31. janúar 2007

Bókaraunir

Er búin að sparka Ballöðunni um Bubba Morthens út í horn.


Annað hvort er þetta meistaralega skrifað pyntingartæki eða hörmulega skrifað bókmenntaverk. Höfundurinn glímir við einstaka orðafátækt. Ef hann dettur niður á nýtt orð eða orðasamband má reikna með því að það skjóti upp kollinum á tveggja blaðsíðna fresti næstu 90 blaðsíðurnar (álíka og í Harry Potter). Ef þið eigið bókina skoðið þetta. Skoðið hve oft „messinn“ kemur fyrir og athugið hvort þið finnið stutta málsgrein þar sem „í sífellu“ kemur fyrir tvisvar. Skoðið hvernig höfundur hnýtir klisjur eins og „og svo mætti lengi telja“ við setningar sem þurfa síst á því að halda. Sjáið hvernig höfundur hendir á loft líkingamáli þegar hann segist frjósa en grípur svo til þess óskiljalega ráðs að klína klisjunni „í bókstaflegri merkingu“ inn í samhengið sem rústar líkinguna að sjálfsögðu. Sjáið hvernig höfundur skilur ekki orsök og afleiðingu eins og þegar hann segir að víst hafi manndrápið verið sýslumannsdótturinni að kenna því fólk hafi farið að líta hana öðrum augum eftir það.


Ég kalla það að fara út að labba með orðin þegar menn ráða ekki við orðfæri sitt. Setningarnar bruna úr munni eða penna viðstöðulaust og frussast út í hvert horn og hvern kima. Höfundurinn draslast með eins og gamalmenni dregst á eftir viljugum Stóra Dan. Eða með öðrum orðum: Þegar menn færast of mikið í fang. Höfundur Ballöðunnar ræður ekkert við það sem hann er að gera. Hann fær góða hugmynd, skrifar hana niður, en á meðan sú næsta er að fæðast skrifar sjálfstýringin einhverja viðbjóðslega klisjuna, kýlir eitthvað vessafullt lýtið inn í textann, sáir fræi eigin vanhæfni innan um það sem vel er gert. Fræið spírar og vex ógnarhratt - og varpar á svipstundu skugga á verkið í heild.


Í ánægjulegri fréttum er að Síðasta setning Fermats er skemmtileg (eins og reyndar allt sem eg hef lesið eftir þann höfund) og mér hefur þótt gaman að endurnýja kynnin af Poe. Búin að lesa lauslega saman þýðingar Einars og Matthíasar á Hrafninum og þótt Einar byrji ótvírætt betur er ég ekki frá því að Matthías taki hann á geðveilunni og óhugnaðinum. Er þó enn opin fyrir túlkun á því hvort er betri þýðing í heild sinni.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú átt við Simon, eða hefurðu lesið Pierre?

Mengella sagði...

Ég á við Símon. Nýbúin að lesa dulmálsbókina hans og naut vel. Hef ekkert lesið Pétur gamla. Gæti þó breyst eftir lesturinn nú.

Nafnlaus sagði...

Þú mættir alveg taka til við fleiri íslenskar bækur. Margar nútímahöfundar íslenskir þjást af orðfæð og lágkúru. Og þakka þér fyrir þessi dæmi. Er mjög sammála þér í þessum punkti.

Fara út að labba með orðin...

Þetta er átakanlegt.

ÖE

Mengella sagði...

Fara út að labba með orðin

Lágkúra, vanmáttur, gandreið á óþjálum fáki allt undir því yfirvarpi að um sé að ræða magnaða listsköpun: verðskuldar nafn sem lýsir þessu öllu.

Nafnlaus sagði...

Ekki vissi ég að Skratte væri orðinn læs? Amma hans hefur greinilega staðið við það að kenna honum að stauta!

Nafnlaus sagði...

Ekki vissi ég að Skratte væri orðinn læs? Amma hans hefur greinilega staðið við það að kenna honum að stauta!

Nafnlaus sagði...

Sammála, Ballaðan ótrúlega leiðinleg bók. Takk fyrir skemmtileg skrif!