29. janúar 2007

Hrafninn

Í dag eru liðin 162 ár frá fyrstu birtingu Hrafnsins, eftir Edgar Allan Poe, í New York Evening Mirror.


Aðrir hafa birt íslenska þýðingu á ljóðinu - af þessu tilefni og áður. Hins vegar er það ávallt þýðing Einars Benediktssonar sem verður fyrir valinu. Hér birtist því á Netinu í alfyrsta skipti (að því ég best veit) þýðing Matthíasar Jochumssonar.


Gamla'ársnóttu napurkalda
nam ég letur fræði-spjalda;
fölvar myndir fyrri alda
fylltu brjóstið leiðslu-ró;
vart þó blund ég festi, fyr en
felmt mér varð við högg á dyrin -
„einhver kom og drap á dyrin!
Dumpið glöggt ég heyrði þó!“
Upp ég hrökk af illum draumi,
um mig kynja-hrollur fló:
Hver er úti? - „Enginn - kró!“

Ó, það kvöld er mér í minni,
mæðuár með reynslu sinni
kvaddi fold, svo úti' og inni
angur-þrungnum skugga sló.
Við minn lærdómslestur beið ég,
ljósið nýársdagsins þreyði' eg,
samt við hjartans harmi kveið ég,
hennar nafn mig svipti ró -
ljúfa nafnið Leónóra -
líknin mín, sem frá mér dó.
En - hún lifir. - „Aldrei - kró!“

Ljósið dofnar, lampinn ruggar,
línið skelfur, marra gluggar:
hvaða vofur, hvaða skuggar
herja' á mína sálar-ró?
Aldrei svo við ógn mig hryllti,
aldrei geigur mig svo fyllti,
aldrei svo minn anda tryllti
ofboð neitt, sem fyrr mig sló;
og ég umla yfirkominn,
anda' á lofti meðan dró:
Hver er úti? - „Aldrei - kró!“

Aftur samt ég hug minn hressti,
hvarmaljós á dyrnar festi,
bjóst að fagna góðum gesti,
greip í lás og hurð upp sló:
„Fyrirgef, svo dátt mig dreymdi,
dyrum mínum sjálfs ég gleymdi,
sjónin mörg að sálu streymdi
svo ég lá í dvala-ró.-“
Út um fordyr hússins horfi,
hvað var það, sem úti bjó?
Ógn og myrkur, - „Aldrei - kró“.

Úti lengi horfði' eg hljóður,
hugsa: skyldi' eg verða óður?
Enn að nýju ofboðs-móður
allt mitt hjarta gegnum smó.
Dauðamyrkur, enginn ómur,
eilíf nótt; en hvaða rómur?
„Leónóra“, hvíslar hljómur,
hjarta mitt sem gegnum fló:
„Hvað þá? hver svo tautar, talar,
tekur alla lífs míns ró?
svarið, ansið!“ „Aldrei - kró!“

Inn ég hafði aftur farið,
öllum þar til kröftum varið.
En hvað heyri' eg? Aftur barið!
allt með felldu síst var þó.
„Innst við gluggan, ei frá dyrum;
hvergi vil ég hætta, fyr um
húsið leita', en finn ég ró.
Vertu stillt, mitt hrellda hjarta,
hér eru' enn þá ráðin nóg. -
Eflaust súgur“. - „Aldrei - kró!“

Innsta gluggann opna' eg skjótur,
en hvað sé ég? Nauðaljótur
hrafn í salinn flygsast fljótur,
fítonslega við mér hló.
Engar kveðjur vomur vandar,
vængjum þungt og hljótt hann bandar,
dyrnar við til hægri handar
hillu fann og sest í ró;
þar stóð mynd af menntagyðju,
maskinn hana spennir kló. -
Umlað heyrðist: „Aldrei - kró!“

Kom nú að mér kuldahlátur:
„Krummi sá er næsta kátur:
kannske það sé lítillátur
lærdómsfugl, sem klakar fró? -
Sendiboði hulins-heima,
hvað ertú í nótt að sveima;
forni vörður grafargeima,
grein mér, hvað þig hingað dró?
Inn þú mér frá undirheimum,
inn mér nafn þitt krummahró!“
Hrafninn æpti: „Aldrei - kró!“

Um mig aftur fór að fara,
fuglinn er ég heyrði svara:
eitt þó væri orðið bara,
ætíð þótti mér það nóg.
Aldrei hefir, vil ég vona,
verið maður til né kona,
úfin hrafn er sýndist svona
svífa inn með spekt og ró,
og á mærrar menntagyðju
Mímis-höfuð festa kló,
orga' og svara „Aldrei - kró!“

„Efst á Pallas' ægishjálmi
unir hann sem bust úr málmi;
með hans rödd sem ör af álmi
öll hans kynngi máske fló? -
Nú er þrotlaus þögn og friður,
þrúðgur fugl ei bærir fiður.
Heyrðu! segi' eg hrafninn viður,
horfin er mín sálar-ró:
vinir fóru' og von er frá mér;
vík þú líka, krummahró!“
Hrafninn æpri: „Aldrei - kró!“

Aftur um mig fór að fara,
fuglinn enn ég heyrði svara,
eitt þó væri orðið bara,
er hann máske nam í ró
skáldi hjá, er sköpin hörðu
skáru lengi svo og mörðu,
að hann, fyrr en færi' í jörðu,
fastan þennan tóninn sló,
svo hans innsti andarstrengur
óma skyldi' um land og sjó
Urðar-orðið: „Aldrei - kró!“

Legubekkinn fram ég færi,
fugli svo ég nærri væri,
vil, að hann mér huggun tæri,
hrafni þó sjaldan bjóði fró.
Og á silkibekknum blunda
býst ég nú og fer að grunda,
hvað hann sé að hugsa' og dunda
hvílík djúp í augans ró!
hvílík töfra-tákn er þetta?
til hvers miðar orð hans þó?
eitthvað þýðir: „Aldrei - kró!“

Kyrr ég bíð og bærist eigi,
bregð mér hvergi, ligg og þegi;
hrafninn starir; - horfir eigi
heljarfeikn úr augans ró?
Höfuð mitt hið hrellda, veika,
hvílist nú við silkið bleika,
meðan lampans röðlar reika
rósavefs á mjúkri ló.
Æ, sú tíð, er höfuð hennar
hýrt á þessum svæfli bjó,
kemur aldrei: - „Aldrei - kró!“

Sætan ilm mér fannst ég finna
færast nú til vita minna:
„Góðir englar eru' að vinna
öndu minni líkn og fró.
Komið nú með kraft af hæðum,
komið nú með lausn frá mæðum,
fæ ég ekki frið í æðum?
finn ég hvergi líkn og ró?
hvenær kemur kallið þráða,
kall, sem boðar: Það er góg?“
Hrafninn æpti: „Aldrei - kró!“

Leiði spáfugl, Levíatan,
lymski dólgur, krummi, satan,
örg er víst þín ævigatan;
inn mér, hvað þig hingað dró;
seg nú minni sál, er kvíðir,
sigruð, þjáð og marin stríðir,
vonarlaus, hvort seint um síðir
sjá hún muni' og finna ró!
er í Gílead enn þá balsam,
enn þá von um nokkra fró?
Hrafninn æpti: „Aldrei - kró!“

Leiði spáfugl, Levíatan,
lymskudógur, krummi, satan,
seg mér, þér mun gjörkunn gatan,
grein við þann, sem líf oss bjó:
þrýtur aldrei þessi slagur?
þverrar aldrei raunadagur?
opnast aldrei Eden fagur,
er ég hana finn sem dó -
hana, sem í himinsölum
hvílir nú í sælli ró?
Hrafninn æpti: „Aldrei - kró!“

Brottu farðu, fjandans líki,
fljúgðu heim í heljar díki,
út og niður ógn þín víki,
orga þú við storm og sjó!
Skil ei fjöður eftir inni,
ekki grand, sem vekur minni
þinnar komu' í sál og sinni;
sýnist þér ei komið nóg?
Farðu, þú sem níðings nefi
nístir mína hjarta-þró!
Hrafninn æpti: „Aldrei - kró!“

Hrafninn ekki hót sig flytur;
hjá mér enn í dag hann situr;
ávallt samur er hans litur;
augans sama niflheims-ró.
Ljósið enn um bekkinn breiðist,
borð og gólf, en aldrei skreiðist,
skugginn burt, og aldrei eyðist,
enn þá dvelur krummahró.
Þessi lífs míns forna fylgja
fylgir mér að grafar ró -
Urðar-orðið: „Aldrei - kró!“

Edgar Allan Poe (1809-1849)

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hrefnan sár við hafsins glugga,
huguð feima myrkra skugga,
skrifar dimmt án draums og ugga,
dauðblá mynd við fræða sjó.
Ennið salt af skreipum skræðum,
skáld með hvoft sinn troðinn ræðum,
syndir burt frá björtum fræðum,
ber sig burt frá sólar kló.
Undfarinn í hennar hjarta
henni fylgir freyðinn þó!
Skíðin blaðra: „Ab imo... !“