15. september 2007

Mestarinn og margarítan

Meistarinn er massamikill hlaupagikkur og sem slíkur hefur hann ógnarmikinn skriðþunga. Það erfitt að koma slíku flykki á hreyfingu, en þegar hann er kominn af stað er enn erfiðara að stoppa. Þegar Meistarinn skokkar eftir Ægissíðunni breytist hann í taktbundinn traktor sem aðeins sér götuna fyrir framan sig og gæti lent í slysi ef eitthvað brygði útaf.

Sem væri ekki svo slæmt ef hann væri ekki líka skriðþungur traktor andlega. Hann les blogg á nákvæmlega sama hátt og hann skokkar. Líklega vegna þess að hann les of mörg blogg á of stuttum tíma. Æ oftar gerist það að hann les ekki nema lauslega það sem ég skrifa og í hamaganginum er hann búinn að skrifa athugasemd eða gagnrýni, sem aldrei hefði fæðst ef hann hefði gefið sér tíma til að lesa og skrifa á hraða hins sístirðnandi huga, sem hann vissulega er.

Allir netverjar vita af blæti Meistarans þegar kemur að hægrisinnuðum hörkukonum. Honum finnst ekkert meira sexý en kjaftfor gella í dragt að traðka á munaðarleysingjum. Ástæðan er auðvitað sú að undir hrjúfu og holdugu yfirbragðinu býr örgeðja og óöruggur strákur, sem laðast að sterkum móðurímyndum.

Það kemur því engum á óvart að Meistarinn skuli hrífast af Ali. Ali er enda kjarnorkugeldingur í dragt. Það sem kemur á óvart er að hann skuli telja skrif mín um málið auma, vinstrisinnaða mótbáru.

Hann hefur ekki lesið af neinni íhygli það sem ég skrifaði. Ég var eingöngu að benda á að lausn Ali á vandanum væri grunn og ósanngjörn. Það má vel umrita mótbáru mína sem svo að ég sé á móti greiningu Ali á vandanum. Það að Ali er ekki nema 99.7% kona, hundelt af dauðasveitum gerir hana ekki einfeldning, eins og Meistarinn virðist telja að ég hafi sagt, en það gerir hana að vafasömum rýni á það sem hún telur uppsprettu vandamála sinna, Islam.

Vandinn við málflutning Ali er þessi (og nú ætla ég að vera afar skýr): Ali bendir á að Islam krefjist undirgefni af iðkendum sínum. Hún bendir einnig á að þessi undirgefni sé misnotuð. Hún sé t.a.m. heimfærð á samband kvenna við maka sína. Undirgefnin sé notuð til að kúga.

Lausnin er að láta af undirgefninni. Að gagnrýna og rífa kjaft. Að skipta um horf við heiminum. Með því móti geti konur t.d. varpað af sér oki kúgunar karla.

Þessi greining og þessi lausn er gegnsósa af fyrirlitningu gagnvart trúargrundvelli Islam. Hún byggir á lífsafstöðu einnar konu, sem sannfærst hefur um mátt einstaklingsins - og þótt hugmyndafræði hennar sé bæði mér og meistaranum margfalt meira að skapi en skriðdýrshjarðeðli undirgefninnar, þá getur manneskjan ekki gert þá kröfu til heilu menningarheimanna að þeir ekki aðeins séu sammála, heldur gerist undirgefnir þessari lífssýn.

Krafan um niðurbrot undirgefninnar hjá Ali byggir á þeirri forsendu að fólk gerist undirgefið sýn hennar á manninn. Það angar allt af mótsögnum.

Saga Ali er saga þess hve lágt mannsandinn getur seilst í niðurlægingu sinni. Hún hefur verið umkringd fólki sem sprettur úr ömurlegum jarðvegi, sem gegnsýrður er af kúgun og niðurlægingu. Það á að hlusta á slíkar sögur og berjast gegn voðaverkunum. Allt tal um fjölmenningarsamfélag sem vin ofstækis, barnamisþyrminga og kúgunar er fráleitt. Og enn fráleitara að halda að patentlausnin sé uppræting undirgefni. Það er ekki fjölmenningarsamfélaginu að kenna að fjöldinn allur af helsjúku fólki hefur alltaf fundist í Benelúx-löndunum. Þar sem ógeðslegur klámiðnaður, dýra- og barnaníð er rótgróið.

Heldur einhver að það hefði verið hægt að lækna barnamorðingja og -níðinga með því að kenna þeim að rífa kjaft við guð og hefðir og varpa af sér oki undirgefninnar? Og heldur einhver í alvöru að menn sem skera kynfærin af dætrum sínum, skvetta sýru á systur sínar og myrða listamenn þjáist af undirgefni?

Undirgefni í Islam er ekki það sama og máttlaust framtaksleysi. Undirgefnin er gagnvart Allah og hans boðum og bönnum. Og meðan fólki er meinað um eðlilega tilbeiðslu og trúarbrögðin tortryggð dafnar aðeins róttæka hliðin sem aldrei snýr að sól.

Undirgefnin í Islam er fallegasti hlutinn við trúarbrögðin og forsenda alls eðlilegs átrúnaðar. Að tortíma henni gerir útaf illgresið en líka blómin. Slíkt gerir maður ekki ef maður ber vott af virðingu fyrir blómunum. Ali vill leggja Karþagó í eyði því þar býr vont fólk. Henni er sama um góða fólkið.

Islam gerir ekki fólk vont, Islam er verkfæri vondra manna til vondra verka og góðra manna til góðra verka. Islam á að samþykkja á sama hátt og kristni og ræða um á nákvæmlega sama hátt. Gagnrýna og fordæma, takast á. Engan helvítis tepruskap.

Þessi skoðun mín er ekki vitund vinstrisinnuð þótt Meistarinn hafi kosið að kalla hana það uppfullur af bríma til hinnar þeldökku Möggu Thatcher.

14 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábær færsla.
Ekki skilja það sem skjall.
Ég er einfaldlega sammála þér í þetta sinn. Þetta er flott greining.
Þórarinn Leifsson
http://www.totil.com/blog

Nafnlaus sagði...

Stjórntæki hjarða er eingyðistrú Nefretiti, Unni Wikan mannfræði prófessor Osló hefur lagt til að konur klæði sig ekki á ögrandi hátt í tveggja turna stríði.

Með afnámi innflytjenda hafta, hefur velferðartúrismi Islam landvinninga með orði og sverði, samkvæmt kóraninum.

Konur, sem lenda í hremmingum eru gerðar ómarktækar, en karlar að forsetum. Lisbet Palme/Christer Petterson - Eisenhower, Tito ofl.

Rýrari lífsgildi fylgja 911, þegar víkingasveitin er komin í vopnaða umferðarstjórnun unglinga í Kóp.

Nafnlaus sagði...

Sæl

Ég get ekki að fullu leyti tekið undir skrif þín. Vissulega á að sýna trúabrögðum virðingu, og reyna eftir fremsta megni að skilja siði þeirra og venjur, en það sem Ali var að tala um átti aðallega við um þá Islamstrúamenn- og konur sem tekið hafa sér búsetu á vestulöndum.

Samkvæmt vestrænnum gildum er það að skilda konur til þess að bera blæjur talið til kúgunar. Sérstaklega þar sem ástæða þess að þeim ber að bera þær er sú að aðeins eiginmenn þeirri megi bera þær augum. Þetta hefur meðal annars verið staðfest af mannréttindadómstól Evrópu (þó í harla loðnum úrskurði).

Að bera blæju er því merki um kúgun. Það þarf svo ekki að þýða að sú sem beri blægjuna sé kúguð í sjálfu sér, og komum við þar að spurningunni um val einstaklingsins (svo auðvitað velta fyrir sér hversu skilyrt það val sé...)

Ég er ekki sammála Ali að Islam sé slæm trú, og er ég sammála túlkun þinni að líklega sé afstaða hennar lituð full sterkt af eigin reynslu sem vissulega er skelfileg. En hinsvegar eru hlutar Islam, og þá sérstaklega túlkunar á textum spámannsins, sem vestræn ríki geta ekki, ættu ekki og þurfa ekki að samþykkja.

túlkanir texta Kóransins hafa ekki síður en í krinstni orðið hluti af trúnni sjálfri (djöfullinn var fundinn upp á 12 öld og samþykktur á kirkjuþingi og svo mætti lengi telja) og væri nær að skoða þessa þróun áður en lagt er af stað í krossferðir gegn trúnni sem slíkri.

Það ætti ekki að koma á óvart að hægri menn finni sig í báráttu Ali. Ekki frekar en það ætti að koma á óvart hverjir hennar nýju vinnuveitendur eru (www.aei.org) og því síður að þegar einhver seti út á málflutning hennar þá sé viðkomandi úthrópaður sem vinstri villingur.

En það er nú einu sinni inngróið hugarfari íhaldsmanna að halda sig við gamlar skilgreiningar.

Þorleifur

Nafnlaus sagði...

"Islam gerir ekki fólk vont, Islam er verkfæri vondra manna til vondra verka og góðra manna til góðra verka."

Islam gerir fólk ekki vont og er klárlega notað sem verkfæri en að vondu verkin komi aðeins frá vondu fólki er fráleitt.

Mjög vel meinandi fólk getur hæglega framið hin hryllilegustu verk einmitt vegna þessarar undirgefni sem þú virðist hrífast svo af. Undirgefnin er gerð að dyggð sem gott fólk tekur uppá sína arma einmitt því að það þráir það eitt að gera það sem réttast og best er.

Jafnvel þó að það feli í sér að limlesta lítil stúlkubörn.

Ég vil leggja til þessa leiðréttingu á fyrrnefndum hluta af pistli þínum:

Fáfrótt fólk notar Islam sem verkfæri bæði til góðra og vondra verka. Það hefur yfirleitt ekkert með það að gera hvort fólk er "gott" eða "vont".

KK

Mengella sagði...

Undirgefni er sammannleg hneigð. Hún er grundvöllurinn í bæði kristni og Islam.

Velviljaðir kvalarar saklausra finnast í öllum menningarheimum og eru ekki einhlít afleiðing trúarsetninga Islam.

Undirgefni er það sem Cat Stevens og móðir Teresa eiga sameiginlegt, undirgefni gagnvart tilgangi sem þau telja stærri en þau sjálf. Það að þau eiga undirgefnina sameiginlega með kúl eid liði Jones ,nasistum og einstaka sjálfsmorðssprengjumanni bannfærir ekki undirgefnina, heldur misnotkun hennar.

Nafnlaus sagði...

Og er undirgefni þá nauðsynleg til þess að fólk geti sýnt af sér góða breytni?

Þegar fólk er frætt um hlutina og styrkt í því að taka sjálfstæðar ákvarðanir út frá vandlega athuguðu máli þá hefur það sýnt sig að almennt skilar það sér í aukinni gagnkvæmri virðingu og raunverulegri hjálpsemi við náungann. Hinn ótvíræði kostur þessa er sá að það er erfitt að misnota vel þroskaða, óháða og sjálfstæða siðferðisvitund.

Það er engin þörf á þessari undirgefni sem gerir fólk að viljalausum verkfærum þeirra sem eru nógu siðblindir til að þróa hugmyndakerfi eins og islam og kristni. Í þessi tilteknu hugmyndakerfi er innlimuð bannfæring á gagnrýni á þau, svo að hægt sé að nýta þau til að fá fólk til að fylgja fávitalegustu dyntum þeirra.

Hvað gerði móðir Teresa annars sem var merkilegt?

Mengella sagði...

„Og er undirgefni þá nauðsynleg til þess að fólk geti sýnt af sér góða breytni?“

Nei.


„Það er engin þörf á þessari undirgefni sem gerir fólk að viljalausum verkfærum þeirra sem eru nógu siðblindir til að þróa hugmyndakerfi eins og islam og kristni.“

Þörf? Ætlar þú að skilgreina þarfar og óþarfar mannlegar hneigðir? Útfrá hverju? Það er þarft sem stuðlar að hámörkun mannlegs þroska?

„Hvað gerði móðir Teresa annars sem var merkilegt?“

Sá/sú sem spyr svona getur ekki verið komin langt á andlegu þroskabrautinni.

Nafnlaus sagði...

"Þörf? Ætlar þú að skilgreina þarfar og óþarfar mannlegar hneigðir? Útfrá hverju? Það er þarft sem stuðlar að hámörkun mannlegs þroska?"

Viltu ekki segja bara hreint út hvað þú vilt segja með þessari klausu? Telur þú undirgefnina vera mikilvæga í andlegum þroska? Hvernig þá?

"Sá/sú sem spyr svona getur ekki verið komin langt á andlegu þroskabrautinni."

Þú ert fyndinn.

KK

Mengella sagði...

Ég tel að undirgefni sé öfur venjuleg mannleg hneigð og í sjálfri sér hvorki góð né vond. Gildi hennar ræðst af samhenginu.

Það er til dæmis eitthvað fallegt við undirgefni Njálssona þegar þeir fylgja föður sínum í dauðann – þótt það væri hvorki skynsamlegt né þarft.

Nafnlaus sagði...

Sé voða lítið fallegt við það. Einungis göfgun á heimsku.

Það er fallegt að þeir séu trúir föður sínum en það er ekki fallegt að þeir snúi því upp í þessar öfgar.

Áttu betra dæmi til að sýna fram á það að notagildi undirgefni sé þannig að það sé ástæða til að upphefja hana?

KK

Nafnlaus sagði...

Og þú átt enn eftir að fræða mig um það hvað móðir Teresa gerði sem var á einhvern hátt merkilegt.

Mig skortir sárlega þessar upplýsingar til að lappa upp á mikinn vanþroska á andlega sviðinu.

Þorirðu ekki að takast á við þá ögrun að uppfræða vel villuráfandi sauð þannig að hann þurfi ekki lengur að lifa í myrkrinu og tóminu? Er þér alveg sama um andlega velferð mína?

KK

Mengella sagði...

Enn talarðu um notagildi sem mælikvarða á gildi mannlegrar breytni.

Gildi fólks ræðst ekki af einberri nytsemi þess. Gildið fer miklu frekar eftir því hve öfgalaus útrás mannlegra hneigða er. Meðalhófið og allt það.

Undirgefni, sem ekki er teymd áfram af heimsku, er ekki aðeins réttlætanleg heldur hreint og beint æskileg.

Nafnlaus sagði...

Þú talar um undirgefni sem eitthvað fyrirbæri sem er vanmetið eða ráðist á af ósanngirni, þess vegna spyr ég hvert notagildi hennar sé.

Ég spyr aftur: áttu betra dæmi til að sýna fram á notagildi undirgefninnar. Ef það hentar þér betur þá má spurningin alveg hljóma eitthvað á þessa leið líka: hvert er verðmæti undirgefninnar?

Ég hef hvergi sagt að undirgefni sé eitthvað sem megi hvergi fyrirfinnast.

Hvar finnur þú æskilega undirgefni sem ekki er teymd áfram af heimsku eða fáfræði?

KK

Nafnlaus sagði...

Til eru menn sem voru(og eru) reiðubúnir að fórna lífi sínu fyrir ákveðinn málstað.

"Æskilegheit" þess eða nytsemd var þeim ekki endilega efst í huga. Þeir voru m.ö.o. ekki leikslokakenningamenn.

En þeir höfðu sínar meginreglur, sem þeir voru ekki tilbúnir að hvika frá. Þannig voru þeir undirgefnir sínum gildum. Og þetta voru ekki heimskir menn.

Ertu annars að biðja um aukinn
hagvöxt?

Hvað er annars að vefjast fyrir þér?