13. febrúar 2007

Að koma með fjallið til Múhameðs

Fyrir nokkrum árum var ég að koma úr sundi í Laugardalslaug. Eftir sundið kom ég við í pylsuvagninum þar fyrir utan, keypti mér franska pylsu og Trópí, settist inn í bíl og kveikti á útvarpinu. Eftir nokkuð flakk nam ég staðar á Útvarpi Sögu.

Ég lenti inn í samtali Arnþrúðar og einhverrar kerlingar. Samtalið var svona um daginn og veginn en heldur var á kerlingu að skilja að heimur versnandi færi. Skyndilega ljóstrar kerlingin upp um að heilmargt sé nú rotið á Fróni, t.d. hafi hún fyrir löngu leyst í kolli sínum fölbreytilegustu sakamál, þar á meðal morðmál, en lögreglan og alþingismenn tekið upplýsingunum með ótilhlýðilega léttúðugum tóni.

Samtalinu lauk þarna en Arnþrúður bað kerlu að staldra í símanum.

Máltíðir eru auðvitað bestar með „sjói“ og hef ég lengi haldið upp á þennan málsverð - topp tíu án minnsta vafa.

Nema hvað.

Í ljós kemur nú að kerlingin sem rætt var við hét Guðrún Magnea Helgadóttir. Guðrún, sem er fyrir lifandi löngu búin að leysa Geirfinnsmálið, hefur hafið herferð til að fá samfélagið til að samþykkja lausn sína. Hún, eða einhver á hennar vegum, hefur sett upp vefslóðina Mál 214.

Lausn Guðrúnar er í senn svo snilldarlega einföld og sannfærandi að sérhver hugsandi maður á bágt með að stilla sig um að sannfærast á stundinni. Það er lögreglunni og alþingismönnum til mikils vansa að hafa ekki tekið málið upp hið snarasta.

Svona leysti Guðrún Geirfinnsmálið:

1997 var hún í heimsókn hjá manni og tældi hann til að horfa á fréttirnar með sér. Á skjáinn kom umfjöllun um Geirfinnsmálið. Stundi þá Guðrún stundarhátt, leit ísmeygilega á manninn og mælti: „Mikið væri rosalega gaman ef þetta mál kæmist upp.“ Í sömu svifum svelgdist manninum heiftarlega á og rauk hann út úr stofunni. Guðrún veitti eftirför og varð þess áskynja að karl virtist líða nokkrar kvalir. Hárbeittar spurningar hennar um þekkingu hans á Geirfinnsmálinu virtust ekki lina kvalirnar heldur þvert á móti auka þær.

Þegar Guðrún svo uppgötvaði hjá móður mannsins að fjölskyldinni væri tamt að fara heldur frjálslega með lykla sannfærði það hana umsvifalaust um að hér væri um einhverskonar glæpahring að ræða. Lokasönnunin í málinu var síðan sú að í garði við hús mannsins er stór klettur, sem þangað var fluttur með nokkrum erfiðismunum og útgjöldum. Þetta grjót, á að giska 50 tonn, hafði hinn bráðseki maður augljóslega flutt í garð sinn með það fyrir augum að hylja undir því lík.


En það varð þessum glæpamógúl að falli að Guðrún Blómkvist las hann eins og opna bók. Það, og sú staðreynd, að hann sá ástæðu til að flytja 50 tonna grjót um langar vegalengdir til að fela lík í garðinum heima hjá sér, frekar en að flytja líkið upp í fjöll og grafa það þar.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það sér hver maður að taugaveiklaður morðingi vill hafa líkið fyrir augunum, frekar en að vera í nagandi ótta um að hjálparsveit skáta eða einhverjar álíka fjallageitur rambi á sönnunargögnin í einhverri rjúpnaskyttuleitinni.

Þetta skilur Guðrún og þess vegna er hún í útvarpinu en ekki þú.

Mengella sagði...

Já, hún hefur vissulega undraverða hæfileika hún Guðrún.

Nú þurfum við bara að fá sem flesta til að taka þátt í undirskriftasöfnuninni.

Nafnlaus sagði...

Ég sem ætlaði að stinga upp á því að Mengella væri Stella …

- Glæpaskáldið

Nafnlaus sagði...

Allir sem hafa gaman af að skrifa koma fyrr eða síðar upp um sig með stílnum. Líka Mengella.

Nafnlaus sagði...

Er það? Ekki td Stella Blómkvist.

Nafnlaus sagði...

Ég heyrði þetta viðtal Arnþrúðar við Guðrúnu. Það alveg magnað.

Nafnlaus sagði...

Það er langt bréf frá henni til stjórnvalda á netinu.

Nafnlaus sagði...

Er Mengella þá Arnþrúður Karlsdóttir?

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir pistilinn Mengella. Ég hef einmitt verið að stúdera þessar samsæriskenningar og fékk nettan maníuhroll við lesturinn.

Nafnlaus sagði...

Já vitiði þetta getur bara alveg passað. Þetta með grjótið sérstaklega. Því ég hafði einmitt heyrt sögu af manni sem sótti sér grjót..sagan var eitthvað á þessa leið:

Maður nokkur laumaðist út um miðja nótt til að “stela” sér grjóti. Hann þurfti að keyra alla leið á snæfellsnes til þess að geta fengið sér nógu stórt grjót að enginn tæki eftir því að það yrði horfið. Þar meitlaði hann ca 50tonna stein úr klettinum og var ekki nema 6 mánuði og 14 klukkutíma að því. Eftir að hafa loksins klárað að meitla steininn frá klettinum skrapp hann heim og náði í bílinn sinn. Sem betur fer átti hann fimmöxla vélavagn með tveimur beygjuöxlum,lyftihásingu og vökvadrifnum slykjum því annað dugir náttúrulega ekki undir svona ferlíki,nema þá kanski þokkalega stór togari.

Maður þessi er náttúrulega enginn bjáni og hafði passað sig á því að meitla þann hluta úr bjarginu sem hafði áfastan krók,svo auðveldara yrði nú að hífa grjótið. Að öðrum kosti hefði hann nefnilega lent í bölvuðu basli með að hífa grjótið. Tæplega bregður maður lykkju um svona ferlíki svo það sé í sæmilegu jafnvægi. En sagan er nú ekki öll. Þegar heim var komið með grjótið,þá þurfti hann nefnilega að biðja nágrannan um að færa bíl sinn svo að hann gæti bakkað upp að húsinu. Svona pallur er nefnilega 42metra langur. Þar var hann hepinn að búa við götu sem er 11 akreinar og nægilega breið til þess að hægt hafi verið að bakka þessu upp að hlið hússins og koma þessu í bakgarðinn….

Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það,en svona er sagan…þannig að þetta getur vel passað,og þið eigið bara að taka þessa konu trúanlega..enda efast ég um að nokkur sem hringir í Arnþrúði sé annaðhvort lygari,eða með minnsta vott af Paranoju :)