24. september 2007

Svona er ekki hægt að búa til

Keli, meistari hins talaða orðs, er á leið undir dönsku krúnuna. Þess má geta að Keli er eini maðurinn, sem ég hef beinlínis fengið ábendingu um að taka fyrir. Ég hef hinsvegar látið hann að mestu afskiptalausan enda er hann dásamlegur karakter.

Keli er holdtekja vaxtarverkja moggabloggsins. Varð þar innsti koppur í búri með einbeittum vilja, tróð sér inn á vinalista hálfrar þjóðarinnar, bloggaði sama og ekkert um alla hluti og hélt svo rækilega aftur af sér í talsmáta að hann titraði.

Nema hvað, einn góðan veðurdag gáir hann ekki að sér og í heiftúðugri geðshræringu lætur hann skoðanir sínar flakka umbúðalaust. Ég hef það fyrir satt að sumir bloggvina hans hafi þurft áfallahjálp eftir að hafa séð undir grímu hins geðþekka guma. Eitthvað fóru vinirnir að fjarlægjast Kela upp úr þessu honum til mikillar armæðu. Við vinsældatapið gerðist hann óstyrkur og bloggaði æ oftar af hjartans lyst. Mér og öðrum fjósbitapúkum til einlægrar gleði.

Og þá að því sem blasti við mér í morgun og kom af stað hjá mér hláturkrampa sem enn varir. Á RSS-veitu minni blasti við þessi stórkostlega mynd:


Ég komst samstundis í gott skap. Þetta var eitthvað svo indælt. En þegar ég leit upp og sá þessa færslu fyrir ofan myndina var mér allri lokið:


Takk fyrir góða mætingu...... Yesterday, 08:54 PM

.....NOT!

Þakka samveruna í dag GJ og spjallið.

Þið hin sem ætluðuð að mæta fáið F í kladdann og greinilegt að þið sannið málsháttinn um hávaðan og tómu tunnuna.

Þarfagreinir, Anna Panna og Hallur voru löglega afsökuð en hinir eiga sér engar málsvarnir og verða fjarlægðir af bloggvinalistanum.

Góðar stundir.


Ég byrjaði að hlæja og hef ekki hætt síðan. Þarna sat Keli aleinn á Kringlukránni með sinni frú og einstaka róna og beið eftir bloggvinunum, sem aldrei komu. Og hann varð svo reiður að hann sendi þeim tóninn.

Svo hefur hann fengið móral því ég sé ekki betur en hann sé búinn að eyða báðum færslum síðan.

Ég vildi að ég hefði skapað Kela.

1 ummæli:

Hildur Lilliendahl sagði...

Þetta verðskuldar eitt gott omg. Ég hlæ og hlæ.