27. janúar 2007

Eldmann og ótemjan

Ögmundur Eldmann ríður mikla ótemjureið í athugasemdunum við síðustu færslu. Stíllinn er fjörlegur en óagaður. Ef lýsa ætti slíkum tilþrifum, þá mætti kalla þau annað hvort uppskafningu eða orðræðusáðlát.


Það sem fer í taugar Ögmundar er þetta:


  1. Hann vill sjá mig húrra á skeljarnar og játa mig vanmáttuga gagnvart einhverju svo hann geti gerst aðdáandi þess líka, nú þegar honum finnst ég hafa notað heimsmynd hans sem útihús, t.d. með því að...


  2. ...veitast að Ágústi Borgþóri. Ögmundur er grúppía Ágústar. Fellur fyrir einlægninni í Gústa. Það skil ég vel, ef hann læsi það sem ég skrifaði um Ágúst sér hann að lýsingar okkar smellpassa saman. Það eina sem ég hef ekki séð hjá Ágústi, en Ögmundur hlýtur að hafa gert fyrst hann lætur svona, eru teikn um sérstaka rithæfileika. Ef penni Ögmundar er ótemja þá er penni Ágústar plógur.


  3. Þá er einkennilega mótsagnarkennt sífur í ræðu Ögmundar um það að ég sjái ástæðu til að fjalla um Paulu Abdul og Ellý Q4U á þessum vettvangi. Ég eigi ekki að leggja lag mitt við slíka lágmenningu. Stuttu seinna vænir hann mig síðan um að setja markið svo hátt varðandi listsköpun að Ágúst ræfillinn eigi aldrei séns á að hoppa yfir slána, með öll sín aukakíló. Þessu skal svarað þannig að í líkama mínum er ekki til arða af listasnobbi. Fífl eru fífl, hvort sem þau eru með alpahúfu eða lögguhjálm. Hið sama gildir um snilldina. Schopenhauer fór í bíó til að koma skikki á hugsanir sínar, Wittgenstein dýrkaði kábojmyndir.


Ég legg mig fram um að kynna mér sem flest af því sem skríður undan steinum í slýklæddri fjöru menningarinnar. Í fjöruferðum mínum hef ég fundið margar gersemar. Litla demanta, sem nú liggja í tónlistar-, kvikmynda-, bókmennta- og sarpskrínum mínum. Og jafnvel má vera að einhvern daginn leyfi ég Eldmanni að gægjast í eitt skrínanna. En ekki í dag. Enn um sinn verður hann að gera sér Þórðargleðina að góðu - hún er svo sem ekki verri en önnur gleði.

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hér var kyrjaður upp koxsvartur söngur. Látið liggja að því að ég fái orðaræðusáðlát (ó, ljúfi drottinn, ef það væri bara hægt) eða hvort ég framfæri ekki hreinlega óagaða uppskafningu með þessu fimmaura-rispi mínu eða fagurfræðilegan ósóma með því að vera óhemja til máls. Maður guðs og lifandi, ég er greinilega svignandi veisluborð! Og ég hef víst lítið gaman af þórðargleði (það er nú ekki alveg satt), lágmenningu (ó ljúfi ég) og svo er maður allt í einu orðinn grúppía Ágústs Borgþórs fyrir að taka upp hanskann fyrir þann misskilda þjóðdreng (sem þú skilur víst einsog ég – bara að breyttu breytanda). Og já þú heldur áfram – vilt ekki nota heimsmynd mína sem útihús og viðheldur þar með skatológíunni sem ég byrjaði á með því að minnast á Manzoni, þ.e.a.s. með því að kúka ekki á ofurviðkvæma heimsmynd mína. Já, guði sé lof, hér ertu enn og aftur ekkert nema kjafturinn og gaflhlaðið, bítur úr manni beinin og snýrð vopnunum í höndunum á manni. Svona rétt einsog sannur ódaunn á móti á að gera. Það hefði samt verið fallegt hefðir þú kórsungið einhverju smáræði lof, jafnvel þó það hefði verið algert stílbrot af þinni hálfu. En penna þinn er greinilega ekki hægt að hlaða með hrósi eða jákvæðni – enda notar þú eingöngu svörtu rennilóðin úr haglapung stafrófsins.

Þetta var samt ekki lakari sálmurinn hjá þér.

Og enn er ég upptekinn af sjálfum mér: Ég sífra og inniheld greinilega marga menn, enda kemst ég upp á kant við sjálfan mig. Mótsagnakenndur er orðið sem þú notar og svo vil ég víst að þú sért hámenningarleg (en góðan daginn í buxurnar þínar - þú lest Schopenhauer og Wittgenstein!) og þú segir mér að S og W hafi eitthvað verið að dútla við sjóleiðis lágmenningu einsog bíómyndagláp. Eru bíómyndir lágmenning án skilgreiningar? Hm, ég hef samt séð vestra sem ég tel með því betra sem ég hef séð á hvíta tjaldinu, bíómyndir sem jafnast á við merkar bækur. Þannig að ég skil þetta ekki. - En ætli Schopenhauer hafi ekki frekar séð sýningar úr innvolsi töfraljóskera frekar en bíómyndir. Maðurinn deyr 1860! Nietzsche hefði aftur á móti getað farið og séð hreyfimyndir af einhverri tæi. - Hvað sem um það er þá slæðir þú okkur til ævarandi ánægju ómenningarlegar ginfjörur og finnur þar víst margan demantinn – sem þú hæðir síðan til hæstu hæða með þínu lagi. Gott og vel.

En heyrðu, ég bað þig ekki um að húrra á skeljarnar og dásama eitthvað til að gera mig aðdáenda þess líka, heldur bara til að sjá hvort þú gætir sagt eitthvað jákvætt - en það á greinilega allt að birtast á bók, á hvíta tjaldinu eða þú ætlar að tralla því inn á disk. Og trúðu mér, ég hlakka til að sjá þær afurðir, því skrifað geturðu. Ekki veit ég um tónlistarhæfileikana, en séu þeir jafn brennandi þá er von á reiðum Brel eða foxreiðri Lisu Ekdahl. En þú verður þó að auka skotvídd þína. Það er ekki hægt að hafa allan heiminn að skotspæni, maður verður líka að geta dáðst að einhverju af einlægni. Þeir sem segja að allir séu fífl – eða dásamleg fífl – hvort sem þeir eru með fezhúfu eða fjaðrahatt, sixpensara eða skæni, garðahúfu eða bonnet, gerskan hatt eða frýgverska húfu – þá þurfa þeir að vara sig á því að lenda ekki í sama flokkunarkerfi hjá öðrum fíflum – einsog mér – og vera álitnir erkifífl, uppbelgd af hroka. En sjálfsagt hefðir þú bara gaman af því, enda nærist þú einsog ég á móðgunum og skítkasti. Ég er afturámóti einsog hvítur danskur hestur í hreysti minni í glaðværð, og get séð margt jákvætt af grátklökkri einlægni, en mér sýnist þig vanta það registur í þetta beljandi orgel þitt. Eða hvað?

Því hverjar eru hetjur þínar (háðlaust) og hvar sérðu eitthvað jákvætt í menningu okkar íslendinga eða annars staðar? Já, ég er snokinn fyrir því að sjá þig ljóma af ánægju... Svona er maður askoti furðulegur.

Ögmundur Eldmann

Mengella sagði...

Fjallið tók joðsótt og það fæddist mús.

Nafnlaus sagði...

Haha, hvílíkt andsvar, hvílíkur andi, hvílík uppljómandi lýsing á sjálfum mér. Þetta hefði ég samt getað orðað miklu betur og af meiri og fjörugri illgirni. Og ég hefði – væri ég þú - tekið stærra upp í mig en að líkja mér við fjall með mús í burðarliðnum. Já, þetta var frekar músarlegt andsvar. Svona einsog að hafa Vefarann að háði með orðunum: Vélstrokkað tilberasmjör. ÞAÐ var aftur á móti velorðuð gagnrýni, jafnvel þó hún sé ekkert miðað við Vefarann, en þetta hjá þér var svona mjamtandi lágkúra – og í raun varstu að segja: Músin er mér þrátt fyrir allt ofviða – bara með orðunum sem þú viðhafðir. Og þó var músin auðvitað aðeins ljúf beiðni mín um jákvæðni – sem ætti nú ekki að vera erfitt að framkalla í heilbrigðri sál.

En sé ég fjall, þá gæti ég alltént hrist af mér skriðu, ég gæti rutt hreppana með strókmekki, rokið logandi upp í plínískri sprengingu – jafnvel þó ég fæddi í þetta skiptið skítlega mús. En HVÍLÍK mús þrátt fyrir allt, fröken Megallan! Sterk til fótanna, háralagið frítt og svipfar hennar allt magnað! Já, ég varð fyrir vonbrigðum. Eingöngu eitt skítlegt orðtak dæmisagna – fjallið og músargot þess þeas – finnst þér það ekki líka frekar bragðdauft, ágæta Megellan? Já, var þetta ekki dálítið músarlegt „Hneit þar“ alltént þegar svona fjallmyndarleg mús einsog ég er annars vegar?

Og nei, ég lít ekki á þessi fyrstu orð mín hér að ofan sem Vefarann endurborinn í einni lítilli klausu...

En syngdu nú einhverju lof - bara fyrir músina hana mig...

Eða opnaðu þarfaganginn yfir mig af list. Haha. Neinei, ég er ekkert að reyna að snapa andleg slagsmál hér, bara að biðja um smá jákvæðni - svo að ég og við hin vitum hvað sé gott og meðtekið af þinni ágætu sál. Það er nefnilega ekki bara hægt að rífa tennurnar úr öllu, menn verða líka að hafa tennur til að setja upp í kvikindið þegar það er orðið tannlaust. Og hvað er gott og veltennt að þínu mati. Það er það sem ég vil vita.

Ögmundur Eldmann

Nafnlaus sagði...

Svo ég fái nú ekki rautt í kladdann þá átti nú að standa Mengellan þarna, en ekki Megellan. Eða kannski finnst mér innst inni þú bara vera svona mikill hagaljómi í gellulíki. Hver veit? Hver sem þú ert...

Ögmundur Eldmann

Mengella sagði...

Ef þú gæfir þér nú tíma til að lesa það sem ég skrifaði í stað þess að kyngja því hálftyggðu og horfa á það frussast út um neðra meltingarop þitt ásamt vessum og tæjum innan úr sjálfum þér, þá er aldrei að vita nema brot á skilningnum á því kæmist áleiðis til heilans.

Ef það eina sem þú ert að segja er: „Viltu vera jákvæð, bara fyrir mig?“ Þá þarf ekki að hafa fleiri orð um það. Þótt þér væri það vafalítið engin ofraun að skrifa um það 1200 orða ritgerð, sem merkilegt nokk segði ekkert annað.

Og nú breiði ég handklæði á gólfið því ég heyri hringla í orðunum í eistunum á þér. Þau eru að troða sér gegnum lyppurnar og stefna á blöðruhálskirtilinn. Og sáðlátið er yfirvofandi. Verði þér að góðu.

Nafnlaus sagði...

Þakka þér fyrir, Mengella mín. En svo ég vitni nú í orð þín þegar einhver hér í anskerfi þínu segir þér að fá þér á snípinn:

Dæmigerð viðbrögð andlegrar tse tse flugu þegar hvín í heilaberkinum. Ríða sig frá ráðleysunni og ráðleggja öðrum það sama þegar þoka eigin skilninsleysis hylur manni sýn. Farðu og búðu meðal gibbonapa, prótínþambarinn þinn.

Hér telur þú að menn eigi ekki að ríða sig frá vandamálunum, en ég er alltaf að fá orðaræðusáðlát að þínu mati og geri þetta sjálfsagt í staðinn fyrir að toga í teit. En afhverju tengirðu mig oftar en ekki við sáðlát? Er ég að skrifa mig frá skilningi mínum á þér (andlegt runk á ég við með öfugum formerkjum). Er ég að misskilja neikvæðni þína, er þetta jákvæðni í felubúning? Ó, ég vildi satt að segja að ég fengi það oftar en ég fæ, og ef ég gæti fengið það með orðum, þá mundi ég ekki hætta að skrifa, svo mikið er víst. En ég sé á þessum orðum þínum að þú ert eitthvað að hesthúsa William Burroughs af þínu einstaka listahatri, lýsingar þínar eru þannig, þeas þegar þú segir að ég sé að fara að skíta sjálfum mér, eða þann skilning legg ég í orð þín. Ja, eða fá það (og þakka þér fyrir að breiða undir mig).

Og auðvitað gæti ég skrifað 1200 orða eða jafnvel 1200 blaðsíðna bók um ekkert annað, en það væri nú frekar ófrumlegt (eða póstmódernískt) af minni hálfu. Þú sjálf gætir sjálfsagt skrifað álíka bók um neikvæðni og það sjálfsagt án þess að fá það. En segðu mér nú – án þess að ég þurfi að grafa eftir því í öllu því sem á að vera undirskilið í skrifum þínum – hvað er gott að þínu mati. Nefndu nokkur íslensk nöfn og nokkur erlend, bara til að lyppur mínar verði ekki einsog loftlausar blöðrur.

Ögmundur Eldmann

Mengella sagði...

Ekki hætta. Haldu endilega áfram.

Nafnlaus sagði...

Æjá, ég á svo bágt. Eða einsog segir í biblíunni:

Gef þeim, sem biður þig, og snú ekki baki við þeim, sem vill fá lán hjá þér.

Og hvað skal segja. Ég get ekki stappað jákvæðni þinni upp úr jörðinni – en ég get – í guðs nafni – fengið orðafró hér – einn og yfirgefinn. Allslaus og frámunalega vitlaus á minn engilhreina hátt. Jæja, ég skal byrja þetta á því, þó ég viti vel að þú hafir allsekki viljað framhald, þá vil ég nú samt gefa þér útskýringu á sjálfri þér. Hún er svona:

Þú ert vanstillis móðir.

Alltílagi bless. Þarf að vera í holdlegum návistum við uppblásna dúkku mína sem er öll útlímd með síðum úr orðabók Blöndals. Amen.

Ögmundur Eldmann.

Mengella sagði...

Ósköp var þetta stutt. Þú hlýtur að geta gert betur.

Svona, áfram!

Nafnlaus sagði...

Þið eruð sætt kærustupar.

Nafnlaus sagði...

Já, skemmtilegt hvernig þið skrifið bæði undir dulnefni.