3. janúar 2009

Óli Klemm og Kryddsíld

Lýsing sviðsstjórans á innrásinni á Hótel Borg er fágæt gersemi. Hún er heiðarleg og sjálfsrýnin. Og þótt mótmælendur geti státað sig af einlægni þá skortir þá alla rýni á athafnir sínar og verk. Prófið að lesa lýsingar mótmælenda á atburðunum og sviðsstjórans og spyrjið ykkur svo: ef ég hefði verið stödd þarna fyrir tilviljun, hvorum hefði ég hjálpað?

Það er ekki spurning hvorum Óli Klemm og hvítliðarnir hefðu hjálpað.

Það sem er hinsvegar orðið dálítið skondið við þessi mótmæli öll er að búið er að krassa í veggjakrotið. Það er búið að hækka pottinn og nú eru menn farnir að heimta að sjá spilin.

Það er búið að bróta rúður hjá mótmælendum alveg eins og þeir brutu rúður. Það kemur ekki á óvart að mótmælendum þykir það alveg hroðalegt. Óli Klemm gekk um ógnandi og fitubollan reif kjaft. Skömmu áður hentu mótmælendur grjóti í andlit lögreglumanns og munnsöfnuðurinn var töluvert svæsnari en fitubollan gerði sig seka um.

Enginn meðal stuðningsmanna mótmælenda talar um nauðsyn þess að kjafta frá því hver kastaði grjótinu. Samt sá það fullt af fólki.

Margir tala um nauðsyn þess að reka Óla Klemm.

Hver er annars tilgangur þessara mótmæla? Til hvers að rífa Síldina úr sambandi? Þegar það hefði verið þúsund sinnum meira viðeigandi að láta Síldina fara fram undir stöðugum mótmælahrópum. Það var að virka. Stjórnmálamönnunum leið illa. Og svo hætti allt.

Ég gef ekkert fyrir það að Síldin hafi ekki átt rétt á sér miðað við aðstæður. Það hafi verið ótækt að stjórnmálamenn sætu prúðbúnir við borð og smjöttuðu á kræsingum meðan múgurinn mótmælti úti. Ég gef ekkert fyrir slíkt tal frá fólki sem sjálft settist prúðbúið að háborði skömmu seinna og át kræsingar og konfekt fram eftir nóttu.

Ríkisstjórnin smjattandi á síld og sötrandi vín var ekki úr takti við þjóð sína, hún var holdtekja þjóðarinnar. Fulli kallinn, Óli Klemm, sem ráfaði um og þóttist harður – en þorði svo ekki að vera harður við neinn nema stelpur og nörda – hann var enn dæmigerðari fyrir þjóðina. Hann var bara tólf klukkutímum á undan samtíma sínum.

Engin ummæli: