15. september 2007

Mótvægisaðgerðir

Í tilraun til að slá pólitískar hveitibrauðskeilur hefur stjórnin nú lagt fram mótvægisaðgerðir sínar vegna samdráttar í þorskveiðum. Af nákvæmlega sömu hvötum hefur stjórnarandstaðan reynt að gera aðgerðirnar tortryggilegar. Mikið er talað um það að útgerðarmenn og sjómenn hafi gleymst.

Þannig mæla aðeins bláeygðir kjánar. Það gleymdi enginn sjómönnum og útvegsmönnum. Þeir voru skildir útundan af fullkomlega ásettu ráði. Enda hið eðlilegasta mál. Ef maður ætti sykursjúka ömmu sem lenti í þeirri ógæfu að vera lögð inn á sjúkhús til aflimunar á fótum þá færði maður henni frekar armband að gjöf en legghlífar. Á sama hátt væri fáránlegt að ausa fé úr almannasjóðum til að halda á floti fyrirtækjum sem ekki þola samdrátt í veiði.

Oft og margsinnis hafa stjórnmálamenn barmað sér yfir hinu frjálsa framsali og eign á kvóta. Sumir þeirra virðast hreinlega ekki skilja tengsl kvóta, eignar og ábyrgðar.

Þeir, sem nú verða fyrir samdrætti, eru einir ábyrgir fyrir afleiðingunum. Þeir þekkja leikreglurnar mætavel og hafa alla tíð vitað að þetta er áhættusamur bransi. Fjölmargir þeirra vissu meira að segja að hverju stefndi og kvótasala var áberandi hjá skörpustu útgerðunum síðasta vetur og í vor. Auðvitað vissu allir, sem hafa eitthvað viðskiptavit, hvað gæti gerst.

Flónin keyptu kvótann og bættust þar í hóp útgerðarmanna, sem sváfu þyrnirósarsvefni. Svo kom í ljós, að þau höfðu keypt köttinn í sekknum. Á að verðlauna fyrir svoleiðis afleiki? Hreint ekki.

Snúum dæminu við. Segjum að hlýnun jarðar myndi valda óvæntri hagsæld í búsetuskilyrðum þorsks. Hér bara fylltist hver fjörður af fiski. Veiðimagn yrði stóraukið. Heldur einhver að við slíkar aðstæður fengi sú krafa brautargengi að auka ætti álögur á útgerðarmenn af því þeir hefðu efni á því? Það væri fráleitt. Í viðskiptum taka menn áhættur og menn græða og gjalda fyrir þær til skiptis. Þeir, sem velja sér sjómennsku sem atvinnu, eru í nákvæmlega sömu stöðu. Allt þetta fólk tók séns - og tapaði.

Og þó. Hver veit nema hlýnun sjávar auki lífríkið í sjónum umhverfis Ísland? Hver veit nema í stað þorsks komi skötuselur, túnfiskur, makríll og sverðfiskur? Hverjir skyldu sitja við þá katla þegar krásirnar fara að flóa yfir? Nú, útgerðarmennirnir, sem afla sér veiðireynslu. Og af hverju fá þeir góssið? Því þeir eru verðlaunaðir fyrir útgjöldin og áhættuna, verðlaunaðir fyrir mögru árin. Og það er meira en nóg handa þeim.

Mótvægisaðgerðir eru ekki fyrir sjómenn og útgerðarmenn. Þetta er þeim sjálfum að kenna. Þær eru fyrir almúgann. Liðið, sem er svo illa menntað eða upplýst, að það situr í vistarbandi. Það er einfaldlega verið að bjóða þeim ögn bjartari framtíð. Og það er í allrabesta lagi. Við höfum ekki efni á því að halda úti byggð í landinu þar sem stór svæði eru lögð undir fáfrótt, illa menntað hyski. Það þarf að koma þessu fólki til manns.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

http://www.lexis.hi.is/beygingarlysing/no/kvk/vb/a1ha2tta.html