7. september 2007

Smáborgarablogg

Mér finnst símaauglýsing Jesúsar og Júdasar drepfyndin. Ég hló þegar ég sá hana fyrst. Hana! Þar sagði ég það. Jón Gunnar er dásamlegur húmoristi, hálfgerður Buster Keaton. Það skemmtilegasta við hann er að maður hlær alltaf til hálfs að honum, í stað þess að hlæja heilshugar með honum.

Jón Gnarr er, eins og aðrir uppgjafa paunkarar, slitrótt sál. Á milli tektar og tvítugs, þegar hann átti að vera að fóðra sál sína með silkislæðum og silfri tætti hann hana í sundur í trylltum dansi heimskulegustu hugmyndafræði tuttugustu aldarinnar. Paunkið var andleg uppgjöf. Krakkabjánar að sýna endaþarmsherptum foreldrum sínum að til væru tilfinningar. Forsvarsmenn paunksins voru undirmálsmenn, sem ekki höfðu burði til að taka þátt í glerbrúðuleik foreldranna – og fóru útbyrðis í andófi sínu. Paunk er andleg uppgjöf.

Jón er gisin sál sem bregst við með því að baða sig í dreyra lambsins – á þann hræsnisfyllsta hátt sem mögulegur er. Jón trúir ekki á Guð, hann vonar á Guð. Trú hans er pragmatísk, honum sjálfum til næringar en ekki Guði til dýrðar.

Jón er kvalin og tætt sál sem hefur notið velgegni í sóðaportum menningarinnar og hlaupið þaðan dauðskelfdur. Hann skelfur eins og strá á milli gylltra kertastjaka Guðsmanna í þeirri von að brot af gljáa þeirra smitist yfir á hann. Og nú hefur biskupinn, sem Jón vill svo innilega vera dús við, hryggbrotið hann og kallað hann óverðugan þess dýrðarvarma sem báðir hafa yljað sér við fram að þessu. Pervisnasti embættismaður landsins hefur vísað á bug ódælasta vonbiðlinum.

En auglýsingin er góð.

3 ummæli:

oskar@fjarhitun.is sagði...

Góð lýsing á JG. Hann er svo sannarlega "The Sad Clown".

En, jú, auglýsingin - og reyndar allt þar sem honum bregður fyrir - er brjálæðislega fyndin.

Þá eru mikil gleðitíðindi að mestu íslensku menningarverðmæti 20. aldar, Fóstbræður, séu loksins að koma út.

Nafnlaus sagði...

Mér finnst Jón Gnarr assgoti fyndinn oftast nær en ég hef aldrei nennt að analísera fyrir mér hvaða manngerð hann tilheyrir eða hvaða umhverfi hann kemur úr og hvaða áhrif það hafi mögulega getað haft á trúarskoðanir hans, slíkt er bara fyrir fólk með of mikinn tíma.

Valtýr/Elvis2

Nafnlaus sagði...

hafði ekki hugsað þetta svona
gaman að jóni
en mikið andskoti er nóg að sjá þessa auglýsingu EINU SINNI.