18. september 2007

Skófin í Skandinavíu

Danir eru líklega sú dvergþjóð sem lifir í mestri villu um meintan glæsileik sinn. Þeir trúa því virkilega og í einlægni að eitthvað sé í þá spunnið. Þar sem sönnunargögnin um andstæðu þess beinlínis blasa við í hvert sinn er Dani lítur í spegil halda þeir dauðahaldi í veraldleg herraþjóðareinkenni nýlendutímans. Þeir drottna yfir tveim þjóðum öðrum og eru það þær tvær vestrænna þjóða sem umkomulausastar eru. Annarsvegar eyjaklasi fullur af íhaldsömum miðaldabændum og fiskimönnum og hinsvegar drykkfelld villimannaþjóð sem húkir við jökulsporða, sifjaspellar í sífellu og skýtur sig í hausinn.

Í slíkum félagsskap er eðlilegt að þykja eitthvað til sín koma. Og ekki sakar ef nágrannaþjóðirnar eru svo elskulegar að bjóða manni botnfall sitt fyrir slikk.

Sjónvarpið keypti af einhverjum ástæðum ömurlega þáttaröð um hundrað ára gamla danska heimsvaldatilburði, þegar einhver sauður dró með sér aðra sauði og innfædda villimenn í rölt upp með austurströnd Grænlands. Þar drápust þrír þeirra. Forsprakkinn og tveir aðrir.

Andblærinn í þáttunum var óþolandi tilgerðarlegur. Reynt var að skapa spennu utan um ekki neitt. Einhverjir asnar dröttuðust þennan sama spöl hundrað árum seinna og gerðu um það sjónvarpsefni sem var nákvæmlega jafn langdregið og einhæft og ferðalagið sjálft hlýtur að hafa verið. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum kom einkaflugvél með danska krónprinsinn til þeirra og leyfði honum að tölta með þeim um hríð þar til hann var sóttur aftur af sömu flugvél. Aðframkomnir af úrræðaleysi límdu sjónvarpsmennirnir linsur sínar við prinsinn og úr varð löng og leiðinleg einræða þess konungborna um allt frá sleðahundum til svefnleysis. Prinsinn var álíka háfleygur og páskaegg og viðlíka djúpur og saumspretta en fékk að mala endalaust áfram undir stelpulegu aðdáendatísti þegna sinna.

Oj!

Þessi þáttaröð var gjörsamlega sneydd öllu aðdráttarafli gagnvart öllum öðrum en elliærum Dönum sem tóku þátt í að skjóta Kamban. Og þegar þessum óhroða loksins lauk og áhorfandinn dæsti af fögnuði við að vera laus við helvítis Danina, úrhrök norrænna þjóða, hvað skyldi ekki skjóta upp kollinum nema þáttur um þrettán vangefna hnakkrottumörkeppi sem keyra um Danmörku á Harley Davidson hjólum og boða trú á Frelsarann? Samansafn af feitum, ógeðslegum dóphundum og drykkjusvolum sem skellt hafa sér í pottinn hjá dönsku ígildi fíladelfíu og risið upp aftur tandurhreinir og flekklausir.

En það, sem er mér mesta áhyggjuefnið er þetta: Hvernig geta svínslegir vanskapnaðir og það danskir í þokkabót, að ekki sé talað um hnakkrottur, talað eins og ekkert sé sjálfsagðara en að skilja hvernig við höfum öll sloppið með skrekkinn þegar Jesú var sleginn tímabundið í hel á krossinum? Ég neita að samþykkja að þessi leðurvöfðu beikonflykki hafi vitsmunalega yfirburði gagnvart mér. Hví fatta ég ekki pointið? Nákvæmlega hvernig frelsaði Jesú menn með því að láta drepa sig?

Svar óskast.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er mjög frumstæð hugmynd úr heiðni sem hefur fundist alls staðar meðal þeirra sem enn trúa á stokka og steina. Grunnhugmyndin er alþekkt úr anímisma og galdratrú og byggir á yfirfærslu eiginleika. Grikkir til forna trúðu því t.d. að hægt væri að leggja allar misgjörðir samfélagsins á bak hafurs ("syndahafurs") sem síðar yrði rekinn út fyrir borgarmúrana. Flest samfélög í kringum Miðjarðarhafið höfðu svipaðar hugmyndir, sem rénuðu þó mjög með auknu brautargengi ritlistarinnar og þroskaðri samfélagsbyggingu.

Nafnlaus sagði...

afhverju er þetta ennþá aðalhugmyndin í dag? afhverju er ekki komin nein skárri ef allt var að verða svona "þróað" við Miðjarðarhafið? Prufið að lesa the golden bough, þá fattiði afhverju mér finnst svona skýringar einsog hann Elías er með, einstaklega yfirborðskennd.

góð færsla að vanda Mengella, danir eru svo viðbjóðslegir, það er satt.

þú ættir annars að kíkja til Færeyja, sú þjóð gæti svarað spurningu þinni um Jesú, and then some!

Nafnlaus sagði...

Löngu eða stuttu útgáfuna? Ég las löngu útgáfuna fyrir allöngu síðan.

Nafnlaus sagði...

Sjálfur er ég reyndar á þeirri skoðun að ef sönnun kæmi fyrir tilvist Guðs, þá ættum við strax að reyna að leita leiða til að útrýma honum.

Nafnlaus sagði...

Elías minn, þar sem Guð skapaði þig og allt sem lifir, er það hann sem getur tortímt.( fyrst hann skapaði )
Að reyna að útrýma Guði, er eins og að reyna útrýma súrefninu ! Sem sagt : Heimska .
Conwoy@visir.is