10. september 2007

Og það rigndi á greyin

Það kann að virðast einelti að leggja þriðju færsluna í röð undir umfjöllun um íþróttagagnrýnendur – en það er algjör hending að svo er. Þorsteinn Gunnarsson, fjallkóngur blýantsnagandi sportdroppátanna, skrifaði KSÍ bréf, sem kraumar af blóðhita og litlum gáfum.

Gagnrýnendurnir eru æfir yfir því að hafa þurft að sæta sömu örlögum og sauðsvartur almúginn á einhverjum fótboltaleik. Sérstaklega eru þeir reiðir yfir því að KSÍ hafi dirfst að leyfa sér að láta rigna á fréttahaukana.

Í lok bréfsins eru nokkrar spurningar:

1. Hvers vegna var okkur boðið upp á þessa óásættanlegu aðstöðu?
2. Hvers vegna voru starfsmenn KSÍ víðs fjarri meðan á leik stóð?
3. Hvers vegna var engin gæsla þarna í kring?
4. Er það ásetningur KSÍ að losna við íslenska íþróttafréttamenn af landsleikjum á Laugardalsvelli?
5. Hvers konar aðstöðu verður okkur boðið upp á þegar Ísland mætir Norður-Írlandi á Laugardalsvelli á miðvikudaginn?

Þessar uppbyggilegu spurningar (númer 4 er hreint út sagt dásamlega fullorðinsleg) eima af einkennilegri einþykkni. Sem þó verður skiljanleg þegar málið er sett í samhengi.

Íþróttagagnrýnendur eru, eins og áður hefur verið bent á, yfirleitt vonlausir, uppgjafa spriklarar, sem hafa það fram yfir fótfrárri kollega sína, að kunna (upp að einhverju marki) stafsetningu. Sumir þeirra kunna reyndar ekki að stafsetja enda er þeirra nálgun önnur. Þeir eru ofur venjulegar grúppíur og frægðarhórur sem njóta þess að baða sig í dýrðarljóma fræga fólksins. En stafsetjandi týpan er knúin áfram af öðrum hvötum. Sú er að byggja sér fótstall úr grafíti. Hefja sig upp úr þeirri niðurlægjandi einsemd sem fylgir því að lenda í öðru sæti á eftir andlegum jakuxum og rádýrum. Þeirra persónulega upphafning nær hámarki þegar þeir fá sérþjónustu á íþróttaleikvöngum. Þeir fá passa, sæti á besta stað, innstungu og kaffi. Smásálir hafa smáar nautnir.

Og hvað gerir svo KSÍ sem gerir þá brjálaða? Í fyrsta lagi klikkar KSÍ á að víggirða þá gagnvart hinum hræðilega almúga. Allskonar fólk gat smeygt sér inn á svæðið til gagnrýnendanna, sem sátu þar varnarlausir, klesstir fastir í þrönga stóla. Og það voru engir verðir. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum voru starfsmenn settir í að gæta lífs og lima hins almenna áhorfanda, sem sat eins og síld í tunnu innan um hrörleg gamalmenni og börn, næstum jafnóvarin fyrir óhuggulega fólkinu sem ofsótti fréttasnápana. Og það rigndi. Rigndi á snápana og skolaði burt grafítlitaða máttarstólpanum. Rigndi jafnhressilega á þá eins og litlu börnin og gamla fólkið. Við slíkt verður ekki unað.

En ástæðan fyrir fússinu er ofurhefðbundin reðuröfund. Ástæða þess hve reiðir gagnrýnendurnir voru var nebblilega sú að beint yfir hausamótunum á hinum köldu, hröktu og feitu fóum, voru hlýjar, kenndar og hamingjusamar feykirófur í miklu stærri, hlýrri og notalegri helli. Og það var samjöfnuðurinn við vipparana sem gerði gagnrýnendurna reiða. Það er ekki nema von að fjúki í eldspíturnar þegar þær snúa sjónum til stjarnanna.

Hver einasti þeirra hefði getað skilað jafngóðu (betra) starfi sitjandi heima hjá sér horfandi á sjónvarpið étandi dómínóspítsur með nokkra sparkiðjóta í hraðvalinu. En það var ekki fréttagildið sem dró þá á völlinn, það var vonin um vippmeðferð, von sem var slökkt á ónærgætinn hátt.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú tekur íþróttabollurnar aldeilis í bakaríið í þessari færslu.

Annars er ég ósammála því að íþróttagagnrýnendur séu ofur venjulegar grúppíur og frægðarhórur. Þeir eru ofurvenjulegar grúppíur og frægðarhórur.

Jafnframt er ég sammála þér þegar þú segir að ástæðan fyrir fússinu sé ofurhefðbundin reðuröfund.

oskar@fjarhitun.is sagði...

Það verður aldrei svo að þeir sem eru viðriðnir íþróttir* - tala nú ekki fótbolta - geti talist þolendur eineltis!

Þetta sportistalið fær að vaða yfir allt og alla, eins og t.d. alger yfirráð yfir útvarps- og sjónvarpsdagskrá, endalausar framkvæmdir á þessum fótboltaleikvangi (sem hafa þvælst fyrir mér síðustu 1-2 árin) og það sem virðist vera endalaus aðgangur að útsvarsfé úti á landi (enda er það eina sem virðist rísa í landsbyggðarplássum vera íþróttamannvirki).

Nei, það verður sko ALDREI nóg hraunað yfir þetta lið!

* A.k.a. íþróttaviðrini.

Ágúst Borgþór sagði...

Það er voðalega sniðugt að skrifa svona færslu en hvort sem þér líkar betur eða verr, og hveru vitlausir sem íþróttablaðamenn kunna að vera, þá hafa þeir status í þessu samhengi og eru hluti af þessum afþreyingarpakka sem kappleikir eru. Þeir eiga því auðvitað að hafa bærilega og regnhelda vinnuaðstöðu á landsleikjum.

Nafnlaus sagði...

Kom eitt sinn á Wembley fyrir niðurrif. Sat þar á góðum stað hliðiná fréttaritarasvæðinu, sem var notabene utandyra.

Í réttu veðri hefði ringt á þá jafn mikið og aðra.

Fyrir þá sem eki vita verður skítakuldi í London og rigning er daglegt brauð, jafnvel meira.