27. október 2007

Til Matta

Matti vantrúarseggur skrifar:

Síðasta umræða endaði í engu vegna þess að þú ert ekki að segja neitt gáfulegra en trúarnöttararnir sem við körpum við daglega - þó þú virðist halda annað.

Ekki ætla ég að rökræða við þig um bók Dawkins, ef þú heldur að hún sé eitthvað höfuðrit Vantrúarmanna er það misskilningur. Mér fannst hún ágæt, en ég las ekkert nýtt í henni.

Mér þykir þú aftur á móti augljóslega ofmeta eigin gáfur. Hjal þitt um vitundina er beinlínis barnalegt.


Og við það vil ég bæta.

Síðasta umræða við ykkur endaði með þeirri sendingu frá ykkur að ég ætti ekki að láta mér detta í hug að þið væruð kjaftstopp en vegna anna kæmuð þið ykkur ekki að því að veita mér náðarhöggið. Það kom aldrei, sem hefði þó átt að vera hægur vandi ef röksemdir mínar voru þær sem þið tætið í ykkur tvisvar á dag og þrisvar á sunnudögum.

Ég held því hvergi fram að bók Dawkins sé höfuðrit. Ég mat hana algjörlega út frá eigin forsendum. Hinu er þó ekki að neita að Dawkins ber með sér alla höfuðþætti Vantrúarmanna sem sjálfir falla ítrekað í sömu gryfjur og hann.

Dawkins lætur sem svo að hann sé að beita skynsemi sinni til að hrekja heimsmynd trúaðra. En þegar kemur að því sem hann sjálfur (og þú myndir gera líka ef þú hefðir næga skarpskyggni til þess) kallar höfuðkafla bókarinnar þá bregst honum bogalistin hrapalega.

Ástæðan er auðvitað sú að Dawkins veit að hann getur ekki slátrað hinni trúarlegu heimsmynd eins og hún t.d. kemur fram í lýsingu minni. Hann getur aðeins tortryggt hana og kosið að trúa á aðra heimsmynd. Heimsmynd sem andstæðingar hans segja að risti ekki alla leið inn að kviku.

Gagnrýni mín á ykkur Vantrúarmenn stendur óhögguð. Þið eruð ekki hálft eins gáfaðir og þið haldið. Hugmyndirnar sem þið teljið ykkur hafa fattað eru ekkert merkilegar og fullt af fólki sem ykkur er ósammála hefur fattað þessa sömu hluti. Munurinn er sá að sumt af því fellur í annan af 2 hópum:

  • Þá sem hafa skilið sannindi x (sem þeir eiga sameiginleg ykkur) en telja sig um leið hafa uppgötvað sannindi y.
  • Þá sem hafa skilið sannindi x en sjá (sem rétt er) að sannindi x ein og sér duga ekki til að hafna sannindum y eins og þau eru skilgreind af óvitlausum.
Dawkins beinlega heimfærir röksemdir sem allir eru sammála að gangi upp í ljósi sanninda x til að koma höggi á y og gerir þar með grundvallarrökvillu. Hann sýnir aldrei fram á að það sem gildi um x gildi einnig um y.

Skilur þú þetta, Matti? Ég er efins.

Þið eruð enda alhæfingarsinnar í dvergslíki.

Og ef þið hefðuð brot af þeim gáfum sem þið teljið ykkur hafa hefðuð þið gengið miklum mun vasklegar fram í karpi okkar. Það mátti koma með fullt af sterkum mótbárum við það sem ég hélt fram og ég beið þess spennt. Umræðan hefði getað flust upp um styrkleikaflokk á ótal stöðum þar sem fyrst hefði reynt á mig. Raunin var sú að þið hreinlega náðuð ekki punktunum enda dogmatískir með afbrigðum og þröngan sálarglugga.

Eins er það að þú skulir leyfa þér að hossa þér á uppblásinni hrosshá og kalla tal mitt um vitundina barnalegt. Heyr á endemi!

Hvað er öfund þung? Hvað er draumkona há?

Komdu með vitrænt svar við þessum spurningum sem unglingur getur kokkað fram sjálfur hjálparlaust og ég skal samþykkja að tvíhyggjan er barnaleg.

Getur þú það?

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er dásamlegur rembingur.

Eyvindur Karlsson er ánægður með þig. Þarf ég að segja meira?

Mengella sagði...

Já, þú þarft að jarða hina barnalegu tvíhyggju með rökum sem öllum sem af barnsaldri eru komnir dettur í hug.

Koma svo...

Nafnlaus sagði...

Þú ert ekki merkilegur pappír. Er ekki komið nóg af þessu rugli, vertu maður, skrifaðu undir þínu rétta nafni, óli, og drullaðu yfir ljóðskáld, drullaðu yfir aðra undir þínu rétta nafni. Nei ég held að þú sért á hápunkti frægðar þinnar, njóttu þess, ég veit að þú ert ekki maður til að opinbera skoðanir þínar undir nafni.

...hvernig væri að breyta nafninu úr Mengella í Litli kall.

Nafnlaus sagði...

Tek undir með síðasta ræðumanni. Hálf vandræðalegt að fylgjast með fullorðnum manni níða skóinn af fólki í skjóli nafnleyndar. Þegar þessi kverúlant er svo komin í ritdeilu við vantrúarliðið... Æ, er þá ekki best að loka síðunni?

Óli Sindri sagði...

Jahá, "Gunnar". Ég ætla að leyfa mér að giska á að ég sé Ólinn sem þú ert að beina þessu til, svona í ljósi alls - og ekki síst málefnalegrar athugasemdar þinnar á mínu bloggi.

Það merkilega er að ég var staddur í útskriftarveislu þegar Mengella skrifaði þennan pistil. Mikið andskoti get ég verið fjölhæfur.

Annars hika ég ekki við að "drulla yfir" hvern sem er, hvenær sem ég vil, undir mínu rétta nafni - beri svo undir og ég sjái ástæðu til. Ég myndi t.d. ekki að hika við að kalla þig illa upplýstan hræsnara og mannlegt ígildi hárflóka í niðurfalli. Í víðasta skilningi orðsins "mannlegt", að sjálfsögðu.

Það hins vegar væri frekar tilgangslítið, þar sem ég hef þig - sjálfan manninn sem ásakar aðra um að þora ekki að viðra skoðanir sínar undir nafni - sterklega grunaðan um að fela þig bakvið dulnefni.

Nafnlaus sagði...

,,illa upplýstan hræsnara og mannlegt ígildi hárflóka í niðurfalli"

Ertu að grínast, væri kannski sniðugt ef ég væri svona eins og 12, nei segjum 13 ára. Þú ert ekki skáld, þú ert nörd. Þar við situr. Þú drepur þig í hverju orði, það eru til dæmisögur um menn eins og þig um hvað á ekki að gera. Það getur hvaða fífl sem er lesið bækur og slegið um sig með tilgerðalegu orðalagi, viltu vera það fífl. Ég skil þvermóðsku þína, ég yrði sjálfur órólegur ef ég væri búinn að drulla svona mikið yfir fólk. Ætli það sé ekki næsta skref í þroskasögu þinni.

...Ég skil að tómleikinn tærir, Það vilja allir vera eitthvað, við erum bara mannleg.

Óli Sindri sagði...

Var þetta ekki nógu háfleygt handa þér? Þú verður að fyrirgefa mér fyrir að velja stundum orð í samræmi við þroskastig þess sem ég ræði við. Líklega einn af fylgifiskum þess að hafa unnið á sambýli - vani sem er erfitt er að losa sig við.

Og já, þú hittir sannarlega á snöggan blett hjá mér, Gunnar. Ég er gráti næst. Eins og ég er búinn að hafa mikið fyrir því að lesa allar þessar bækur og titla mig skáld við sem flest tækifæri - og þér hefur tekist að mölva veröldina mína í tveim höggum.

Annars þykir mér meira varið í að vera nörd en skáld nokkurn tímann. En ég er hræddur um að tómleikinn og óróleikinn í lífi mínu séu svo yfirgnæfandi eiginleikar að mér takist jafnvel ekki að standa undir þeim titli.

Nafnlaus sagði...

,,Annars hika Ég ekki við að "drulla yfir" hvern sem er, hvenær sem Ég vil, undir mínu rétta nafni - beri svo undir og Ég sjái ástæðu til."

ég, ég, ég, ég, ég, ég.....

Þannig að þú notar þitt rétta nafn til að drulla yfir fólk þegar þú treystir þér að koma undir nafni.
Flott hjá þér.


Og þetta með þroskastigið, mundu,
Þú drepur þig í hverju orði.

Óli Sindri sagði...

Aha. Ég er reyndar hættur að sjá nákvæmlega hvað þú ert að reyna að fara, hafi ég einhvern tíma þóst sjá eitthvað slíkt. Erum við farnir að telja persónufornöfn núna?