6. febrúar 2007

Morfís

Viktor í Morfís lætur svo lítið sem að svara gagnrýni minni á keppnina. Til að koma í veg fyrir athugasemdahala set ég orð hans hér:


Nújæja, ég túlkaði þetta sem gagnrýni á áhangendur þar sem aðstandendur Morfís eru iðulega í salnum að horfa á og þar með úr hópi hinna æfðu mælskumanna- og kvenna. En gott og vel, þú gagnrýndir keppendur fyrir að hafa ekki gripið fram í. Ég sé engan mun þar á, satt að segja.

Þessi linkur sýnir þér fram á að þó að keppendur grípi ekki fram í fyrir heimskum (að einhverra mati) oddadómararæðum þá horfa þeir ekki lotningarfullt á hina holdteknu ímynd valdsins rúnka eigin egói. Þeir kvarta ef þeim þykir brotið á þeim. Þeir beita sinni djúpu íhygli og rökhugsun til að gagnrýna það sem oddadómarinn (í þessu tilfelli) sagði.

Þetta svar þykir mér sýna fram á hversu lítið þú veist um Morfís og hversu handahófskennd þessi gagnrýni þín er.

Lið draga nefninlega ekki afstöðu upp úr hatti, fyrsti dagur undirbúningsvikunnar fer í langa og stranga samninga milli liða um eitthvað sem þeir vilja keppa um og eru bæði sátt við. Svo að þeir rökræða bara víst málefni sem þeir hafa mismunandi skoðun á.

Afgangurinn af svari þínu er eiginlega innihaldslaust skítkast sem fellur með þeirri einföldu staðreyndavillu þinni.

Ég þarf ekki að senda þér tölvupóst, ég skal bara segja þér það hér og þú mátt alveg birta það í bloggi þínu:

Í fyrsta lagi hef ég viðurkennt að sumir ræðumenn misbeita keppninni til að koma með innihaldslaus rök í fallegum búning, það fer í taugarnar á mér og fleiri Morfísfólki þegar það er gert, en auðvitað getur keppnin sjálf ekki bannað það, málfrelsi er ein af mikilvægari undirstöðum Morfís og þeir ráða hvernig þeir haga sínum málflutningi.

Hinsvegar er reynt að tryggja almennilega rökræðu í keppninni, t.d. með dómblaðinu sem dómararnir dæma eftir.

Þó skal því ekki neitað að mælskulistin og hæfileikinn að fá fólk á sitt band er hluti af ræðumennsku og ef einhver er mjög góður í því á hann hrós skilið.

En Morfís, í þeirri mynd sem það er í dag, bætir samfélagið m.a. svo:

1. Æfir mann mjög vel í að koma fram. Síðan ég fór í ræðumennsku hefur t.d. reynst mér ekkert mál að koma óundirbúinn fyrir framan fullt af fólki og segja eitthvað, áður en ég fór í ræðukeppnir var það mjög stressandi tilhugsun.

Þetta þykir almennt mjög mikilvægur eiginleiki í samfélaginu og áfangar í framhaldsskóla ganga stundum út á að þróa þennan hæfileika með fólki. Morfís gerir það vel.

2. Kennir fólki gagnrýna hugsun. Við að taka þátt í rökræðukeppni lærir maður að líta á allar hliðar og sjá hvað er bogið við málflutning annarra. Ef maður er t.d. með óvenjulegan pól lærir maður að það eru, jú, til rök með og á móti næstum öllu.

3. Æfir keppendur í rökræðum. Hvað svo sem þú kannt að halda eiga sér stað rökræður í ræðukeppnum, þar sem t.d eru skrifuð mótrök við málflutningi andstæðinganna á staðnum. Fyrir utan þann óheyrilega tíma sem fer í að búa til ræður fyrirfram. Heilinn er vöðvi, Morfísrökræður þjálfa keppendur í alvöru rökrænni hugsun.

4. Maður æfist mjög mikið í að skrifa texta. Óumdeilanleg framför verður á getu þeirra sem skrifa ræður til að skrifa hverskyns texta, orðaforði eykst, málfar helst í góðri æfingu, uppbygging lærist og fólk lærir að skrifa áhrifaríkan texta þegar með þarf, þetta er mjög gagnlegur hæfileiki í lífinu.

5. Hvað svo sem þér kann að finnast um það eru margir skemmtikraftar, sjónvarpsmenn/konur og stjórnmálamenn/konur komin úr Morfís. Það er vegna þess að þau kunna að koma fram, kunna að færa rök fyrir máli sínu og kunna að koma vel fyrir. Ekki vegna innihaldsleysi og spillingar.

6. Morfís er skemmtilegt, veitir ótalmörgum framhaldsskólanemendum, keppendum, áhorfendum og öðrum aðstandendum ómælda ánægju.

Ég held þessu fram: Morfís þjálfar ekki það sem einhvers er vert. Keppnin þjálfar skrílslæti, múgæsingu og notkun hentiraka málflutningi sínum til stuðnings. Það er fráleitt að keppendur séu að ræða sín hjartans mál, færa rök fyrir einarðri skoðun sinni. Eina ástæða þess að menn semja um málefni fyrir keppni er að menn vilja augljóslega af praktískum ástæðum hafa eitthvað um það að segja hvað ræða á. Gangi samningaþófið ekki er mönnum úthlutað málefnum til að hafa skoðun á. Þetta útilokar að sjálfsögðu ekki tilvist hugdjarfra einfeldninga sem eru ekki dýpri en svo að það sannfæringin er auðsveipur rakki nærtækustu viðfangsefnanna. Þeir eru vafalaust í Morfís af fullri sannfæringu, en aðeins vegna þess að þeir hafa bilaða sannfæringu, eru jaðarþroskaheftir.


Viktor setur samasemmerki á milli þess að sitja undir einhverju og að grípa ekki fram í. Að dómarafíflið Kristinn hafi einfaldlega notið góðs af mannasiðum, fengið að rasa sína þvælu því viðstaddir kunnu ekki við að trufla hann. Þetta gengur ekki upp. Það sagði enginn neitt, hvorki á meðan, né eftir ræðu hans. Það sagði enginn neitt vegna þess að það sem hann sagði var ekki lengur innan ramma keppninnar, menn höfðu gasprað fylli sína. Stundum heldur karpið áfram en þá aðeins vegna þess að einhverjir eru ósáttir við tapið og vilja sigurinn - ekki af umhyggju gagnvart málefninu.


Talandi um umhyggju gagnvart málefninu. Hún er ekki til hjá Morfís. Hún er andstæð þeirra hugmyndafræði. Morfís er þjálfun í að finna rök með eða á móti gefnum málstað, ekki keppni í að finna og verja markverðan málstað. Tölusettir liðir Viktors vísa því til þjálfunar ákveðinnar tegundar af fólki. Fólks eins og Sigurðar Kára, Gísla Marteins, Helga Hjörvars o.fl. Fólk sem með fagurgala eða grimmum vaðli gjammar í allar áttir rækilega hlekkjað við hugsjónahúsbóndann. Það að Morfís hafi á einhvern hátt glætt slíkt fólk, hvatt það til að hafa sig í frammi er því ekki til hróss, heldur kyrfilega til hnjóðs. Að Morfís sé sleggjan sem mölvar skelina utan af óframfærnum menntaskólanemendum er enn ein ástæðan til að leggja fyrirbærið niður. Hræðslan við að koma fram er undantekningalítið tilkomin vegna þess að menn hafa einfaldlega ekkert fram að færa. Þegi þeir frekar! Morfís, hinsvegar, villir um fyrir þessu fólki. Lætur það halda að það eigi erindi á pall með þekkinguna í hripum. Morfís ræktar fíflin sem Russell talar um.


Viktor sver af sér bullustokkana í Morfís. Aulana sem beita reyk og speglum og hafa aðeins það sem betur hljómar. Hann segir að það sé nú málfrelsi á Íslandi (lesist: nema þegar oddadómari talar). Morfís er keppni. Að skrifa heilalausu göbbelsku fíflin á frjálsan vilja er fráleitt. Að dæma hina raunverulegu framkvæmd Morfís á tilfallandi ódæla keppendur er enn fráleitara. Svona álíka og KSÍ bæri af sér nokkra ábyrgð á fólki sem hefði bara svo óskaplega gaman af því að handleika fótboltann á miðjum vellinum.


Morfís er viðurstyggilegt, andlaust þvaður. Framhaldsskólanemendur eru einhverjir þeir andstyggilegustu múgar sem finnast á Íslandi. Þurfi einhver frekari sönnun þess er nóg að horfa á þetta myndband og spyrja sig „Þurfum við meira eða minna af svona fólki?“ (Áhorfendur ekki undanskildir):



Það er guðs blessun að flestir vaxa upp úr Morfís, a.m.k. þeir sem innihalda það sem kalla má vitsmunalíf. Stórkostlega hættan er þegar viðrini eins og Sigurður Kári gerir það ekki og kemst til áhrifa.

22 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Stundum held ég að þú sért ég. Ekki alltaf samt. Morfís er krabbamein á þjóðinni.

kv. Reykspeglagler

Nafnlaus sagði...

Ég fullyrði í krafti persónulegrar reynslu minna, ástvina minna og kunningja að Morfís þjálfi bara víst upp þau atriði sem ég taldi upp í þessu svari mínu. Að þú neitir því á grundvelli "persónulegs sjónarmiðs" er fremur hallærislegt.

Skrílslæti, múgæsing og hentirök eru vissulega pirrandi hlutir sem stundum koma fram í Morfís, en það sama gildir um raunverulegar rökræður, ég sagði aldrei að Morfís væri fullkomið og algjörlega laust við alla galla mannlegrar rökræðu.

Þér verður á að alhæfa það yfir alla Morfís vegna þess að þú hefur séð keppnir sem innihalda það og notar því til stuðnings myndband af keppni sem var talin langt undir meðallagi af flestum þínum hötuðu Morfísnördum.

Hvers vegna kastarðu fram þeirri fullyrðingu að fráleitt sé að Morfísræðumenn ræði sín hjartans mál í Morfís? Flestöll þau dæmi sem ég hef komið að eru um akkurat hið gagnstæða.

Ég held að þú skammist þín einfaldlega fyrir að hafa haldið að umræðuefnin væru dregin upp úr hatti en þorir ekki að viðurkenna mistök þín. Þess vegna ertu komin út í að fullyrða um nokkuð sem þú veist að þú hefur ekki hundsvit á. Greyið.

Einnig gagnast ræðukeppnir þó líka þó umræðuefnum sé úthlutað því öllum er hollt að sjá að rök eru fyrir hinum ótrúlegustu hlutum og jú, það er hægt að rökræða hvað sem er. Það eru þó einangruð tilvik, en auðvitað snýst þetta líka út á listina að finna og koma fram góðum rökum fyrir hinum ýmsustu málefnum á sem skilmerkilegastan hátt. Þetta er ekki raunin í sjálfri Morfís nema til neyðarástands komi, gerist þó í innanskólaræðukeppnum og grunnskólakeppnum.

Ég held nú bara að almennur málskilningur setji samasemmerki milli þess að "sitja undir einhverju" og að segja ekki múkk, þegar um ræður ræðumann upp í pontu gagnvart sitjandi fólki :). Hafirðu hinsvegar meint eitthvað annað var þér velkomið að leiðrétta það mismæli án leiðinda. Hins vegar er þín persónulega skoðun á orðum mannsins ekki gild sem almenn sannindi.

Auk þess dreg ég stórlega í efa hæfi þína til að segja til um hvort kvartað var undan þessu í Morfísheiminum eða í einkasamtölum eftir keppnina. Til að sýna þér dæmi þess þegar oddadómari var gagnrýndur þrátt fyrir að keppninni væri lokið. Það samrýmist hugmyndum þínum því miður ekki.

Ég hélt með sigurliðinu í þessu tilviki en rökræddi þó umræðuefnið lengi vel eftir á. Og fleiri frá báðum hliðum jafnt sem hlutlausir. Skrítið? Þú ert bara í ruglinu.

Hmm... Ok, eins og ég hef áður gert þér ljóst er umhyggja fyrir umræðuefninu mjög oft ráðandi í Morfís. En jafnvel þó við tökum burt þá staðreynd. Hvað væri að því að æfa fólk í að koma fram, semja texta og færa rök fyrir máli sínu? Bara andskotann ekki neitt.

Mér þykir leitt að segja þér það en persónuleg biturð þín gagnvart ákveðnum stjórnmálamönnum hefur þar ekkert að segja sem mótrök. Stjórnmálamenn og skemmtikraftar hvaðanæva að eru ræktaðir úr Morfís.

Ég mundi segja að þú sýnir fram á ómælanlega barnalega hugsun og næstum fyrirgerir þér rétti á mótrökum þegar þú fullyrðir að fólk sem þori ekki að koma fram þori því ekki vegna þess að það hafi ekkert fram að færa... Þessi fáfræði dæmir sig sjálf.

Morfís ræktar fólk sem þorir að koma fram og segja sína skoðun. Morfís eykur líka þekkingu og gagnrýna hugsun. Þín djöflamynd af Morfís er einfaldlega barnaleg og einfeldningsleg.

Ekki sé ég hvernig þú færð út úr orðum mínum að oddadómarar eigi ekki að njóta málfrelsis.

Ég sver þá ekki af mér, þeir hafa rétt á þátttöku í Morfís og verða þá dæmdir eins og þeir verða dæmdir. Auðvitað hef ég verið ósammála dómum í gegnum tíðina en sú staðreynd leyfir þér einfaldlega ekki að dæma keppnina í heild sinni.

Morfís er einfaldlega það sem það er, keppni í mælsku og rökræðulist. Sem slík er hún bullandi jákvæð, þér nægir ekki að nefna nokkra pirrandi ræðumenn sem dæmi um hið gagnstæða.

Ég hef heyrt lið í Gettu Betur sem svara nær engu en taka því létt og grínast. Er mér leyfilegt að dæma Gettu Betur út frá því? Eða er mér yfirhöfuð kannski bara ekki leyfilegt að dæma nokkra stofnun eða keppni út frá einstökum þátttakendum hennar?

Lokaummæli þín endurspegla óþroskað viðhorf gagnvart framhaldsskólanemum í heild sinni.

Þau segja einmitt ýmislegt um viðhorf þitt í heild sinni.

Mér sýnist skoðun þín einfaldlega sprottin úr sorglegri biturð gagnvart Sigurði Kára og framhaldsskólanemum.

Keppnina sem slíka má alltaf bæta, eins og hvað annað, enda er erfitt að gera fullkomna og sanngjarna keppni í rökræðum og mælskulist. En við reynum.

Á meðan er þér velkomið að sitja hjá og blogga bitur blogg um hversu viðurstyggilegt, andlaust þvaður þetta sé nú allt saman.

Verði þér að því.

Mengella sagði...

1. Ég neitaði aldrei númeraða listanum þínum, ég sagði að atriðin væru fánýt því grunninn vantaði undir.

2. Morfís er ekki stórt, gælið spendýr sem glímir við meinlitla en aðsópsmikla óværu. Morfís er óværan.

3. Þú veist ekkert hvað ég hef eða hef ekki séð.

4. Það er augljóst að menn ræða ekki sín hjartans mál. Það sjá allir nema manngerðin sem ég nefndi, sú sem lætur tunguna teyma hjartað í bandi.

5. Að draga umræðuefnin úr hatti var myndlíking. Þú veist annars ekkert um hvað ég hugsa eða held, annað en það sem ég beinlínis fullyrði.

6. Það, sem ástundað er í Morfís, er engum hollt. Það á næsta lítið skylt við almennilega rökræðu, það er hörmung og andlega forheimskandi.

7. Réttur málskilningur leggur mun víðtækari merkingu í „að sitja undir einhverju“ en að þegja nákvæmlega meðan einhver er að ljúka sér af.

8. Í „Morfísheimum“! Þú skilur enn ekki punktinn. Að rökræða fram og aftur í pontu en þegja eins og kirkjumús þegar upp kemur raunverulegt viðfangsefni er hörmung.

9. Hef aldrei dregið í efa að þú ert einn af hinum hugdjörfu einfeldningum.

10. Klifun. Ekkert nýtt hér.

11. "Stjórnmálamenn og skemmtikraftar hvaðanæva að eru ræktaðir úr Morfís."

Álíka glæsileg ferliskrá og hjá Breiðuvík.

12. Ég endurtek: Óframfærið fólk á að þegja. Morfís traðkar á þeim skynsemissannindum. Býr til framfærin fífl.

13. Það er ekkert merkilegt við að þora að segja sína hugsun ef hún er ekki pappírsins virði sem hún er skrifuð á. Morfís missir enn af aðalatriðinu.

14. "Ekki sé ég hvernig þú færð út úr orðum mínum að oddadómarar eigi ekki að njóta málfrelsis."

Ég skil ekki hvernig þú lest ofangreint úr orðum mínum.

15. Fífl vaða uppi í Morfís, eru ekki krydd í annars heillandi keppni.

16. "Morfís er einfaldlega það sem það er, keppni í mælsku og rökræðulist. Sem slík er hún bullandi jákvæð"

Gerir þú þér grein fyrir hversu öskrandi þessi rökvilla er?

17. Ekki láta mig byrja á Gettu betur. Sama ógeðið.

18. Hlustaðu á skrílinn fagna í lok myndbandsins. Viðbjóðslegur múgur.

19. og áfram...

Klifun. Klifun. Klifun.

Nafnlaus sagði...

Þetta er bara farið að minna á púltskjálfandi Morfís-keppni. Það er annars furðulegt að þeir sem þykjast vita allt, búa yfir fordæmingarafli til að hrækja á hvaðeina sem á vegi þeirra verður og ímynda sig háfleygasta allra – þeir hafa venjulega ekkert fram að færa nema reiði sína. Inntak þess sem þeir segja er alltaf: Ég er reiður. Hinn reiði kemur heldur aldrei með uppástungur að betrumbótum af þeirri einföldu ástæðu að hann veit að það er alltaf miklu auðveldara að pota í allt en að gera betur. Þetta er fólk sem jórtrar á eigin ágæti einsog skepnur af ætt slíðurhyrninga með því að sjá heimsku í hverju horni – jafnvel í svo saklausum leik og Morfís.

Reynolds.

Hildur Lilliendahl sagði...

Ég fyrirgef þér seint að hafa set þetta myndband hingað. Ég jafna mig ekki á aulahrollinum. Eins ætla ég alls ekki að fyrirgefa þér að setja mig í samhengi við Barnaland. Þetta er lygi segi ég!

Mengella sagði...

Var það „Gettu betur“ kommentið sem kveikti í þér, Stefán?

Ágúst Borgþór sagði...

Fullorðið fólk að amast við ræðukeppni unglinga, í löngu máli og eyðir miklum tíma í það. Er búið að hækka atvinnuleysisbæturnar? Örorkubæturnar?

Hildur Lilliendahl sagði...

Hugsaðu nú málið Ágúst. Finnst þér líklegt að penni á borð við Mengellu lifi á örorku- eða atvinnuleysisbótum? Eða var þetta bara svona skemmtiskítkast?

Mengella sagði...

Ágúst, þetta heitir kurteisi. Að taka slaginn þegar manni er andæft. Þetta heitir einnig hugrekki. Lýsir sér til dæmis í því að loka ekki kommentakerfi sínu á ljóshraða í hvert skipti sem maður fer af bæ eða á mann er skotið.

Hverskonar bjálfaspurning var þetta annars? Hví ættu atvinnulausir eða öryrkjar að eyða meiri tíma í áhugamál sín ef bæturnar hækka? Þeir eru jafnatvinnulausir eða bæklaðir á lágum bótum. Hafa jafn langan tíma aflögu.

Varstu kannski að meina ritlaun?

Nafnlaus sagði...

1. Þú neitaðir víst, sagðir að "Morfís þjálfaði ekki það sem einhvers væri vert". Hvaða grunn ertu að tala um? Þú gerir hér lítið úr þeim atriðum sem ég var að tala um, þær einar og sér væru feikinóg réttlæting fyrir Morfís og öllu sem henni tengist.

2. Að hvaða leyti? Það er einmitt þessi fullyrðing sem er svo órökstudd, þú viðurkennir alla þá kosti sem ég taldi upp hér en segir samt að "Morfís sé óværan". Þetta gengur ekki upp hjá þér.

3. Satt, ég sá hinsvegar hvaða keppni þú gafst sem dæmi og þú hefur þá kannski gefið vísvitandi dæmi um lélega keppni til að villa um fyrir lesendum?

4. Þú getur haldið áfram að trúa því án rökstuðnings að vild. Ég hef verið viðriðin þær nokkrar og veit þess vegna hið gagnstæða. Mótmæli þín sýna fram á þrjósku frekar en nokkuð annað.

5. Já og það sem þú beinlínis fullyrðir er nógu fáfrótt til að ég dragi dóm af þeim fullyrðingum. Myndlíking... sú myndlíking hefur þá verið röng á alla vegu.

6. Fleiri innihaldslausar fullyrðingar. Ég minni á að þú sættist á lista minn í 1. og ógildir þar með þessa ómerku fullyrðingu.

7. Þegar þú talar um hóp af fólki sem sat í sal meðan oddadómari talaði og "sátu undir þessu og sögðu ekki múkk" þá geturðu erfiðlega snúið út úr því. Auk þess vil ég minna á að þú veist ekkert um hvað sagt var eftir á í einkasamtölum.

8. Það er ekki gott, en mistök þín eru að gera ráð fyrir að svo gildi um Morfísræðumenn. Í Morfís er rætt um innflytjendamál, feminisma, lögleiðingu fíkniefna og fleira. Og svo fara margir þeirra út í stjórnmál í framtíðinni, sem þér er svo illa við. Smá mótsögn.

9. Ódýrt skot. Ég svaraði fullyrðingu þinni þess efnis að aðeins tapsár taplið rökræddu eftir á og þú snýrð því upp í kjánalegt skot. Þú ert komin út í horn.

10. Þú getur kallað þetta hvað sem þú vilt ef það gefur þér frið, það sem skiptir máli er að þetta er rétt.

11. Vó, hnyttin, þér tekst á undraverðan hátt að snúa þeirri staðreynd að Morfís rækti skörunga í samfélagið í feitt flipp sem gerir það að verkum að allir eru sammála þér... Frábært, alveg.

12., 13. og 15.Þú dæmir hér alla sem tekið hafa þátt í Morfís sem heimskingja sem hafa aldrei skoðun eða þá illa ígrundaða. Þú dæmir þig sjálfa mun betur þar með.

14. "Lesist: Allir nema oddadómari"

16. Nei, þú dæmir Morfís fyrir það að þú hafir séð nokkra sem nota hana á pirrandi hátt.

17. Ég gæti tekið nær hvað sem er, Gettu Betur var bara dæmi, býst við að það sé lélegt dæmi fyrir þig í ljósi þess að þú virðist hatar allt tengt framhaldsskólum.

18. Já, því framhaldsskólanemar fagna aldrei. Fólk fagnar aldrei, þú ert komin í sjálfheldu að gagnrýna fólk fyrir að fagna, eru allir sem fagna yfir íþróttum, keppnum eða atburðum villimenn?

19. Ég sé nú að skoðun þín er einvörðungis mynduð á illa ígrunduðum alhæfingum yfir alla framhaldsskólanema og biturð gagnvart stjórnmálamönnum. Þú gefur sterklega í skyn að allt sem framhaldsskólanemar geri sé heimskulegt og hafi enga merkingu. Slíka manneskju er ekki hægt að rökræða við, þú munt að öllum líkindum aldrei hlusta á rök þar sem þú hefur svo fyrirfram mótaða skoðun byggða á fáfræði.

Ég vorkenni þér.

Mengella sagði...

Maður hefði nú haldið að ef Morfís þjálfaði rökskynjun jafnrækilega og þú vilt meina að þú værir farinn að skilja það sem ég hef sagt.

1. Þennan punkt skilurðu ekki. Þú veist ekki hvaða grunn ég er að tala um. Með því sannarðu að það sem ég hef sagt um Morfís er rétt. Lestu betur, skildu og skrifaðu svo.

2. Nú skal ég tyggja þetta ofan í þig. Allir þeir kostir sem þú telur Morfís hafa eru hjóm eitt miðað við það að finna og vernda skynsama skoðun. Þetta hjóm er aðalatriði Morfís. Morfís leitar ekki hins sanna, heldur hins fagra (og ræður ekki við það heldur). Þeir einu sem halda öðru fram (lesist: þú) kunna ekki greinarmuninn á þessu tvennu.

3. Þessa keppni vísaðir þú sjálfur á. Ég valdi hana ekki.

4. Enn ein rökvillan. Kanntu að finna hana?

5. Hreint ekki röng myndlíking. Heldur hárrétt.

6. Ég hef aldrei sagt að upptalning þín sé á dygðum, þvert á móti á hjómi. Þú ert ekki að grípa þetta.

7. Það skiptir engu hvað sagt er í einkasamtölum. Dæmið er kýrskýrt eins og það er.

8. Hreint engin mótsögn, þótt þér sé ómögulegt að skilja það öðruvísi.

9. Það ert þú sem dregur sinni þitt, reynslu og trú hvað eftir annað í umræðuna. Af orðum þínum er þetta rökrétt niðurstaða, ekki skot.

10. Ef það gefur mér frið?

11. Skilgreining þín á skörungum segir í raun allt sem segja þarf um ágreining okkar. Ég kalla þetta sama fólk meinsemd og þátt Morfís í ræktun þess óværu.

12., 13. og 15. Það voru vafalítið einhverjir í Hitlersæskunni sem fíluðu félagsskapinn og leikfimina og urðu hið vænsta fólk. Það hefði betur fundið sér merkilegri vettvang. Sama gildir um Morfís.

14. Þetta skilur þú ekki. Lestu betur.

16. Þetta er ekki svar við spurningunni. Önnur rökvilla.

17. Gettu betur er mein að sama skapi. Ekki lögð áhersla á vitneskju eða þekkingu sem ristir djúpt. Heldur allur dampur á uppskafningu og yfirborðskenndu rausi.

18. Hlustaðu betur. Þetta eru ekki fagnaðarlæti. Þetta eru skrílslæti og öskur.

19. Hreint ekki. Til eru afbragðsframhaldsskólanemendur þótt ég efi að þú rekist oft á þá. Þeir koma hvorki nálægt Morfís, Gettu betur né hafa dálæti af því að vera ofstækisfullar hópsálir sem ala á hatri í garð annarra skóla og öskra eins og villimenn við minnsta tilefni, jafnvel lélegar ræður - eins og þú kýst að kalla þær.

„Ég vorkenni þér.“

Hverskonar fíflakomment er þetta?

Kemur hérna sveiflandi lampanum eins og sú lafði Náttgali sem þú ert. Opinberar að þú ert afar blautur á bak við eyrun í rökfærslum, heldur varla þræði, misskilur einfaldar setningar og setningahluta. Missir þig trekk í trekk í afkáralegar sleggjur eins og þá að ég sé bitur eða með smáan sjóndeildarhring, skilur ekki grundvallardeiluefnið (sbr. Hvaða grunn?) og reynir (af afar veikum mætti) að sýna mér yfirlæti!

Hvernig væri nú að þú tækir tilvistarkreppuna út á hefðbundinn hátt. Hví gengurðu ekki í Amnesty eða Greenpeace eða kaupir þér rákótt jakkaföt og hring með lógói skólans þíns?

Eitt er ljóst. Rökræður fara þér ekki vel.

Hér er smá æfing sem varðar listaupptalningu þína. Ef þú vilt sýna fram á að A sé heppilegt (H) þá er ekki nóg að segja bara:

A -> B
af því leiðir H.

Fyrst þarft þú að sýna fram á B -> H.

Það hefur þú ekki gert.

Því þú skilur þetta ekki.

Ert of yfirborðskenndur.

Líklega skemmdur af Morfís.

Þótt þú sért vafalaust einlægur.

Þess vegna skrifast þetta á einfeldni þína.

Ágúst Borgþór sagði...

Hildur: Ég þekki nákvæmlega fullt af fólki sem er vel menntað og vel skrifandi og er einmitt í þeirri stöðu.

Nafnlaus sagði...

Þú ert í óumdeilanlegri mótsögn við þig í öllu þessu svari.

Hversvegna? Jú, þú sakar mig um einfeldni, grunnan skilning á rökræðum og hroka byggt á engri undirstöðu. Þú hengir þig á þá leiðu trú þína að Morfísræðumenn geti ekki rökrætt þegar þú ert komin í þrot í rökræðunum.

1. Jú, grunnurinn er augljóslega þessi "sannfæring" sem þú tönnlast á, en það sem ég var að segja er, hvers vegna er ekki nóg, og hreint út sagt gott og blessað að hafa keppni sem þjálfar upp þessa mikilvægu hluti daglegs lífs? Hvers vegna þarf þetta að vera keppni í sannfæringu?

Þetta er það vissulega ekki alltaf, en hvað með það, fyrirgefðu? þú baðst mig um að telja upp kosti við Morfís og ég gerði það, nóg af þeim, mikilvæga kosti sem þú mótmæltir ekki. Flýrð hinsvegar í þá fullyrðingu að þetta sé ekki nóg. Nei, þeir þurfa að vera að berjast fyrir málstað líka.

Fyrir utan það, eins og ég hef margoft tekið fram (og þú talar um að tyggja ofan í) eru Morfískeppnir oft byggðar á sannfæringu. Ég er persónulegt vitni þess. Ekki reynirðu að telja mér trú um annað?

2. Þú getur ekki fullyrt neitt um það. Eins og margoft hefur komið fram er ég ósammála og ég þykist hafa meiri kynni af Morfís en þú.

Þetta "hljóm" er vissulega gott og gilt í sjálfur sér en skynsemin er oft höfð í hávegum. Þú munt ekki telja mér trú um annað og líklegast engum sem þekkir almennilega til keppninnar. Eftir standa þú og aðrir sem þrjóskast við að hata Morfís og framhaldsskólanema.

3. Rangt, talandi um rökvillur, ég vísaði á umræðuna í kjölfarið sem sönnun þess að oddadómarar eru oft gagnrýndir eftir störf sín. Keppnin sjálf skipti í raun engu.

4. Persónulega finnst mér fólk sem er upptekið af rökvillulistum ekkert meira heillandi í rökræðum, þó þér finnist þú eflaust mjög gáfuð. Ekki kann ég því nöfnin á einstökum rökvillum en þekki það sem þú kýst að flokka undir rökvillu.

Það sem þú gleymir að taka með í reikninginn er það að þarna var ég að svara rökleysu. Þú fullyrtir nokkuð sem ég var löngu búinn að svara en sá að þú munt halda í þá trú þína. Þess vegna er ekkert eftir að gera en að segja þér að þú megir trúa því en ég telji mig vita betur og ef þú trúir ekki að ég hafi þá reynslu þá er lítið við því að gera.

5. Skoðum það þá aðeins. Ef við erum góð við þig og leyfum þér að halda þig við þá sögu að þetta hafi verið myndlíking hjá þér.

Að draga upp úr hatti er líking við það að einhverju sé úthlutað af fullkomnu handahófi.

Raunin sem þú reyndir að líkja við er sú að ræðumenn og þjálfarar eyða mörgum klukkustundum í að semja um umræðuefni sem þeir vilja ræða um og oftast eitthvað sem þú hefur trú á.

Þar með er myndlíkingin gjörsamlega fallin.

6. Ég gríp þetta nægilega, þér finnst þau atriði sem ég taldi upp ekki mikilsverð. Það sem ég benti hinsvegar á hér er að þú neitaðir þeim ekki.

Það sem þú gerðir var að segja að 6 stórir kostir væru ógildir vegna þess að að þínu mati var einn kostur mögulegur sem Morfís hefði ekki. Þú virðist hrifin af rökvillum, hvort sem er að beita þeim eða benda á þær.

Þú semsagt viðurkenndir kostina en gerðir lítið úr þeim vegna þess að það vantar að þínu mati grunninn.

7. Skiptir það engu? Þinn málflutningur byggðist á því að enginn hefði sagt múkk því þeim væri alveg sama um umræðuefnið. Það sem ég bendi á er að þú veist ekkert um það vegna þess að eina viðmiðið sem þú hafðir var að enginn greip fram í fyrir honum og svo einkasamtöl þín eftir á. Þau ná ekki yfir nógu víðan völl til að þú megir með réttu fullyrða neitt þessu líkt.

8. Mótsögn í nokkuð skýrri mynd.

Annars vegar skammar þú Morfísræðumenn fyrir að hafa enga sannfæringu og að berjast ekki fyrir málefnum.

Hins vegar skammast þú út í Morfís fyrir að ala af sér stjórnmálamenn og skemmtikrafta sem þér líkar ekki við.

Mótsögn, mengella, mótsögn.

9. Að sjálfsögðu dreg ég mína reynslu sem dæmi. Ég er hluti af Morfís og ég er sönnun þess að ýmsar fullyrðingar þínar séu rangar. Hvers vegna má ég ekki benda á það? Reynsla mín er með nærtækari og öruggari reynslum sem ég gæti nefnt þér.

10. Já, þar sem þú ert líklega farin að gera þér grein fyrir vonleysi rökræðunnar sem þú komst þér út í með illa ígrunduðu skítkasti á mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskólanna.

11. Eru þeir sem skara fram úr í stjórnmálum, fjölmiðlum og öðru ekki skörungar?

Skörungur = Sá sem skarar fram úr.

Eyrún Magnúsdóttir, Inga Lind og Sigurður Kári eru ekki einu dæmin, en þetta eru allt skörungar, hvernig sem þér líkar við persónulegar skoðanir þeirra.

12., 13. og 15. Fyrst þú ert öll í rökvillunum mætti nefna að þú beitir hér strámanni. Rökvilla. Þú ræðst á eitthvað allt annað en Morfís og virðist trúa að það sanni mál þitt. Ódýrt.

14. Nei, takk, nóg er um pirrandi bull í þessari umræðu til að ég leiti eftir fleiru.

17. Ég ætla ekki út í rökræðu við Gettu Betur við þig, þó þú virðist ólm til þess til að forðast punktinn í þessu atriði.

18. Sama gæti hver sem er túlkað úr öllum fagnaðarlátum. Auðvitað eru tilfinningar og ástríða í hjörtum fólks. Annað væri óeðlilegt. Þetta er í raun með leiðinlegri skotum sem ég hef séð á Morfískeppnina. Að fólk megi ekki fagna? Ertu ekki að grínast?

19. Þú ruglar hér á hættulegan hátt saman hatri og keppnisskapi. Morfís og Gettu Betur ala alls ekki á hatri heldur heilbrigðri samkeppni. Það að halda því fram að einu góðu framhaldsskólanemarnir séu þeir sem við sjáum ekki endurspeglar í raun fáránleika málflutnings þíns.

Þeir sem keppa í ræðukeppnum og spurningakeppnum og þora að koma fram eru athyglissjúkir, yfirborðskenndir bjánar? Hér þykir mér lykta af persónulegri biturð sem hafi verið vandlega ræktað um langt skeið.

Tilraunir þínar til að hanka mig á "rökvillum" og sýna þannig alþjóð fram á hversu lélega rökræðumenn Morfís ræktaði var vægast sagt sorgleg.

Allar þær "rökvillur" sem þú bentir á stóðust ekki nánari athugun og þú lítur gjörsamlega fram hjá eigin einfeldni.

Þú kastar fram fullyrðingum á borð við að ég misskilji þig, missi mig trekk í trekk og haldi varla þræði auk þess að misskilja grundvallarefnið. Ég neita. Rökræða okkar á þessari síðu er mér nægur vitnisburður.

Á móti fullyrði ég að skoðun þín er mótuð af vanhugsuðum fordómum gagnvart keppni sem þú hefur greinilega bara kynnst á yfirborðinu. Þar með er hún mynduð af lítilli reynslu sem hratt af stað hugsanaferli sem leiddi þig að þeirri ályktun að Morfís væri hræðilegt.

Þessari hugsanavillu neitar þú síðan að sleppa því þér er um og ó yfir tilhugsununinni um að "einn af þeim" sigri þig í rökræðum.

Þá grípur þú til þess að fara í innantómt rökfræðisnobb án ástæðu.

Þú segir að ég sé í tilvistarkreppu og ætti að fara í Amnesty. Það er ágætis hugmynd, kannski einn daginn. Nú ætla ég hinsvegar að einbeita mér að því að fara í framhaldsskóla. Ég er hinsvegar ekki í tilvistarkreppu og ekki sérlega hrifinn af GreenPeace.

Hroki. Æj... vá, hroki. Ég held að sú staðreynd að ég hrakti einfaldlega allt þitt rökvilluþvaður segir allt sem segja þarf.

Ert þú semsagt að setja mér þau skilyrði að sýna fram á að þessi 6 atriði sem ég sýndi þér fram á séu kostir? Hér bendi ég þér á eina mest notuðu (aðallega meðal samsæriskenningasmiða) og mest þreytandi rökvillu sem notuð er. Óraunhæfar kröfur um sönnunarbyrði.

Þú ætlast til að ég sanni allt í þaula til að mæta þínum kröfum um rökræður. Ef þér er ekki ljóst að atriðin 6 sem ég taldi upp séu kostir og hafi þannig, sem kostir, jákvæð áhrif á samfélagið, mun ég ekki eyða tíma í að útskýra fyrir þér.

Það blasir við hverjum sem sjá vill og ég er þegar að eyða nógum tíma að hrekja allar ásakanir þínar um rökvillur og þínar fáránlegu alhæfingar um Morfís.

Ekki ætla ég að fara að eyða tíma í að útskýra lífsins sannindi fyrir þér.

Miðað við fyrri reynslu af rökræðu við þig mundi það taka óratíma og líklega engin áhrif hafa á þinn fastmótaða huga.

Í lokaorðum þínum koma skýrt fram fordómar þínir gagnvart mér í þessum rökræðum sem skyggja á dómgreind þína. Ég er viðriðinn Morfís.

Ég mótmæli rökleysu þinni. Þá staðreynd virðist þú ekki geta afborið.

Nafnlaus sagði...

Og þar með er það sannað. Viðurstyggilegt andlaust þvaður.

Eiríkur Örn Norðdahl sagði...

Mér finnst eiginlega voðalegast í þessu öllu saman hvað Morfísmaðurinn virðist eiga erfitt með að koma máli sínu frá sér á skýran hátt. Ég hélt að ef það væri eitthvað gott sem maður gæti numið af þessari blessuðu keppni (sem ég hef ekki gerst svo frægur að sjá nema einu sinni - en hugmyndafræði ræðulistarinnar finnst mér ansi grátleg) þá væri það að koma málum frá sér tiltölulega óbjagað. Það virðist hins vegar misskilningur.

Hvað varðar Mengellu þá grunar mig hún sé hvorki öryrki né "fullorðið fólk". Ég ætla að skjóta á að þetta sé Dakota Fanning, sú elskulega stúlka, með yndislega tannlausa brosið.

Nafnlaus sagði...

Voðalegast í þessu öllu er að maður verður að horfa upp á uppreisnarmenn nútímans berjast gegn Morfís. Nú er bara að takast á við Sólskríkjusjóðinn eða föndurhorn leikskólanna næst. Og ef byrjað er að þrugla um að Morfís sé rót alls ills, þá er heimurinn orðinn sturlaður. En svona í stuttu máli þá hefur þú ekkert vit á þessu, Mengella, og mér sýnist þú aðeins snúa upp á sperrilegginn á þér í þessum deilum og sprauta úr eigin sálarkaunum. Þú minnir mig dálítið á grófútskorinn Lugtar-Gvend, sem finna má á einu safninu hér í bæ, því þú ert álíka trénuð í hausnum og hann - en – að vísu - ólíkt honum, þá hefurðu enga lugt. Þú lýsir sjálfri þér eingöngu áfram villur vegar með myrkrinu sem býr í hausnum á þér og ferð í hringi við að elta reiði þína. Að tala við þig um Morfís er eins og að ræða við Jósef Mengel um afnám mannfórna þegar Manco Capac réði Inkum. - Það er þó alveg eins víst að hann hefði sýnt afnáminu einhvern skilning, en allt jákvætt í sambandi við Morfís er þér lokuð bók. Þú gerir líka allt of mikið úr áhrifum þess.

Reynolds

Eiríkur Örn Norðdahl sagði...

Oj föndurhorninu. Oj því!

Mengella sagði...

Reynolds (Stefán),

það er ekki von að þér sárni atlaga að Morfís. Maður sem enn þrífst í félagsskap og menningu menntaskólaáranna. Hefur af því óskaplegt gaman að þykjast gáfaður innan um börn og unglinga.

Þetta snýst ekki um áhrif Morfís, þetta snýst um tilgang þess og hugmyndafræði. Sem er sú sama og í Gettu betur. Forheimskandi yfirborðsmennska.

Nafnlaus sagði...

Jújú, yfirlýst stefna Morfís er einmitt að leitast við rækta af sér spilta og óhgugsandi stjórnmálamenn. Sjáið bara lagabálkinn á morfis.is. Óneitanlega var keppnin stofnuð með það í huga og gjörvöll keppnin byggir á þeirri ágætu leitun.

Þú ert í ruglinu. Hugmyndafræðin sé vond? Að kenna framhaldsskólanemum betur að koma fram, semja texta og rökræða svo fátt eitt sé nefnt?

Varðandi athugasemd við rökræðustíl minn er mér venjulega ekki of erfitt að hafa hann stuttan þegar ég vil, en persónulega hef ég stundum gaman af ítarlegum rökræðum á skrifuðu formi. Þá venjulega utan Morfís. Hinsvegar er alveg ljóst að þessi umræða er orðin alltof löng.

Held líka að flestallar skoðanir okkar séu fram komnar

Nafnlaus sagði...

Talandi um "viðurstyggilegt,andlaust þvaður"
Það er í stuttu máli það sem ég les út úr skrifum Mangella,Upphafið þrautleiðinlegt blaður.Einka skoðanir sem eru í flestu óáhugaverðar

Mengella sagði...

Manneskja sem hvorki kann greinamerkjasetningu né að skrifa orðið: „einkaskoðanir“ ætti nú að fara varlega í að dæma skrif annarra.

Nafnlaus sagði...

Hér þykir mér skína í gegn málþófssnobb af hálfu Mengellu, keimlíkt því og hún virðist álíta Morfís innihalda.

Þú horfir fram hjá því sem herra nafnlaus sagði og gagnrýnir hann í stað þess fyrir hvernig hann skrifaði það.