(Sýndar)frelsi Vesturlanda
Þegar reynt er að stilla Vesturlöndum upp sem einhverskonar hegelskum hápunkti menningarþróunar er oft gripið til þess ráðs að hafa frelsið til marks um yfirburði menningarinnar yfir aðrar. Og vissulega er frelsið afrek, þegar ljóst er hve fámunalega lítið flestum valdhöfum þykir vænt um það. Og raunar ekki einungis valdhöfum. Það finnst fólk á lygilegustu stöðum í samfélaginu sem þykir hreint ekkert vænt um frelsið. Í augum þess er frelsið leið að markmiði en ekki markmið í sjálfu sér. Sem væri auðvitað ekki svo galið ef fólkið hefði öðlast nægan þroska til að sjá að í fyrra skiptið sem talað er um markmið í málsgreininni á undan þessari ætti orðið að vera í fleirtölu. Eintölufrelsismarkmið hafa tilfallandi tengsl við frelsi og frelsið er slíkum markmiðum hvorki nauðsynlegt né nægjanlegt.
Frelsistal á Vesturlöndum síðustu hálfa öld hefur aðeins verið mögulegt vegna þess að uppgangur frelsisins hefur gengið hönd í hönd við menningarlega forheimskun. Við erum frjáls svo lengi sem okkur langar að nýta frelsið til fánýtra hluta. Við erum frjáls að því hvaða raunveruleikaþátt við horfum á, hvaða apótek við skiptum við og hvað við snæðum í kvöldmatinn. En við erum ekki frjáls þegar kemur að því að segja skoðun okkar á valdsmönnum, trúarbrögðum eða ganga með blæju í mótmælum.
Ísland er ekkert einsdæmi. Og jafn óljúft og mér er að grípa til þeirrar klisju, þá greindi Orwell þetta hárrétt. Við erum prólar (hétu þeir það ekki?) og líf okkar snýst um brauð og leika, alveg eins og hjá öllum vestrænum hámenningarþjóðum hingaðtil.
Andæfing almennra gilda og línudans á jaðri frelsisins fer fram með táknrænum en áberandi hætti. Persóna í bók eða leikriti má gera það sem hún vill, segja það sem hún vill - og við þolum það mætavel. Demónar eru í góðu lagi svo lengi sem þeir eru annaðhvort ímyndaðir eða geðsjúkir. Hugur okkar seilist af og til í frelsisátt, í átt til uppreisnar og andófs en er svæfður jafnharðan með birtingarmyndum sauða sem ráfuðu frá hjörðinni og guldu fyrir. Barna- og raðmorðingjar, furðufuglar og fylgilið. Við höfum lært að óttast frelsið því það er nær alltaf í ógnvekjandi samhengi.
Raunveruleikinn er sá, að við erum ekkert frjáls. Það er búið að taka af okkur ólarnar en fyrst var gengið úr skugga um að við værum þæg. Þægur maður er ekki frjáls, hann er holdtekja ófrelsisins. Hann er sinn eigin fangavörður.
3 ummæli:
Frelsi okkar er neyslufrelsi, og viðlag þess er:
...bíb, bíb, bíb..."poka?"
Og pæliði í því hvernig yfirvöld leyfa sér að koma fram við mótmælendur. Þau reyna ekki einu sinni að fela það.
frelsið er best varið með því að spyrja hinn frjálsa ; þarftu að gera allt sem þú mátt gera ?
Skrifa ummæli