9. október 2007

Torrent


Smáís er enn tekið að ygla sig vegna Ístorrents. Aðstandendur síðunnar, sem nú hafa stofnað fjárgróðafyrirtæki um reksturinn, bera enn í bætifláka fyrir starfsemina og benda á að ekkert banni fólki að skiptast á torrentskrám.

Tæknilega er torrenttæknin á gráu svæði. Að vissu leyti er þetta eins og að skiptast á húslyklum og skilja geisladiskasafnið og afritara eftir í forstofunni með það að markmiði að fólk gæti kíkt í heimsókn og afritað efnið á eigin diska.

Torrent.is gerir í raun ekki annað en miðla slíkum lyklum. Og það eru svo notendurnir sem fremja glæpinn með því að sækja efni í tölvur annarra og bjóða öðrum efnið úr sinni tölvu. Það er í trú á þetta sem ístorrent hefur ekki áhyggjur. Þeir hafa aldrei höndlað með þýfið sjálfir, aðeins bent fólki á hvar það er að finna eftir ábendingar frá öðrum.

Það er auðvitað ekki spurning að hér er verið að fremja ólöglegt athæfi. Einhver á réttinn á dreifingu efnisins og fær ekki sínar tekjur. Og ef réttlæti snérist aðeins um rétt og rangt þá væri málinu þarmeð lokið.

Verjendur tækninnar og andstæðingar Smáís benda yfirleitt á gagnsemi og gegnsæi sem rök í málinu. Til að byrja með er því oft haldið fram að skráardreifing á netinu minnki ekki sölu á höfundarréttarvörðu efni heldur auki hana – og þess vegna sé það skammsýni að berjast gegn tækninni. Þá er oft bent á að efnið er orðið svo ógnar aðgengilegt í tæknivæddu samfélagi að barátta gegn þessu sé eins og að berjast gegn nútímanum. Álíka vitlaust og að banna glugga í húsum því einhver gæti séð á sjónvarpstæki í gegnum þá.

Auðvitað er Smáís í fullum rétti að berjast fyrir hagsmunum sínum með þeim hætti sem þeir telja bestan. Og vissulega er Ístorrent krimmabúlla, sem hefur síður en svo aukið lífsgæði notendanna. Sterkustu rök Smáís og annarra baráttumanna gegn slíkum þjófnaði eru sú gengisfelling sem kvikmyndir og tónlist hafa orðið fyrir með þessu brjálæðislega aukna aðgengi.

En það stendur upp á rétthafana að breyta því. Það er löngu orðið tímabært að endurhugsa umbúðir og eðli stafræns efnis. Þegar fólk keypti hljómplötur hér í gamla daga og handlék hulstrið og textablöðin á meðan hlustað var græddu allir. Upplifunin var sterkari og betri og fólk tengdist flytjandanum og verkinu betur.

Smáís á að beita sér fyrir því að upplifunin af því efni sem þeir verja sé ekki aðeins stafræn. Það má gera með ýmsum leiðum. Metnaðarfyllri hönnun og fylgiefni, kaupendaskráningu sem veitir fríðindi eða nýrri tækni.

Ef gullfalleg háklassamella og rottuleg bakstrætismella veita sömu þjónustuna í sama niðdimma portinu en önnur rukkar margfalt meira en hin, þá er ljóst að önnur þeirra hefur lítið að gera.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér þykir þú tala ansi fjálglega um skráarskipti tæknina kæra Mengella. Það er ekkert ólöglegt við torrent. Né heldur við P2P. Þetta er bara tækni, protocol til þess að senda efni í smáum pörtum (chunks) á milli tveggja IP talna. Munurinn er sá að með torrent ertu að sækja í gegnum miðlægan grunn (tracker) og þ.a.l. frá mörgum mismunandi IP tölum.

Nú get ég ekki talað fyrir hönd allra sem að notast við netið á annað borð til þess að sækja sér efni eða miðla að sér upplýsingum, en ef að mig langar virkilega að eiga kvikmynd eða tónleika á DVD, þá kaupi ég DVD diskinn. Fyrir mér er það ekkert tiltökumál. Ég fæ það sem ég vil fyrir peninginn og ég fæ það í góðum gæðum. Verst að ég er stimplaður þjófur í hvert sinn sem að ég set diskinn í tækið. Það fyrsta sem að tekur á móti notandanum er hræðsluáróður Smáís.

Smáís græðir ekki bara á hverjum seldum diski út í búð. Þeir græða líka á hverjum seldum tómum geisladiski/ DVD diski þar sem að ákveðinn skattur af hverjum seldum diski rennur í þeirra vasa. Gildir þá engi til hvers notkunin er.

Fyrir nokkrum árum gerði lögreglan húsleit hjá 12 einstaklingum í svokölluðu Deilismáli. Allur tölvubúnaður var gerður upptækur og þeim gefið að sök að hafa verið að dreifa efni ólöglega um netheima. Þetta var 2004 og var að undirlagi Smáís. Í dag, 3 árum seinna, hefur ekki enn verið gefin út ákæra og tölvubúnaðurinn liggur vandlega falinn í húsakynnum lögreglunnar í Reykjavík og safnar ryki.

Málið er að löggjafinn skilgreinir ekki hvað er ólöglegt afrit og hvað ekki og Smáís einhvernveginn hefur ekki getað komið upp með aðferðafræði til þess að nýta sér tæknina sér í vil heldur kýs að berjast gegn henni (og notendum hennar) með öllum tiltækum ráðum. Það sama á sér stað í Bandaríkjunum og í Evrópu.

Lausnin er ekki að stefna þessum milljónum sem að kjósa að skiptast á efni í gegnum netið fyrir dómsstóla. Lausnin er að nýta sér möguleika tækninnar.

Mengella sagði...

Það er alveg rétt að torrent tæknin er á gráu svæði lagalega. Ég dró enga fjöður yfir það. Það er hinsvegar sólu særra að notkun á torrent-tækni til að dreifa ólöglegu efni felur í sér ólöglegan gjörning.

Ef ég brytjaði kött í litla bita og sendi í bögglapósti til matreiðslumeistarans míns sem sendi mér til baka dásamlega og léttkryddaða kattarsteik þá væri ég að brjóta gegn dýraverndunarlögum. Pósturinn þyrfti líklega ekki að örvænta þótt upp um mig kæmist enda grunlaus um framtakið. En ef ég nýtti mér nú þjónustu sem sérhæfði sig í að auglýsa tengiliði í kattarátsheiminum og hengdi nafnspjöld okkar fagurkera upp í gluggann hjá sér, þá þarf ekkert stórkostlegt ímyndunarafl til að sjá að hæglega væri um lögleysu að ræða – hvort sem löggjafinn er búinn að, eða á eftir að, taka af allan vafa um það.

Nafnlaus sagði...

Vissulega væri það lögleysa. Enginn vafi þar á ferð. Það sem að aðgreinir skáarskiptin er hins vegar hvað er ólöglegt afrit og hvað ekki. Sá sem að kaupir geisladisk með uppáhalds tónlistarmanninum sínum og gerir aðgengilegan á netinu er ekki að fjölfalda hann. Viðkomandi er að leyfa öðrum að afrita eitthvað sem að hann hefur keypt og á með réttu.

S.s. eigandi geisladiskins er ekki að fjölfalda hann. Aðrir netnotendur eru að því.

Ég er hins vegar alveg sammála því að höfundur efnisins sem að um ræðir á vissulega að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Þetta er hans höfundarverk. Ég er þó ekki sammála þeim aðferðum sem að Smáís er að notast við. Aðallega vegna þess að þeir eru að stimpla alla sem að skiptast á efni í gegnum netið (höfundarvörðu eður ei) sem ótýnda glæpamenn. Microsoft hafa t.d. gefið út beta útgáfur af ýmsum hugbúnaði hjá sér með torrent tækninni. Efni sem að er fullkomlega löglegt að sækja og dreifa.

Fyrir nokkrum árum var ég ansi stórtækur í niðurhali á netinu. Skipti þá engu hvort um var að ræða tónlist, kvikmyndir eða hugbúnað. Svo liðu árin og hlutirnir æxluðust þannig að ég setti á fót eigið fyrirtæki og var þar með kominn hinum megin við borðið. Það sem að ég vinn við er bundið höfundarréttarlögum. Ég kaupi allan þann hugbúnað sem að notast við. Annars væri ég og þar með fyrirtækið mitt að brjóta lög.

Ég held að Smáís ætti frekar að reyna að nýta sér tæknina. Það hafa verið gerðar ansi margar kannanir á hegðun netnotenda og neyslumynstri. Það sem að þessar kannanir hafa m.a. leitt í ljós er að meirihluti netnotenda vill t.a.m. frekar geta horft á sitt afþreyjingarefni þegar að honum hentar á þeim tíma sem að honum hentar og hann vill líka geta haft aðgang að því í gegnum netið.

En því miður þá hugsa ég að Smáís eigi seint eftir að gera eitthvað slíkt. Alveg eins og ég held að torrent síðurnar eigi seint eftir að leggja niður starfsemi. Þetta er barátta nútíma sjóræningja við yfirvöldin og sjóræningjarir virðast vera að vinna. Það sem að meira er; þeir virðast hafa á sér einhverskonar Hróa Hattar ímynd.

En ef að ekki væri fyrir netið, torrent og P2P þá hefði ég ekki komist í kynni við mínar hljómsveitir eins og Dropkick Murphys, Flogging Molly og Pouges og þ.a.l. ekki keypt allt það efni sem að ég komst í tæri við með þeim.

Mengella sagði...

Allt sem þú segir er í fullkomnu samræmi við færslu mína.

Fyrir utan þennan einkennilega punkt um að eigandinn sé ekki að dreifa efninu heldur að leyfa öðrum að sækja það.

Sem er sami hlutur (og raunar lísti ég því nákvæmlega eins og þú í færslunni sjálfri).

Eða er ekki eigandi konfektkassa að gefa molana þótt hann láti gestina taka þá sjálfa úr kassanum?

Nafnlaus sagði...

Eins og ólögleg fjölföldun er skilgreind væri ég að brjóta lög ef að ég keypti disk út í búð og myndi síðan brenna ótilgreint magn af afritum á disk og gefa eða selja.

Með torrent eða P2P ertu að gefa hverjum sem er aðgang að möppu(m) inn á tölvunni þinni og afrita hvað svo sem að þú hefur að geyma þar. S.s. ekki skilgreint sem ólöglegt athæfi í lagalegum skilningi. Ekki ennþá í það minnsta.

En þetta er held ég alltaf spurning um skilgreiningaratriði á báða bóga. Eða eins og Douglas Coupland orðaði það í jPod: Að búa fastri varanlegri búsetu á óskilgreindu gráu svæði til þess að þurfa ekki að taka ábyrgð eða afstöðu.

Nafnlaus sagði...

Ég vil benda á til að taka þessa mynd þarna þá þarftu að vera meðlimur á torrent.is

Svo það virðist vera að þú ert meðlimur þarna og virðist sækja gögn þaðan líka.

Ef Torrent.is mun verða lagt niður þá mun fólk bara nota einhverja útlenska síðu frekar.

Nafnlaus sagði...

auðvitað líka hægt að nota dci.is :)

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir ahugaverd blog