið merkilegur félagsskapur. Eins og ég hef afar oft haldið fram er ég sammála svotil allri þeirra starfsemi. Ég hef hinsvegar fyrir löngu orðið vör við ógeðfelldan þráð í þeim pælingum sem liggja til grundvallar ástríðunni hjá mörgum félögum þeirra.

Alltof margir Vantrúarmenn eru heiftúðugir hávaðaseggir sem hossa sér hrokafullir á hanapriki og telja að heimurinn sé hreinlega yfirfullur af fólki sem sanni greindarskort sinn með því að sjá ekki þau sannindi sem þeir hafi séð.

Oft eru þetta unglingsstrákar, og í þeim tilfellum er það eðlilegt því það er eðli unglingsstráka að vera yfirgengilega leiðinleg týpa, en stundum eru þetta fullorðnir menn fastir í fasa hins heimska unglings.

Það má þekkja þessa ræfla á fyrirsjáanlegum og aumum gagnabanka þess sem þeir telja rothögg á trú, sérstaklega kristna trú. Hvaðan fengu synir Adams og Evu kærustur? Á ekki að höggva krumluna af konum sem hreðjamerja gaura á djamminu? Eiga konur á túr ekki að ganga út fyrir bæina og koma aftur þegar þær eru búnar? Og svo mætti lengi telja.

Trúleysi er afstaða sem er fyllilega réttlætanleg. Og líklega rétt. En hún er ekki a priori sannindi sem blasa við hverjum skynsömum manni. Þvert á móti er afar erfitt að útiloka andstæðuna ef andstæðan er skilgreind af einhverju viti. Og sumar af ástæðum þess að dómur af eða á veldur vandræðum spretta beinlínis innan úr ranni trúleysisins sjálfs ef hann er skoðaður af nógu gagnrýnum og greindum hug.

Vantrúarmenn eru upp til hópa ekki nógu greindir eða heiðarlegir í viðleitni sinni til að bora undir yfirborðið og takast á við grundvöllinn. Þeirra opinberaða lífsýn er grunn. Þar með er ekki sagt að hún sé röng enda er allur munur á gildri og sannri niðurstöðu.

Það er þeim um megn að taka þátt í umræðu um málið og þeirra aðferð er því sú einstaklega ómálefnalega rökvilla að ráðast á sendiboðann. Ég nenni ekki að strá latínu um mig hér en Vantrúarmenn hafa svosem gert það oft og iðulega í svipaðri stöðu og að mér skilst Matti mest af öllum. Matti rökvillubani sem kaus að ljúka rökræðu okkar svona:

Mengella: Ég hef ekki heyrt svör Vantrúar við síðasta deiluefni.
Matti: Það er vegna þess að þú ert eins og hinir trúarnötterarnir.
Mengella: Menn hafa hugboð um óefnisleikann, t.a.m. í vitundinni.
Matti: Hugmynd þín um vitundina er barnaleg.
Mengella: Sýndu mér andmæli við hana sem unglingar gætu uppgötvað sjálfir og ég skal samþykkja að hún sé barnaleg.
Matti: Eyvindur Karlsson er ánægður með þig!


Ber þessi maður minnstu virðingu fyrir þeirri dýrmætu þrætubókarlist sem átti að heita aðalsmerki Vantrúar? Þekkir þessi maður ekki rökvillurnar sem hann hrasar um á hverju horni í þessum vaðli?

Og þá er það Gunnar.

Gunnar ræðst að Óla Sindra í gegnum mig og sakar hann um að vera nafnlaus heigull. Talar um tilfinnanlegan skort á andstæðu minnimáttarkenndar og amast eitthvað við bóklestri.

Gunnar, sem er greinilega unglingur, birtist sem illa uppalinn kjölturakki og gjammar hér innihaldslausan vaðal. Einhverjar óljósar hótanir um að ég ætti að vera skelkuð þar sem ég hafi stigið á skottið á svo mörgum að dagar mínir gætu verið taldir með litlum fyrirvara. Og svo framvegis og framvegis.

Ég ætla ekki að erfa frammistöðu Gunnars við Vantrú, þótt hann spretti vafalaust úr þeirri átt. Það er ekki þeim að kenna að þeir laða að sér þessa lélegu sort af fólki. Gunnar er graftarbóla á skininni skán þess grautar sem Vantrú er. Þeir velja sér ekki meðlimi, meðlimirnir velja þá. Og Vantrú, líkt og ég t.a.m., hefur aðdráttarafl á aula.

Það er hinsvegar verra þegar aularnir sjá um að tala.

Ég reikna auðvitað ekki með neinum frekari viðbrögðum frá Vantrú enda hefur mér borist til eyrna að þeir hafi í sameiningu metið stöðuna þannig að best væri að þegja. Þeir færu sér ekki að voða þannig og gætu sjálfir sannfært sig um að það væri vegna þess að ég væri ekki svarsins virði, þögnin væri til marks um reisn þeirra.

Það skiptir mig ekki nokkru máli hvort þeir taka slaginn til eða frá. Mér þykir ekki gaman að berja á þeim sem kunna ekki að verja sig. Þegar minnsti samnefnari andstæðingsins er orðin rökvillufangarinn Matti og erkiflónið Gunnar þá dettur jafnvel mér í hug að það sé ósæmilegt virðingar minnar vegna að halda áfram. En ég er bara svona vel upp alin að snara þessum skrifuðu línum til þeirra í þakkarskyni fyrir viðleitnina.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

http://www.fallacyfiles.org/guiltbya.html

Nafnlaus sagði...

Hver er þessi Gunnar? Ég veit ekki til þess að nokkur Gunnar sé í Vantrú - sem er reyndar með ólíkindum þegar ég spái í því.

Lykilatriði síðustu athugasemdar minnar var ekki vísun í Eyvind Karlsson, það var algjört aukaatriði.

Lykilatriðið var orðið rembingur. Þessi færsla einkennist af því sama. Athyglissýkin virðist vera að drepa suma.

Það er fróðlegt að þú sakir mig um að vera "rökvillufangari". Á þetta að vera neikvætt? Ég hefði talið að það væri gagnlegt í rökræðum að benda á þegar fólk er farið að snúa út úr umræðunni, t.d. með því að gera hinum aðilanum upp skoðanir.

Það er óskaplega algengt og námkvæmlega það sem þessi blessaða Mengella er sek um í þetta skipti.

Hættu svo að rembast, það fer þér ekki vel.

Mengella sagði...

Ég veit ekki til þess að Gunnar heiti Gunnar ef því er að skipta.

Rökvís maður eins og þú sjálfur hlýtur að hafa greind til að sjá að þótt lykilatriðið í færslu þinni hafi verið orðið rembingur (sem þér þó láðist að feitletra svona glæsilega í fyrra skiptið) forðar þér ekki frá því að lenda í rökvillu. Skiptu því út, það er guðvelkomið, eini ágóðinn er sá að rökvillan fær annað nafn. Útúrdúrinn er enn rökvilla útaf fyrir sig.

Og enn verður þér fótaskortur í röklistinni. Hvar geri ég þér upp skoðanir? Þú segir að ég geri það og ert þar með að gera mér upp skoðun sem ég kannast ekki við.

Nafnlaus sagði...

lol :-)

Nafnlaus sagði...

Fólk útum allann bæ er að fá lækningu, og losna við fíkn . Já og fyrir tilstilli bænar í nafni Jésú .
Þó svo að frelsarann sé ekki hægt að sjá í stjörnusjónauka, er það staðreynd að bænasvör eru um allar trissur í R.v.k og enginn vantrúargölturinn getur afsannað þau .
Svo því í ósköpunum fara menn ekki að leggja niður tilganglaust tilverusvið vantrúar, svona rétt til að verða sér ekki að meiri fíflum en komið er ?
Conwoy@visir.is

Nafnlaus sagði...

KHAHG!
(Kútveltist af. Hlátri með þeim. Afleiðingum að ég. Hryn í. Gólfið!)

Nafnlaus sagði...

Bænasvör til þeirra sem þurfa á þeim að halda eru besta mál. En það er bara svo auðvelt að skýra þau án þess að vísa til æðri máttarvalda. Hefurðu heyrt um placebo effect, eða lyfleysuáhrif?

Trú og jafnvel trúarbrögð geta vissulega oft komið til góða, sérstaklega örvæntandi fólki. En það segir ekkert til um hvernig hlutir eru í raun og veru.

Hmmm, það skiptir kannski engu máli hvernig hlutir eru í raun og veru, en það er vissulega forvitnilegt. Vilji maður reyna að komast að því verður maður að halda sér frá staðreyndum sem hafa lítið sem ekkert vísbendingargildi um það, eins og t.d. bænheyrnir.