Ágúst og Arngrímur
Ég hef verið spurð um flokkun mína á Ágústi Borgþór og Arngrími Vídalín í sama flokk. Finnst sumum hallað á annan, öðrum á hinn og einhverjum á báða.
Málið er augljóst.
Ágúst er goðsögn. Maður sem hélt sjálfum sér á lofti með svo ógleymanlegum hætti um langa hríð að ég get ekki ímyndað mér annað en að hann eigi stóran hóp dyggra lesenda. Það kemur ekki að sök að nokkuð er síðan að úr honum fór allur dampur. Ég verð að játa, stundum hef ég óskað þess í laumi að ég hefði fundið upp Ágúst.
Arngrímur er uppskafningur á góðri leið með að verða það sem Ágúst var. Hann er Ágúst á lirfustiginu. Ég treysti því að Arngrímur muni vera sú uppspretta kátínu sem ég sakna í Ágústi.
Það veltur á tvennu: Að hann hafi sjálfsáhuga í sama mæli og Ágúst og að hann sé jafn gjörsneyddur hæfileikum.
Þannig, að þið sjáið hví ég er vongóð.
Arngrímur yrkir.
Ljóðin eru ofur venjulega yfirfall hins lágfleyga huga. Hér er eitt lítið dæmi af Ljóðum.is:
Einmana sveinninn hryggi
var horfinn úr dalnum djúpa
og ástarstjarnan hulin gráum skýjum
vatnið kann söguna
en segir fátt um eigin sýnir
Hraundrangi sveif eins og hjarta
í lausu lofti
hvort hafi það verið
rétt spegilmynd
er undir deginum komið
hvort hafi það verið
Narkissos eða Amor
og hvors lokka hann greiddi
við Galtará.
Svona er ekki erfitt að gera. Á 2 mínútum getur hver sem er stælt þetta (sjálft er þetta auðvitað stæling dauðans) og fengið eitthvað á borð við:
Við spegil stóð svefnvana stúlka
sem starði í grásprengda glufu
og brothljóð gíranna missti marks.
Fiskur á þurru landi
fær loks hugboð um tilvist vatnsins.
Við rætur brekku situr
kassabíll í skugga.
Þegar sólin rís mun koma
í ljós hvort skugginn
táknar uppgjöf eða sigur
hvort þar fari
íkaros eða sýsifos
með vængi upp brekkuna
eða grjót - til Nóa.
En það er einmitt snilldin. Að eitthvað ekki betur gert, skuli eiga sér svo harðsvíraðan aðdáanda - í skapara sínum.
Sama gildir um Ágúst. Hann gaf okkur aðdáendum sínum þetta í jólagjöf:
Daníel snarþagnaði og horfði flóttalega í kringum sig eins og hann væri fyrst að uppgötva núna að þeir væru ekki staddir tveir einir í hljóðeinangruðu herbergi. Skrýtna konan var að tala við sjálfa sig og virtist ekki vita af þeim. Hún hreyfði munninn ótt og títt í óskiljanlegu tauti. Tælendingarnir ungu úti í horni risu skyndilega á fætur og við það varð skvaldrið næstum óbærilega hávært. Árni og Daníel horfðu sviplausir og þöglir á ungmennin, dálítið eins og hestar eða kýr að líta upp úr beit og fylgjast með mannfólki. Síðan fóru allir út nema tvær stelpur sem settust aftur og kveiktu sér í sígarettum. Þær voru einstaklega smágerðar, eins og leikfangaútgáfur af táningsstelpum, dúkkur keyptar í tælenskri dótabúð.Einn piltann rak handlegginn í gluggann þegar þeir gengu framhjá húsinu. Það vakti upp óskylt æskuatvik í huga Árna. Vinur hans hafði vakið hann með því að banka í herbergisgluggann og síðar sama dag gaf eldri bróðir hans honum 500-kall, ljósgrænan seðil með mynd af Hannesi Hafstein. Hann ætlaði í bíó fyrir peninginn og var að missa af vagninum, hljóp að stoppistöðinni með strætómiða milli fingranna og 500-kallinn í rassvasanum. Hann náði vagninum, settist og rak augun í vininn sem hafði vakið hann um morguninn. Hann bankaði í rúðuna til að vekja athygli hans og varð hugsað til þess að vinurinn hefði bankað í gluggann hjá honum. Vinurinn tók ekki eftir honum og vagninn brunaði niður í bæ. Ólýsanleg hamingjutilfinning gagntók hann, dýpri og óræðari en einskær bíógleði. Árna fannst að hann myndi þetta fáfengilega atvik svona vel út af þessari tilfinningu. Hann velti því fyrir sér hvort allar mestu og sönnustu hamingjustundir hans á ævinni hefðu verið upplifaðar í einrúmi og hvort sú staðreynd gerði hann á endanum einmana og óhamingjusaman.
Tveggja mínútna stæling á þessum texta, sem vafalítið er afrakstur fimm daga Þýskalandsferðar, er eitthvað á þessa leið:
Án þess að hugsa sig um stóð Sveinn á fætur. Hann fann að ef hann sæti lengur kyrr þá ætti hann á hættu að hverfa. Hverfa inn í sig. Minnka niður í lítinn depil og hverfa síðan í gráleitu púðurskýi. Burt úr þessum heimi, burt úr þessari vídd. Sveinn rak olnbogann í slefandi manninn í hjólastólnum. Hálft í hvoru til að sannfæra sjálfan sig um að hann væri til, en einnig til að segja fatlaða manninum að fatlað fólk ætti sér líka tilverurétt. Stuðningsfulltrúinn með græna sjalið horfði hvasst á hann. Sveinn leit undan. Hann fór úr vagninum á næstu stoppustöð. Hann velti því fyrir sér hvort fatlaði maðurinn í stólnum ætti sér raunverulega tilverurétt.
Ágúst Borgþór er holdtekja hinnar eilífu verðandi. Hann hefur verið kominn á fremsta hlunn með að verða heimsfrægur árum saman. Og hann ætlaði sér ekki að missa af heimsfrægðinni þegar hún kæmi. Þess vegna vaktaði hann frægðina. Hann fletti sér upp í Google fjórum sinnum á dag, gaumgæfði Gegni í leit að aðdáendum. Skrifaði lof um sjálfan sig á Wikipedia, sem var dæmt sem álitamál. Fagnaði eins og lítið barn hverri viðleitni fólks til að stappa í hann stálinu. Og leyfði okkur að fylgjast með öllu.
En maður stendur ekki að eilífu á brautarpallinum að bíða eftir unnustu sem aldrei kemur. Ágúst fór að lýjast. Ágúst varð þreyttur. Hann missti broddinn. Hann hætti að vakta frægðina. Verðandin tók sér bólfestu í einni einustu bók, sem aldrei ætlar að klárast. Að öðru leyti hvarf Ágúst inn í heim hins hversdagslega holmennis. Keypti banana og tannkrem, montaði sig af börnunum sínum, skrifaði auglýsingatexta og hugsaði upphátt blautar hugsanir um dómínatrískan borgarfulltrúa. Það var allur háskinn.
Ágúst var orðinn að smáborgara. Verðandin sem aldrei varð.
Sköpunarverkin náðu kannski aldrei flugi - en fyrirbærið Ágúst, það er snilld!
Hér höfum við tvo menn, Arngrím og Ágúst. Báðir arka þeir inn í blindandi sólarlag skáldagyðjunnar. Ég á ekki von á því að Arngrímur komist með tærnar þangað sem skugginn fellur af Ágústi. Hann er of hégómlegur og ekki nógu greindur.
En, þegar öllu er á botninn hvolft, taka þeir Glæstum vonum fram.
5 ummæli:
Glæsileg skrif hjá þér. Þú og Aggi gætuð samið saman og orðið úber fræg.
Ég myndi allavega kaupa bók eftir Hr. Vídalín og miss Mengella.
Hefur monsjör Vídalín sæst á rökin? Þetta er æsispennandi.
Greini ég vott af biturleika hjá nafnlausu frúnni?
Nei sko. Velkominn, Ágúst.
Monsjör mag. cand. Rítalín hefur að sjálfsögðu ekki svarað. Hann lætur í veðri vaka að það sé vegna þess að hann ræði ekki skáldskap nema vita hver standi að baki (hann vill nú ekki lenda í því að klikka á að fíla virta manneskju). En það er ekki svo. Raunverulega ástæðan er sú að hann telur sér ekki sæmandi að sóa íslensku máli á aðra en þá sem nema fagið í Háskólanum.
Samanber þessa tilvitnun: „Þeir sem agnúast út í skapandi málfar lærðu annaðhvort ekkert í íslenskudeildinni eða fóru aldrei þangað og lærðu því ekki neitt.“ -mag. cand. Rítalín.
Tertium non datur, sjáðu til.
Skrifa ummæli