16. október 2007

Vanþroskuð verslun


Ef eitthvað er meira pirrandi en (h)okrandi íslenskar blóðsugur (les. verslunareigendur) þá eru það nörlandi og samansaumaðir íslenskir kúnnar. Einhver hluti neytenda virðist líta á verslun sem keppnisíþrótt og þess er skammt að bíða að blóðsugurnar fatti að þeir eru í raun að eiga við grunnhyggnar ameríkanpæklaðar tilboðsníkjur. Sannið til, kúponar verða hluti af blaðamenningunni innan skamms. Og þá þarf heilbrigt fólk að tvístíga í endalausum biðröðum meðan akfeitar, fölgráar húsmæður og mállaust afgreiðslubarnið reyna að ráða fram úr þeim frumskógi sem afsláttarmiðarnir munu reynast öllum sæmilega vangefnum mönnum.

Nema hvað. Það svoleiðis fylltust allir fjölmiðlar af fréttum af okursíðu Dr. Gunna og hvert peðið af öðru vælir þar um hvað egg kosti ofan á hamborgara í Sillasjoppu í samanburði við verð á eggjabakka í Bónus eða hversu splortflokkur í krensglúteraðan frakkdrúnk kosti í Vélsmiðju Villa miðað við íbei.

Og svo skellir Bónus á trjónurnar á verðlagsnjósnurum og sakar þá um að taka ekki nógu vel eftir því að víst hafi þeir verið 13,543 aurum ódýrari í brælislegi ef reiknað er með því að botninn á þeirra flöskum sé bæði þykkari og lögurinn undir 1,2 hektópaskala viðbótarþrýstingi.

Allur þessi farsi sýnir aðeins eitt. Verðlagseftirlit er á fullkomnum villigötum á Íslandi. Það eru einstaka nörd eins og Gunni og einhverjir nískir bensínþjarkar sem brenna yfir af gremju þegar þeir róta í sjálfboðaliðssorphreinsun nirfla (pappakassahrúgum búðanna, fyrir þá sem tíma ekki að kaupa poka) að nóg sé komið og fiska upp sápukassa til að öskra ofan af.

Það er fáránlegt að stunda verðlagseftirlit eins og það er orðið. Og kominn tími til að gera gera það gáfulegar. Það á aldrei að birta verð fyrir minna tímabil en mánuð í einu. Þvílíkt endemisrugl þegar búðir breyta um verð átta sinnum á dag og auki í hvert sinn sem einhver með skrifbretti stígur þar inn fæti. Það á einfaldlega að gefa upp verðin í formi línurits og meðalverðs yfir tímabil. Með því móti sérðu það sem raunverulega skiptir máli. Hvaða máli skiptir það hvort tveir lítrar af Pepsíi hafi dottið niður í 99 kr. þær 45 klukkustundir sem næstar voru könnuninni ef meðalverð þeirra var 243 kr fyrir fimm vikna tímabil? Eða að laukur hafi þennan dag í þessari búð dottið niður um 87% frá reglulegu verði ef hann hækkar síðan um sömu upphæð tveim dögum seinna (þegar ferskari laukur berst)?

Ég vil að búin verði til vísitala. Hún verði reiknuð út frá þremur jafnvígum þáttum. Verði, hagræði og þjónustu. Farið sé í búðir á 48 stunda fresti með random-lista yfir matvörur (þótt grunnurinn sé matarkarfan sígilda; dömubindi, sápa, seríós og kók), en að auki eru gátlistar með atriðum á borð við:

  • Brjóttu litla krukku af pastasósu (rauðri) á gólfinu fyrir framan útgönguleiðina úr kæliklefanum. [ASÍ borgar dósina en mundu að taka kvittun]. Taktu tímann þar til a) starfsmaður veitir því eftirtekt, b) byrjað er að þrífa það upp, c) búið er að þrífa það upp. Ef ekkert er þrifið innan 5 mínútna eða þú pínd(-ur) til að þrífa sjálf(-ur) gefur þú 10 refsistig.
  • Spurðu starfsmann hvort til séu plastamboð. Ef hann getur hjálpað gefur þú tíu stig að frádregnu einu stigi fyrir hverja mínútu sem leið þar til þrautin var leyst og öðru stigi fyrir hvern þann aðila sem starfsmaðurinn þurfti að ráðfæra sig við.
  • Taktu strætó heim með vörurnar. Taktu tímann sem það tók þig að ganga út á stoppistöð og gefðu 1 refsistig fyrir hverja byrjaða mínútu.
  • Segðu kæruleysislega við afgreiðslumann á kassa: „Góðan dag. Ég held mér skjöplist ekki þegar ég fullyrði að tvær ógurlegar brúnrottur hafi verið að æxlast í kjötfarsinu. Ég hélt þið vilduð vita af því. Vertu sæl(-l).“ Ekki umorða eða útskýra frekar og ef hváð er horfirðu ísmeygilega í átt að kjötfarsinu og fitjar nagdýrslega upp á nefið – en ekkert umfram það. Mældu viðbragðstímann.
  • Teldu hve margar kerrur þú þarft að taka úr röðinni til að lenda á skítugri kerru eða kerru með bilað hjól.
Og svo framvegis.

Lykilatriðið er auðvitað að síðan eru gerðar þessar þrjár vísitölur. Verðvísitala, þjónustuvísital og hagræðisvísitala og steypt í eina verslunarvísitölu. Þegar verið er að grafa skurð fyrir framan Bónus í Spönginni hrapar verslunarvísitalan um 0,2 stig en þegar kerrurnar í Krónunni í ________ eru endurnýjaðar hækkar hún um 0,6 stig o.s.frv. Gengi einstakra fyrirtækja og útibúa er svo rokkandi með sama hætti.

Loks er gerð grein fyrir þessu öllu í tíufréttum í stað dádjóns og nasdag, sem allir vita hvorteðer vilji þeir það á annað borð.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gussi hérna.. herðu ég er að spekulera um að þú gæti samið texta fyrir mig.. helst að það sé soldinn húmor í honum.. er að fara að keppa í hæfileika keppni.. ef þú gætir kannski hjálpað mér??

jonr sagði...

Góður punktur þetta með vísitöluna... Hvað í helvítinu kemur manni við um hversu mikið var verslað af hlutabréfum yfir daginn? Hlutabréfum?!?!? Þetta er eitthvað sem maður kaupir ef maður á afgang eftir mánuðinn og nennir ekki að detta í það eða kaupa sér græjur.