20. janúar 2007

HM í handbolta


Kveikti á fréttunum í gær og heyrði orðin: „Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum...“


Tók eftir því að fréttakonan var venju fremur málhölt og óframfærin og dró því umsvifalaust þá ályktun að um íþróttafréttamann væri að ræða. Framhald málsgreinarinnar staðfesti það: „...að HM í handknattleik hefst á morgun.“


Skemmst er frá því að segja að það hafði farið fullkomnlega framhjá mér. Ég hefði helst kosið að það héldist þannig.


Einhver sjúskaðasta klappstýra landsins heitir RÚV. Ég held að RÚV hljóti að vera stjórnað af fólki sem glímir við geðhvörf. Það ber öll einkenni þess. Alltaf þegar RÚV hefur eytt eða hyggst eyða stórfé í einhvern „stórviðburð“, þá birtist starfsfólkið á skjánum í annarlegu móðursýkisástandi og talar eins og allir séu að missa sig úr spenningi. Þetta tel ég eiga að virka peppandi á þá sem ekki eru í stuði og hrífa þá með í geðbrigðadansinn. Og þetta virkar. Virkar á börn og einmana, ósjálfbjarga gamalmenni.


Aðrir fá klígju.


Í dag er þannig dagur í Efstaleiti að allt heimsins Líþín gæti ekki dempað spenninginn. HM byrjar með æsispennandi leik Íslendinga við Ástrali og fyrstu átta lögin eru kynnt í undankeppni Evróvisjón. Í trylltum dansi fjúka hugshrifin í Útvarpshúsinu upp í hæstu hæðir og Páll Magnússon situr eins og púkinn á fjósbitanum og argar: „Látið lýðinn senda SMS! Látið það kosta! Nú er lag!“


Það er öllum skítsama um handbolta. Það er enginn að horfa á leikina handboltans vegna. Þetta gæti allt eins verið keila eða skák.


Einhverjir horfa af skyldurækni vegna þess að heili þeirra er ennþá brennimerktur af áhuga barnsáranna. Við höldum jú alltaf að allt hafi verið frábært þegar við vorum ung. Margt fólk trúir því ennþá að Heilsubælið eða Áramótaskaupið (þetta sem var stolið) hafi verið fyndið.


Sumir horfa af því þeir eru gamlir og bráðum að fara að deyja og vilja ekki deyja einir heldur sem stak í mengi.


Flestir horfa þó þegar hatursknúin þjóðerniskennd á einhvern möguleika á að fá útrás. Þegar við eigum möguleika á að sigra, nei - niðurlægja - einhverja aðra þjóð. Þegar við eigum tækifæri á að verða konungar hrúgunnar á leikvellinum. Sparka hinum krökkunum úr rólunni. Toga í tíkarspena stelpunnar og kippa buxunum niður um lúðann. Sigra, drepa og niðurlægja. Saman í hóp gegn öllum hinum. Máluð blá og rauð og hvít í trylltum dansi.


Og við sitjum í sófanum og öskrum og titrum. Kennum börnum okkar hvernig geðklofa- og geðhvarfasýki gengur fyrir sig. Bölvum dómaranum okkur til fróunar og í þeirri von að það hafi áhrif. Lýsum yfir hatri á þjóðum, kynþáttum og fólki með tiltekinn húð-, háralit eða hárgreiðslu. Sitjum þögul eins og lítil kirkjurotta þegar okkar menn þurfa að einbeita sér. Sussum á börnin sem ekki skilja nauðsyn þess að trufla ekki manninn í sjónvarpinu. Dönsum um í trylltum geðbrigðadansi góða stund.


Handboltinn virkjar þrennt í mannssálinni og ekkert annað: einfeldni, einmanaleika og hatur.


Til allrar hamingju fyrir RÚV er enginn skortur á slíku.

Engin ummæli: