Varúð, hundurinn bítur!
Það er með hreinum ólíkindum hvernig Villi borgarstjóri hefur troðið pinnalausri pólitískri handsprengju ofan í buxurnar sínar. Það er eins og hann hafi gleymt því að borgarstjórnmálin eru grimmust allra stjórnmála og að greni borgarstjóra er tryggilega umkringt skyttum.
Villi var kominn á gott skrið. Var búinn að heilla allt smáborgarahyskið upp úr skónum með því að þola enga vitleysu innan borgarmarkanna. Hafði svamlað um í bullandi forræðishyggju og persónulega leitað á gestum við borgarmörkin til að tryggja að ekkert misjafnt slyppi í gegn. Hann var kominn með svo góðan og þéttan takt í að treysta á innsæi sitt að hann tók ekki eftir því þegar samherjar hans hættu að spila með og hann stóð því uppi í taktvissu en tilþrifalitlu trommusólói.
Og svo laug Villi. Stóð flóttalegur fyrir framan fréttamyndavélina og tafsaði upp volgum hálfsannleik. Augun komu upp um hann. Hann laug. Og hann laug ekki einu sinni glæsilega, heldur reyndi hann að bjarga sér með því að segjast rænulítill maður og óeftirtektarsamur.
Villa er búið að kasta fyrir hundana. Pólitískum ferli hans er lokið. Og það voru samherjar hans sem drápu hann. Þeir vita sem er að nú þarf að losa sig við hann. Það er allt í tómu tjóni í borginni, þeir ráða ekkert við leikskólamálin og sæta stöðugri gagnrýni frá hægri. Holdtekja vandans í borginni eru tvær manneskjur. Villi er önnur þeirra. Villi er búinn að vera.
2 ummæli:
Ég veit að þetta kemur færslunni ekki mikið við (enda er ég fullkomlega sammála þér þarna, Villi gróf eigin gröf og gerði það meira að segja nokkuð vel með dyggri hjálp frá Birni nokkrum Inga Hrafnssyni) enda mig langar að vita hvar þú fékkst .png myndina. Er þetta eitthvað sem að þú bjóst til sjálf ?
Jamm. Ég teiknaði þetta.
Skrifa ummæli