15. september 2007

Útsvar

Það þarf að þræða slöngu upp um hálsslagæð á þeim, sem sér um nafngiftir íslenskra þátta hjá Rúv, og blása þar til köggullinn sem stöðvar blóðflæðið til stöðva smekkvísinnar í heila viðkomandi er horfinn. Útsvar er andstyggilegt nafn á spurningaþætti. Raunar andstyggilegum spurningaþætti ef það er einhver bót í máli.

Þátturinn í gær er eitthvað mesta drasl, sem rekið hefur á fjörur mínar lengi. Spurningarnar fisléttar og vitringarnir ofur venjulegt fólk, sem fyrir hendingu er komið í sjónvarpið.

Hefði farið fram forkeppni eða rannsókn á erfðamengi í plássunum - þá er mögulegt að hægt væri að spennast upp yfir því hvaða pláss ætti klárustu íbúana. En þetta fólk er dregið inn af götunni. Sumir bara upp á grínið. Aðrir af því þeir hafa einhverntíma skrifað sæmilega stafsetta grein í staðarblaðið eða unnið spurningakeppni hjá læonsklúbbnum.

Það er enginn frumleiki í spurningunum. Ekkert skemmtanagildi í öðrum atriðum (fyrir utan það að það mátti hlæja að því þegar hin nautheimska hjálparhella Kópavogsbúa notaði Google til að bjarga þeim). Engir kynlegir kvistir dregnir fram úr sveitarfélögunum (fyrir utan nautheimsku hjálparhelluna), engin kynning á bæjarbragnum - ekkert, sem réttlætir það að þessu sé stillt upp sem landshlutakeppni. Framkvæmdin er flöt og óáhugaverð, sviðsmyndin forljót og áhorfendur í sal dauðyfli að undanskildum nokkrum börnum.

Þessu þáttur er óspennandi drasl, byggt á formúlu, sem á ekki að geta klikkað. En klikkar samt.

Og ég, sem var orðin svo jákvæð fyrir Rúv eftir að Randver var stjaksettur. Dæs!

Engin ummæli: